Kerfisbreyting í húsnæðismálum og ástandið á leigumarkaði

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 15:59:08 (1603)

1998-12-03 15:59:08# 123. lþ. 32.93 fundur 132#B kerfisbreyting í húsnæðismálum og ástandið á leigumarkaði# (umræður utan dagskrár), RG
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[15:59]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Staðan í húsnæðismálum þjóðarinnar nú í aðdraganda jóla er afskaplega raunaleg. Það þýðir ekkert að berja höfðinu við steininn, þessi staða er mjög alvarleg. Ég tek undir það sem hér kom fram, að undirbúningur þessara laga hefur allur verið í skötulíki.

Herra forseti. Yfir 200 manns á ári hverju hafa fengið 100% lán í félagslega kerfinu. Þetta fólk á ekki kost á kaupum á almennum markaði og þessi hópur kemur til viðbótar við þann hóp sem hingað til hefur leitað eftir leiguhúsnæði hjá sveitarfélögunum.

[16:00]

Ekki er hægt að réttlæta þessa alvarlegu stöðu með alvarlegum vanda sveitarfélaganna eins og hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir gerði áðan. Ég bendi einmitt á orð Kristínar Björnsdóttur alþingismanns sem talar um að taka þurfi á vanda félagslega kerfisins fyrir fólkið um leið og horft er á vanda sveitarfélaganna og það var ekki gert í þessum lögum. Ég ætla að vísa til þess, herra forseti, sem kemur fram í Vinnunni, 8. tbl. 1998. Þar kemur fram hjá fulltrúa húsnæðisnefndar í Kópavogi að það hafa komið fjórar félagslegar íbúðir til endurúthlutunar í allt sumar á meðan 130 manns eru á biðlista eftir húsnæði. Fulltrúinn segir að nefndin geti ekkert aðhafst þar sem þeir sem þegar eru í kerfinu haldi að sér höndum vegna óvissunnar og hún bendir á að sérfræðingar húsnæðisdeildar hafi ákveðið að meta 120 fjölskyldur sem fengu inni í félagslega eignaríbúðakerfinu á síðustu tveimur árum samkvæmt nýju reglunum og niðurstaðan var sú að aðeins 11 fjölskyldur stóðust greiðslumatið. Því hefði orðið að vísa 109 fjölskyldum í leiguhúsnæði. Ég tek undir þá gagnrýni sem fram hefur komið, herra forseti, að það eigi að lána til 120 leiguíbúða fyrir allt landið.