Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1999

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 16:14:51 (2003)

1998-12-10 16:14:51# 123. lþ. 37.7 fundur 321. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1999# (breyting ýmissa laga) frv. 158/1998, SvG
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[16:14]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það frv. sem hér er til meðferðar er tiltölulega einfalt og þarf ekki að hafa um það mörg orð. Frv. af þessu tagi eru þekkt hér en hafa hins vegar breyst að verulegu leyti, bæði vegna þess að sett hafa verið ný lög um ráðstafanir í ríkisfjármálum eða meðferð ríkisfjármála öllu heldur, fjárreiður ríkisins og líka vegna þess að menn hafa tekið ákvörðun um að gera mjög mikið af þeim skerðingum sem áður voru tímabundnar varanlegar.

[16:15]

Í sjálfu sér má því segja að af því sem var í fyrri frv. standi eftir þrjár eða fjórar greinar. Það er út af fyrir sig ágætt. Það er betra að hafa þetta skýrt til lengri tíma, þó vafalaust sé sárt fyrir þá sem hlut eiga að máli þegar skerðingarnar eru gerðar varanlegar. Ég ætla því ekki að eyða mörgum orðum í þessar skerðingar.

Hér er í fyrsta lagi tillaga um breytingu á lögum um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga, með síðari breytingu, sem felur í sér að lagður er á ákveðinn viðbótareignarskattur til að standa undir endurbótum og uppbyggingu menningarstofnana. Viðbótareignarskattur þessi var fyrst lagður á í tíð Sverris Hermannssonar, þáv. menntmrh., og síðan framlengdur af mörgum eftirmönnum hans. Sjálfstfl. stofnaði til sérstakrar hreyfingar á móti þessum skatti á sínum tíma og hélt mikla fundi um hve nauðsynlegt væri að losa sig við þennan skatt. Engu að síður hafa menn látið sig hafa það að framlengja hann. Ég held það sé nauðsynlegt þar sem hann er látinn standa undir mjög mikilvægum verkefnum. Ég vil einnig benda á að sú skerðing sem hér er talað um getur ekki talist stórvægileg miðað við allar aðstæður.

Það er dálítið sérkennilegt en ég sé ekki betur en gert sé ráð fyrir að annars vegar fari 462 millj. kr. í menningarsjóðinn en hins vegar sé hann skertur um 80 millj. og síðan færðar á hann afborganir af langbylgjumastri Ríkisútvarpsins upp á 50 millj. Ég átta mig ekki alveg á rökunum fyrir því að færa það eins og hér er gert, að setja á sjóðinn það verkefni að standa undir afborgunum af þessu langbylgjumastri fyrir Ríkisútvarpið.

Önnur atriði sem miklu máli skipta eru breytingin á erfðafjárskattinum og það að Framkvæmdasjóður fatlaðra hefur minna fé handa á milli en ella hefði verið. Framkvæmdasjóður fatlaðra varð fyrst til 1979. Ég hygg að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hafi átt frumkvæði í þeim efnum. Áður var til svokallaður tappasjóður sem var látinn standa undir framkvæmdum í þágu fatlaðra, ekki síst fyrir frumkvæði þáv. ráðuneytisstjóra í félmrn. Síðan hefur þessi sjóður verið til en er nú meira skertur en löngum áður og það er út af fyrir sig alvarlegt gagnrýnisefni. Ég tek undir það vegna þess að hér, a.m.k. á því svæði sem ég þekki skárst til, æpa á okkur verkefni á sviði málefna fatlaðra, m.a. uppbyggingarverkefni þar sem sjóðurinn hefði sannarlega komið að góðu haldi óskertur.

Ég vil víkja aðeins að þeim almennu umræðum um efnahagsmál sem hér fóru fram að frumkvæði hæstv. forsrh. Væntanlega er það nú ekki þannig að nokkur hafi orðið fyrir beinum skaða af góðærinu. Ég hygg að svo sé ekki þótt máltækið segi að það þurfi sterk bein til að þola góða daga. Líklegt er að flestir hafi sloppið í gegnum góðærið án þess að hafa orðið fyrir tjóni af nokkru tagi. Hins vegar eru þær skoðanir uppi, m.a. af hálfu okkar stjórnarandstæðinga, að ávinningnum af góðærinu hefði mátt dreifa öðruvísi. Ég tel að tvennt skipti þar mestu. Annars vegar hefði þurft að nota ávinninginn af góðærinu, m.a. til að byggja upp félagslega þjónustu, t.d. þjónustuna við fatlaða, og félagslegt húsnæðiskerfi sem við teljum að hafi verið spillt mjög verulega. Gjarnan hefði mátt hugsa sér að við hefðum fyrr á þessu góðæristímabili sett okkur það markmið að nota ávinninginn af góðærinu markvisst til að lækka skuldir ríkissjóðs.

Ljóst er að þrátt fyrir hið mikla góðæri búum við við fátækt. Það er til fátækt í þessu landi. Það er til húsnæðislaust fólk og margt af því í þessu plássi, Reykjavík, þar sem þingið er statt. Það er m.a. af þeim ástæðum sem formaður Alþb. hefur óskað eftir að fram fari umræða um þessa skýrslu, um fátæka á Íslandi. Ég vænti þess að sú umræða utan dagskrár geti orðið áður en langur tími líður. Mér sýnist að það sé nauðsynlegt, með hliðsjón af þeim orðaskiptum sem hér hafa orðið um þau mál, að sú umræða fari fram.

Þrátt fyrir misskiptingu góðærisins og annan vanda og þrátt fyrir að menn hafi verið að hnotabítast um hve langt menn vildu ganga í að borga niður skuldir ríkissjóðs og fleira þá finnst mér einnig nauðsynlegt að spyrja um í tilefni af ræðu hæstv. forsrh.: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til að taka á þeim þensluvanda sem er í þjóðfélaginu og er fyrirsjáanlegur áfram? Ég held að ekki sé hægt að neita því að viðskiptahallinn er gríðarlega mikill. Það liggur líka fyrir að talsvert af tekjum ríkissjóðs eru svo að segja vegna viðskiptahalla, vegna þess að menn eru að taka inn veltuskatt á viðskiptahallann. Við höfum rætt um ýmsar ráðstafanir til að auka sparnað, t.d. var frv. um breytingu á lögum um tekju- og eignarskatt á dagskrá í efh.- og viðskn. í morgun. Það gerir ráð fyrir að framlengja afslátt vegna hlutabréfakaupa. Einnig hafa verið gefnar út skýrslur um sparnað, ég hygg á vegum Seðlabankans eða slíkra aðila og allt er gott um það að segja þó umdeilt sé hversu gott innihaldið er í þeim skýrslum, en látum það vera.

Veruleikinn er sá að það þarf að taka á vandanum, ekki síst með hliðsjón af því, herra forseti, að á næsta ári eru kosningar. Ef við skoðum efnahagsþróun Íslendinga yfir nokkurra áratuga skeið þá hafa hlutirnir gjarnan farið talsvert úr böndunum á kosningaári. Þá gæti góðærið komið í hausinn á okkur og skapað vanda, þ.e. í efnahagskerfi þjóðfélagsins eftir fáein missiri. Spárnar um efnahagsþróun í heiminum á allra næstu árum eru ekki mjög jákvæðar. Spár eru gerðar á vegum margra erlendra aðila, m.a. á vegum OECD.

Það er greinilegt að við þurfum að búa okkur undir að geta ekki búist við eins miklum tekjuauka af góðæri og hagvexti á allra næstu árum og síðustu árin. Það stafar m.a. af því að ekki er hægt að búast við að áframhaldandi hækkun verði á útflutningsverði sjávarafurða. Það er ekki við því að búast að áframhaldandi hraðlækkun verði á innflutningsverði olíu svo ég nefni dæmi. Ég geri ekki ráð fyrir að það verð geti farið öllu neðar. Veruleikinn er sá að við getum séð fram á lækkandi tekjur á sama tíma og heildareyðslustig þjóðfélagsins er gríðarlega uppspennt um þessar mundir. Í framhaldi af orðum hæstv. forsrh. áðan, án þess ég ætli að fara út í mikla umræðu um þessi mál, ætla ég að spyrja: Hvaða áform hefur ríkisstjórin um að taka á þessum málum, þ.e. þessum þensluvandamálum sem vissulega eru til staðar þótt okkur greini eitthvað á um orsakir þeirra?