Framhald umræðu um gagnagrunn á heilbrigðissviði

Miðvikudaginn 09. desember 1998, kl. 14:05:04 (1864)

1998-12-09 14:05:04# 123. lþ. 36.95 fundur 155#B framhald umræðu um gagnagrunn á heilbrigðissviði# (um fundarstjórn), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 123. lþ.

[14:05]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það er ágætt að hv. framsögumaður meiri hlutans hyggist svara þessum spurningum síðar í umræðunni. Ég vek athygli á því að hv. framsögumaður er ekki kominn á mælendaskrá. Fjöldi annarra er hins vegar kominn á mælendaskrá. Það sem ég sagði áðan, herra forseti, voru í raun tilmæli til hæstv. forseta um að hliðra til fyrir hinum ágæta þingmanni og framsögumanni meiri hlutans svo hún komist á mælendaskrá eigi síðar en nú þegar. Ég held að það mundi greiða fyrir umræðunni ef þingheimi bærust þau svör, sem hv. þm. segir að hún hafi þegar undirbúið við þeim spurningum sem fram hafa komið í umræðunni sem allra fyrst, nú þegar, eftir eina ræðu eða tvær. Ég tel mikilvægt að það gerðist sem fyrst en ekki að svör hv. þm. kæmu fram einhvern tímann í nótt eða næstu nótt. Það mundi einfaldlega þýða það að endurtaka þyrfti alla þessa umræðu aftur.