Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Mánudaginn 07. desember 1998, kl. 17:44:41 (1747)

1998-12-07 17:44:41# 123. lþ. 34.7 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, Frsm. 1. minni hluta ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 123. lþ.

[17:44]

Frsm. 1. minni hluta heilbr.- og trn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Það sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir segir um aðskilda grunna sem eru í sama miðlæga gagnagrunninum þá getur vel verið að það sé hagfelld aðferð og það getur vel verið að hún sé gerleg. En hún er bara ekki í samræmi við anda frv. vegna þess að það er alveg skýrt hvernig þessi grunnur er upp byggður. Það segir alveg skýrt í greinargerð með frv. að í grunninn fari engar upplýsingar aðrar en þær sem koma úr sjúkraskrám og það er grunnurinn. Allt annað tilheyrir bara einhverjum öðrum grunni og hvort sem það getur verið í vörslu eða eigu rekstrarleyfishafa. Það er allt annað mál. En það gilda sérstakar reglur núna um samkeyrslu við ættfræðigrunninn og almennar reglur um samkeyrslu við öll önnur gögn eins og t.d. sakaskrá, fjárhagsupplýsingar og erfðafræðilegar upplýsingar sem ekki koma úr sjúkraskránni. Þannig er það. Tölvunefnd verður að samþykkja þetta.

Ég skil hins vegar málið svo af framsögu hv. þm. að verið væri að vísa til þess að það kynni að eiga að ráðast í verulega miklar breytingar á þessu.

Varðandi dulkóðunina þá viðurkenni ég að ég misskildi málið. Ég skildi ekki fyrr en ég fór að kynna mér þetta betur og hafði lesið greinargerð Hákons Guðbjörnssonar sem hann veitti Skýrr að ætlunin var sú upphaflega að geyma heilbrigðisupplýsingarnar dulkóðaðar og ég átti erfitt með að skilja hvernig væri þá hægt að nota þær. En það kemur fram í þeirri greinargerð að þær eru afkóðaðar þegar þær eru settar niður í sérstakt vinnslulag og nýttar á þeim grundvelli. Og þá gekk dæmið upp fyrir mér.

Þegar ég fór síðan að hugsa hvað felst í þessu og skoða betur minnisblað Stika og hvað í því felst og hvernig dulkóðun er beitt þar, þá rann það upp fyrir mér að hérna er um meginbreytingu að ræða sem gerir það að verkum að það verður tiltölulega auðvelt ef menn komast ólöglega yfir gagnagrunninn að brjóta dulkóðunina á kennitölunum. Svo er mér a.m.k. sagt af mér miklu fróðari mönnum um þessi efni.