Tryggingagjald

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 14:35:48 (1966)

1998-12-10 14:35:48# 123. lþ. 37.3 fundur 228. mál: #A tryggingagjald# (lífeyrissparnaður launamanns) frv. 148/1998, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[14:35]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér þykir ekki sanngjarnt hjá hv. þm. Pétri Blöndal að gera svo lítið úr þessu sem hér er á ferðinni eins og mér fannst hann gera í ræðustóli áðan. Þannig er að launþegar og sjálfstæðir atvinnurekendur sem greiða í lífeyrissjóð fá samkvæmt lögum sem voru samþykkt við afgreiðslu lífeyrissjóðafrv. möguleika til að leggja 2% af launum sínum til viðbótar inn í lífeyrissjóð að eigin vali og geta lagt þetta inn á séreignarreikninga eða hvaða þá reikninga sem þeim sýnist og lífeyrissjóðirnir bjóða upp á. Þarna er í rauninni verið að bæta 10% álagi ofan á þetta 2% framlag. Hvað þýðir þetta fyrir hinn almenna iðgjaldsgreiðanda í lífeyrissjóð og fyrir réttindi hans þegar fram líða stundir? Jú, með þessum viðbótarlífeyrissparnaði er verið að skapa möguleika á 20% betri lífeyrisréttindum en annars væri, miðað við það að menn séu að leggja almennt 10% í lífeyrissjóð. Með þessari litlu viðbót sem hv. þm. gerir svo lítið úr er verið að hækka þetta upp í 22% viðbót við lífeyrisréttindin, yfir starfsævi ef því er að skipta. Mér finnst ástæðulaust af hv. þm. að gera svona lítið úr þessu þannig að það eigi bara að hætta við þetta. Ég hefði skilið það ef þingmaðurinn hefði verið örlátari í þessu efni og verið á móti þessu á þeirri forsendu að ómögulegt væri að hafa þetta 0,2%, heldur ættu þetta að vera 1,2%.