Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Mánudaginn 07. desember 1998, kl. 14:58:23 (1705)

1998-12-07 14:58:23# 123. lþ. 34.7 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 123. lþ.

[14:58]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ljóst að með þessu frv. og afgreiðslu meiri hluta heilbr.- og trn. er persónuverndin fótum troðin, ekki síður í ljósi þess að hér hafa ekki verið afgreidd boðuð lög um persónuvernd og vernd persónuupplýsinga og ég spyr hv. talsmann meiri hlutans: Styður talsmaðurinn það að þessi háttur sé á hafður, að fyrst sé þetta samþykkt og síðan förum við að fjalla um nýja löggjöf um persónuvernd? Hvað segir hv. þm. um eignarrétt á upplýsingum í ljósi afgreiðslu laga um réttindi sjúklinga? Upplýsingarnar í sjúkraskrám eru eign þeirra sem veita þær en ekki eign heilbrigðisstofnana. Hvað segir hv. talsmaður meiri hlutans um það að veita vísindamönnum heilbrigðisstofnana og sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmönnum sérstakan afslátt ef þeir leggja gögn inn í grunninn? Það er auðvitað algerlega siðlaust, virðulegur forseti.