Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 08. desember 1998, kl. 14:33:13 (1777)

1998-12-08 14:33:13# 123. lþ. 35.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 123. lþ.

[14:33]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem fyrst og fremst upp til að leiðrétta hv. þm. vegna þeirra ummæla sem hann lét falla í dag. Í fyrsta lagi átti ég í andsvari við hv. þm. Siv Friðleifsdóttur í gær og benti á að hin ríkisverndaða fjárfesting sem á að vera í þessum gagnagrunni sé mjög sambærileg við stóra fjárfestingu í áliðnaði. Ég bar þetta saman og nefndi að það væri ný stefna hjá ríkisstjórninni að ríkisvernda fjárfestingu. Hv. þm. hefur stundum talað eins og hann sé einhver fjármagnspostuli. Hann hefur stundum leyft sér að tala um frelsið og bent á að fjárfesting sé áhætta. Vissulega er fjárfesting áhætta. En í þessu tilviki, virðulegi forseti, á að ríkisvernda fjárfestinguna. Það var þetta tvennt sem ég var að bera saman.

Aukinheldur minnti hv. þm. áðan á það líka að maðurinn væri breyskur, jafnvel væru hæstaréttardómarar breyskir sem og sérfræðingar. Ég er ekki frá því að formaður utanrmn. sé það líka, a.m.k. ef marka má niðurstöðu hans í þessu samkeppnismáli. Ég ætla bara að benda á það án þess að lesa það sérstaklega upp að okkar helstu sérfræðingar í samkeppnismálum segja að frv. eins og það lítur út núna fari í bága við EES-samninginn. Ég ætla að leyfa mér, virðulegi forseti, þrátt fyrir allt mannvit hv. þm. að trúa frekar Samkeppnisstofnun en formanni utanrmn.