Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda

Mánudaginn 07. desember 1998, kl. 14:22:48 (1697)

1998-12-07 14:22:48# 123. lþ. 34.2 fundur 176. mál: #A Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv. 155/1998, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 123. lþ.

[14:22]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég kvaddi mér hljóðs við 1. umr. málsins og gagnrýndi þá 3. gr. frv. á þeirri forsendu að hún þrengdi aðkomu að stjórn sjóðsins. Það væri mikilvægt að fulltrúar allra þeirra samtaka sem aðild eiga að sjóðnum fái beina eða óbeina aðkomu að sjóðstjórninni.

Sú brtt., sem verið er að greiða atkvæði um, kemur til móts við þessar óskir og er ég samþykkur þessum breytingum sem eru á heildina litið mun lýðræðislegri en þær sem voru upphaflega lagðar til og mun lýðræðislegri en sú lausn að fela aðalfundi allt forræði í hendur. Þess má geta til upplýsingar að á síðasta aðalfundi Söfnunarsjóðsins mættu auk stjórnar aðeins tveir einstaklingar og heitir annar þeirra Pétur Blöndal og er að sjálfsögðu titlaður háttvirtur í þessum sal.