Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Miðvikudaginn 09. desember 1998, kl. 21:25:33 (1901)

1998-12-09 21:25:33# 123. lþ. 36.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 123. lþ.

[21:25]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir þessi svör. Það er fínt að fá það skýrt að réttur sjúklinga verði á engan hátt skertur. Ég taldi það sjálf þegar ég var við vinnuna í nefndinni, en sú grein sem ég vitnaði í hér í Morgunblaðinu frá því á föstudaginn vakti áhyggjur hjá mér, en það er greinilegt að það er ekki skilningur meiri hlutans og ég fagna því.

Aftur á móti um það að leita til Eftirlitsstofnunar EFTA hvort málið standist EES-samninginn þá harma ég að meiri hlutinn skuli ekki vera tilbúinn til þess. Lagastofnun telur að þarna sé einhver áhætta á ferðinni, Samkeppnisstofnun taldi það ótvírætt að þetta stæðist ekki samninginn. Það eru fjögur atriði sem þarna virðast stangast á við EES-samninginn og ég hefði bara talið að við værum menn að meiri ef við leituðum álits til þeirrar eftirlitsstofnunar sem á að gæta þess að ekki sé farið á svig við þessar reglur og við værum ekki að samþykkja hér lög sem yrðu þá í uppnámi skömmu eftir samþykkt ef fram kæmi kæra. Ég hefði talið eðlilegt að fram færi athugun á því og leitað yrði þarna álits.

En hvað með það hvort einkarétturinn standist stjórnarskrána eins og við höfum talað um? Svar við því getur auðvitað komið fram síðar en ég hefði talið ástæðu til að við leituðum álits á því einnig. Og síðan að frv. um persónuverndina komi fram áður en við í nefndinni ljúkum meðferð málsins fyrir 3. umr.