Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 08. desember 1998, kl. 22:53:06 (1822)

1998-12-08 22:53:06# 123. lþ. 35.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 123. lþ.

[22:53]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Ég skil örlítið betur nú hvers vegna hv. þm. er svona óskaplega dapur og líður svona voðalega illa. Ástæðan er sú að þar sem fjármunir eða peningar koma nærri, þar sem hugsanlega er gróði, sé nauðsynlegt að vera tortrygginn og búast ekki við neinu góðu. Rekstrarleyfishafinn er að sjálfsögðu ábyrgur og á að vera ábyrgur aðili. Markmiðið með lagafrv. þessu er svo ég vitni beint í það, með leyfi forseta:

,,Markmið með lögum þessum er að heimila gerð og starfrækslu miðlægs gagnagrunns með ópersónugreinanlegum heilsufarsupplýsingum í þeim tilgangi að auka þekkingu til þess að bæta heilsu og efla heilbrigðisþjónustu.``

(ÖJ: Og auka hamingju þjóðarinnar?) Að sjálfsögðu. Um leið, eftir því sem frekast er kostur.

Að segja að rekstrarleyfishafanum sé hreinlega sama um fólk og deCODE sé ekkert annað en gróðafyrirtæki fjárplógsmanna. Hv. þm. er ekki sæmandi að tala svona.