Kerfisbreyting í húsnæðismálum og ástandið á leigumarkaði

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 15:52:49 (1600)

1998-12-03 15:52:49# 123. lþ. 32.93 fundur 132#B kerfisbreyting í húsnæðismálum og ástandið á leigumarkaði# (umræður utan dagskrár), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[15:52]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir að vekja máls á því alvarlega ástandi sem nú er í húsnæðismálum. Húsnæðismálin eru í algjöru uppnámi og hafa í Reykjavík aldrei verið verri. Það er allsendis óljóst hvernig greiðslumatinu í húsnæðiskerfinu verður háttað nú þegar tæpur mánuður er til gildistöku nýju laganna. En undir því er komið hversu margir munu fara út á leigumarkaðinn.

Húsnæðisnefnd Reykjavíkur hefur til að mynda ekki tekið við umsóknum frá því 15. júní í sumar þegar gamla kerfinu var lokað. Holskeflan þar verður um áramótin. Nýju húsnæðislögin snúast um dreifbýlið, um að bjarga því út úr vanda þess en ekki um þéttbýlið, hvorki um höfuðborgarsvæðið né þéttbýl svæði eins og t.d. Akureyri.

Í þéttbýlinu er öfugt hlutfall á framboði og eftirspurn miðað við dreifbýlið. Hér er engan veginn hægt að anna eftirspurn. Fólksflóttinn af landsbyggðinni er ekkert að minnka. Fólk sem kemur hingað í þéttbýlið er að kaupa tveggja til þriggja herbergja íbúðir á verði þess einbýlishúss sem það átti úti á landi. Þetta fólk kemur nánast eignalaust hingað á höfuðborgarsvæðið.

Þessi mál verða að fara að skýrast. Það verður að leysa vanda þessa fólks. Það er mjög mikið óþol í þeim stóra hópi fólks sem nú er í húsnæðisvanda.