Lífeyrissjóður bænda

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 19:21:49 (2063)

1998-12-10 19:21:49# 123. lþ. 37.9 fundur 323. mál: #A Lífeyrissjóður bænda# (heildarlög) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[19:21]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það getur ekki verið að fara þurfi út í grundvallarfræðslu af því tagi sem mér fannst hv. þm. biðja um með spurningum sínum. Er þá hv. þm. Pétur Blöndal virkilega eftir allt sitt baks, alla stærðfræðina og möndlið í kringum lífeyrissjóðina svo fáfróður um málefni þeirra að hann þurfi að spyrja grundvallarspurninga eins og hverjir eigi lífeyrissjóðina?

Hvað er Lífeyrissjóður bænda? Hvað er lífeyrissjóður stéttar? Það liggur í eðli málsins hver eigandinn er. Það er stéttin sameiginlega. Þetta er félagslegur sjóður stéttarinnar til að tryggja mönnum öryggi, tryggja þá gagnvart örorku og tryggja þeim eftirlaun þegar á þann aldur er komið. Þetta er kollektíf, félagsleg sameign stéttarinnar sem hún hefur byggt upp í samstarfi við vinnuveitendur sína og með stuðningi stjórnvalda.

Spurningaleikur af þessu tagi og fíflagangur, liggur mér við að segja, eins og í brtt. hv. þm. þar sem hann reynir endalaust að troða inn einkaeignarréttarlegum ákvæðum í lög um lífeyrissjóðina, er auðvitað út í hött. Mér finnst að hv. þm. eigi að fara að hugsa sinn gang, hætta þessum eintrjáningshætti, þessari nauðhyggju og þráhyggju sem hann er haldinn þegar málefni lífeyrissjóða ber á góma svo hann sé ekki alltaf hér eins og spýtukarl stokkinn upp í loftið eins og af gormum um leið og þetta orð heyrist í þingsölum: lífeyrissjóður.