Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Mánudaginn 07. desember 1998, kl. 15:15:19 (1719)

1998-12-07 15:15:19# 123. lþ. 34.7 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, Frsm. meiri hluta SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 123. lþ.

[15:15]

Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér er ekki um afturhvarf til fortíðar að ræða, hér er rætt mikið framtíðarmál. Það er mikið framtíðarmál að sjá fyrir sér uppsetningu á miðlægum gagnagrunni við þær sérstöku aðstæður sem við búum á Íslandi með allar ættfræðiupplýsingarnar, með allar sjúkraskrárnar sem er búið að safna í tugi ára, miklu betur en víðast hvar annars staðar, með þessa einsleitu þjóð. Þetta eru kjöraðstæður fyrir uppsetningu á slíkum gagnagrunni.

En mikil áhætta felst í því. Það kostar mikið, þetta er gífurleg áhætta, upp undir 20 milljarðar. Þetta kostar mikla peninga og það er afar ólíklegt og ég trúi því að það sé afar ólíklegt að hægt sé að fá einhvern til að fjárfesta í slíkum grunni nema það sé einhvers konar vernd. Hér er um að ræða sérleyfi til tólf ára þannig að væntanlegum starfsleyfishafa gefst sá tími til þess að ná inn þeim fjármunum sem hann leggur í grunninn á þeim tíma.