Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 16:38:10 (1611)

1998-12-03 16:38:10# 123. lþ. 32.9 fundur 115. mál: #A almenn hegningarlög# (mútur til opinbers starfsmanns) frv., Frsm. SP
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[16:38]

Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. allshn. á þskj. 322 um frv. til laga um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum, mútur til opinbers starfsmanns.

Nefndin fjallaði um málið á fundum sínum og aflaði umsagna um það. Breytingar þær sem lagðar eru til í frv. þessu er nauðsynlegt að gera til að unnt sé að fullnægja skuldbindingum Íslands vegna fullgildingar samnings um baráttu gegn mútugreiðslum til erlendra og opinberra starfsmanna í alþjóðlegum viðskiptum. Vegna fullgildingar samningsins er nauðsynlegt að gera breytingar á almennum hegningarlögum og fjallar frv. það sem er til umræðu um það efni, en einnig er nauðsynlegt að með lögum verði lögð ábyrgð á lögaðila vegna mútugreiðslna til erlendra opinberra starfsmanna og vegna þess er lagt til að sett verði sérstök lög um það efni í frv. sem allshn. hefur einnig fjallað um, 116. mál sem verður til umfjöllunar á eftir.

Í almennum hegningarlögum er ekki að finna almennt refsiákvæði um mútur, en skv. 109. gr. laganna varðar það refsingu að múta opinberum starfsmanni, auk þess sem starfsmaðurinn sjálfur getur sætt refsiábyrgð vegna mútugreiðslu skv. 128. gr. laganna. Til að fullnægja skyldum samkvæmt mútusamningnum verður að kveða sérstaklega á um að mútur til erlendra opinberra starfsmanna varði refsingu. Þar sem samningurinn tekur ekki eingöngu til starfsmanna erlendra ríkja er einnig ástæða til að fram komi ótvírætt í lögum að refsiverndin nái einnig til starfsmanna opinberra alþjóðastofnana. Einnig er talið nauðsynlegt að gerðar verði breytingar á 109. gr. hegningarlaga þannig að sama verknaðarlýsing eigi við hvort heldur opinberi starfsmaðurinn er innlendur eða erlendur.

Nefndin mælir með því að frv. verði samþykkt óbreytt.

Undir nál. skrifa Sólveig Pétursdóttir, Valgerður Sverrisdóttir, Jóhanna Sigurðardóttir, Hjálmar Jónsson, Jón Kristjánsson, Árni R. Árnason og Kristín Halldórsdóttir.