Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 08. desember 1998, kl. 17:35:42 (1801)

1998-12-08 17:35:42# 123. lþ. 35.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 123. lþ.

[17:35]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum nú meira sammála en ósammála þannig að ég þarf ekkert að halda langar ræður og það var gott að ég misskildi hv. þm. Hann kom með það í seinni ræðu sinni að honum þætti ekki of miklu fjármagni varið til heilbrigðismála. Það var akkúrat það sem ég vildi fá út úr ræðu hv. þm. og þar erum við sammála.

Ég er alveg sammála honum í því að við getum alltaf gert góða þjónustu betri og við getum ávallt haft það í endurskoðun að fara enn betur með fjármagn en við gerum og það ber okkur að gera. Þegar upp er staðið erum við því sammála í megindráttum. Ég ætla að endurtaka það sem ég sagði áðan að það er misskilningur hjá hv. þm. ef hann heldur að sú sem hér stendur telji að gagnagrunnurinn muni stýra heilbrigðisþjónustunni framvegis. Það er alger misskilningur hjá hv. þm.