Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Mánudaginn 07. desember 1998, kl. 15:26:53 (1729)

1998-12-07 15:26:53# 123. lþ. 34.7 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, ÖJ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 123. lþ.

[15:26]

Ögmundur Jónasson (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt sem fram kemur í máli hæstv. forseta að hann getur ekki stýrt eða haft áhrif á vinnubrögð ríkisstjórnarinnar. Hann ræður engu um það þótt ríkisstjórnin ætli að reyna að þröngva í gegnum þingið lagafrv. í trássi við vilja meiri hluta vísindasamfélagsins, í trássi við vilja og óskir samtaka sjúklinga, gegn vilja samtaka á borð við Geðvernd og önnur samtök sjúklinga. Það er alveg rétt, hæstv. forseti ræður litlu um þetta. Hæstv. forseti fær litlu ráðið um það þótt ríkisstjórnin ætli að þröngva í gegn þessu máli, gegn óskum minni hlutans á Alþingi, hæstv. forseti fær litlu ráðið um þetta.

En einu fær hæstv. forseti þó væntanlega ráðið. Það er um vinnubrögð á Alþingi. Þegar ráðherra gefa fyrirheit og loforð úr ræðustól, eins og gert var af hálfu fulltrúa ríkisstjórnarinnar, um að fram komi í Alþingi frv. um persónuvernd, þá er hægt að ætlast til þess af verkstjórnendum þingsins að menn standi við gefin fyrirheit. Það er til skammar, hæstv. forseti, ef það á að láta ríkisstjórnina og ráðherra komast upp með vinnubrögð af þessu tagi.

Þess vegna ætti að ljúka umræðunni núna og taka ekki upp þráðinn fyrr en umrætt frv. hefur verið lagt fram og afgreitt af þinginu.