Dómur Hæstaréttar um stjórn fiskveiða

Föstudaginn 04. desember 1998, kl. 14:15:00 (1650)

1998-12-04 14:15:00# 123. lþ. 33.95 fundur 138#B dómur Hæstaréttar um stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 123. lþ.

[14:15]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég er alveg sammála hæstv. sjútvrh. í þeim efnum að það ber að fara mjög vandlega yfir þennan dóm og ekki rétt að bregðast við honum fyrr en sú athugun hefur farið fram. Það vekur athygli að í þessum dómi er eingöngu fjallað um 5. gr. laganna. Ekki er fjallað um 7. gr. sem er e.t.v. mikilvægasta grein laganna. Hins vegar eru ýmsar forsendur og tilvitnanir með þeim hætti að ætla mætti að verið væri að fjalla um 7. gr. En ég held það megi alveg ljóst vera að ef Hæstiréttur hefði ætlað sér að fjalla um 7. gr. hefðu verið skipaðir sjö menn í dóminn því það er svo stórt mál að það getur ekki hafa verið ætlun Hæstaréttar að fjalla um hana. Því þykir líklegt að túlka beri niðurstöðu þessa dóms fremur þröngt eins og kemur fram í lokaorðum hans því ekki sé verið að taka afstöðu til umsóknar áfrýjanda.

Hins vegar vekur það athygli mína í þessum dómi að þar stendur að stefndi hafi ekki sýnt fram á að aðrar leiðir séu ekki færar til að ná því lögmæta markmiði að vernda fiskstofna við Ísland. Hvað hefur Alþingi verið að gera annað á undanförnum árum og áratugum en að fjalla um það í sambandi við þetta mál hvort aðrar leiðir séu færar? Auðvitað eru skiptar skoðanir um hvaða leiðir séu færastar en þær leiðir sem hafa verið valdar voru valdar á ábyrgð allra stjórnmálaflokka nema Kvennalistans. Þetta hefur verið verkefni Alþingis allan þennan tíma. Hvernig í ósköpunum á Alþingi að geta sannað að engar aðrar leiðir hafi verið færar? Hér hefur löggjafarvaldið verið að sinna skyldum sínum og því kemur mér það mjög á óvart hvernig Hæstiréttur orðar það.