Fjárlög 1999

Föstudaginn 11. desember 1998, kl. 11:15:14 (2106)

1998-12-11 11:15:14# 123. lþ. 38.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, Frsm. meiri hluta JónK
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 123. lþ.

[11:15]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Undanfarin þrjú ár hefur landsframleiðsla aukist meira en samanlagt næstu átta ár á undan. Hagvöxtur hefur verið um eða yfir 5% á ári sem er mun meira en er að jafnaði í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Atvinnuleysi varð mest 5% af mannafla árið 1995 en er nú undir 3% og fer minnkandi. Það segir sig sjálft að það reynir mjög á þolrifin í hagkerfinu við þessar aðstæður og ábyrgð þeirra sem fara með hagstjórnina er mikil því meginmáli skiptir varðandi framtíðarhagvöxt og lífskjarabata að varðveita þann stöðugleika í verðlagsmálum sem ríkt hefur hér að undanförnu. Sviptingar í efnahagsmálum á alþjóðavettvangi undanfarin missiri undirstrika rækilega hve mikilvægt það er að gæta varúðar í hagstjórn.

Ríkisfjármálin eru í lykilhlutverki í þessu tilliti. Markmiðið hlýtur að vera að ná jöfnuði í ríkisbúskapnum, þ.e. þegar miðað er við meðalárferði. Þannig er skynsamlegt að slaka á markmiðum um tekjuafgang þegar þjóðarbúið verður fyrir áföllum til að draga úr samdrætti í efnahagsstarfseminni en á sama veg er æskilegt að bæta afkomuna þegar góðæri ríkir. Aukin tengsl íslenskra hagkerfisins við erlenda fjármagnsmarkaði og efnahagssamruninn í Evrópu hafa leitt til þess að svigrúm til þess að beita hefðbundnum stjórntækjum peningamála til hagstjórnar hefur minnkað og því hefur mikilvægi ríkisfjármálanna aukist enn frá því sem áður var.

Horfur eru á að góðærið sem ríkir í þjóðarbúskapnum haldi áfram á næsta ári. Í framhaldinu er gert ráð fyrir 2,5% hagvexti, sem er svipað og að jafnaði í iðnríkjunum. Þær áætlanir eru þó byggðar á þeirri forsendu að úr rætist í alþjóðlegum efnahagsmálum og að þau lönd sem hafa orðið fyrir skakkaföllum vinni sig smám saman út úr ógöngunum. Ekki eru allir á eitt sáttir um það mat og óhætt að fullyrða að veruleg óvissa ríkir um framhaldið. Frekari samdráttur á alþjóðavettvangi umfram það sem þegar er orðið kæmi að öllum líkindum fram í lakari viðskiptakjörum en reiknað er með í spám nú. Þetta er nauðsynlegt að hafa í huga varðandi spár um þróun efnahagsmála og afkomu ríkisins á næsta ári.

Eitt meginviðfangsefni hagstjórnarinnar um þessar mundir er mikill halli á viðskiptum við útlönd. Að verulegu leyti á viðskiptahallinn sér rætur í fjárfestingum fyrirtækja og heimila en þótt spáð sé samdrætti í fjárfestingum á næsta ári er í þjóðhagsáætlun enn spáð um 25 milljarða halla á viðskiptum við útlönd árið 1999. Þetta endurspeglar þá staðreynd að þótt fjárfestingar hafi aukist verulega frá því sem var fyrir nokkrum árum þá hefur sparnaður ekki aukist að sama skapi. Þessu er brýnt að breyta og stjórnvöld gera það best með því að bæta afkomu ríkissjóðs.

Breytingarnar sem orðið hafa á umgjörð efnahagsmála á undanförnum árum, lækkun verðbólgunnar, þróun fjármálamarkaða, aukin samkeppni o.s.frv., eru án efa ein af undirstöðum velgengninnar í þjóðarbúskapnum að undanförnu. Brýnt er að auka enn sveigjanleika og samkeppnishæfni íslensks efnahagslífs og bæta um leið afkomu ríkisins.

Við núverandi aðstæður hníga öll rök að því að ríkið gæti aðhalds í fjármálum og skili afgangi á fjárlögum fyrir árið 1999. Á þann veg getur ríkisstjórnin best búið í haginn fyrir áframhaldandi hagsæld.

Umfjöllun um fjárlagafrumvarpið og niðurstöður ríkisreiknings eru meðal þýðingarmestu viðfangsefna Alþingis. Sú umfjöllun snýst í stórum dráttum um afrakstur skattheimtu ríkissjóðs og ráðstöfun skatta og annarra tekna hans. Í þessu ljósi er afar mikilvægt að framsetning allra upplýsinga sem tengjast ríkisfjármálum sé trúverðug og samstaða sé um þær leikreglur sem gilda um framsetningu þeirra.

Helsti hlekkurinn í þessu upplýsingakerfi er bókhald ríkisins. Mikilvægt er að þær upplýsingar sem þar er haldið til haga séu nýttar til að efla stjórn ríkisfjármála. Upplýsingarnar nýtast þannig bæði stjórnmálamönnum, stjórnendum ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja og ekki síst skattgreiðendum í landinu. Á grundvelli þeirra er hægt að gera grein fyrir ráðstöfun þeirra fjármuna sem skattgreiðendur láta af hendi til sameiginlegra þarfa í þjóðfélaginu. Þá ber stjórnendum ríkisfyrirtækja að nýta þessar upplýsingar til að ná fram hagkvæmni í rekstri og tryggja að ákvarðanir Alþingis um heimild til ráðstöfunar skatttekna séu virtar.

Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 1999 er annað fjárlagafrumvarpið sem byggir á ákvæðum laga um fjárreiður ríkisins frá árinu 1997 hvað varðar framsetningu og efnisskipan.

Lögin um fjárreiður ríkisins fólu í sér þá meginbreytingu að framvegis skyldi framsetning fjárlaga og ríkisreiknings vera samræmd. Samræmingin felst fyrst og fremst í því að fjárlög eru nú sett fram á rekstrargrunni á sama hátt og ríkisreikningur. Framsetning þessara upplýsinga verður því framvegis mjög í stíl við það sem almennt gildir um reikningshald fyrirtækja. Því má ætla að auðveldara verði að bera saman og meta árangur af rekstri ríkisstofnana við hinn almenna markað.

Í annan stað og ekki síður mikilvægt er að reikningsskil ríkissjóðs séu samanburðarhæf við ríkisfjármál annarra landa. Í því sambandi skiptir máli að flokkun tekna og gjalda og skilgreining þeirra aðila sem reikningsskil hins opinbera ná til fari að alþjóðlegum stöðlum og reglum.

Þrátt fyrir mjög veigamiklar breytingar var ekki stigið það skref nú að eignfæra fastafjármuni í efnahagsreikningi ríkissjóðs með sama hætti og tíðkast hjá fyrirtækjum almennt. Á hinn bóginn verður eignarhlutur A-hluta ríkissjóðs hjá aðilum utan hans framvegis færður til viðbótar peningalegum eignum og er það breyting frá því sem áður var.

Þeir þættir sem ég hef nefnt munu bæta til muna notagildi reikningsskila ríkissjóðs. Sú reynsla sem fengist hefur af hinni nýju skipan er að sjálfsögðu takmörkuð þar sem fyrsta uppgjörstímabilinu er ekki lokið. Ríkisreikningur samkvæmt hinum nýju lögum liggur eðli málsins samkvæmt ekki enn fyrir og því er enn sem komið er ekki hægt að bera saman áætlun fjárlaga við endanlega niðurstöðu ríkisreiknings. Hins vegar liggur ljóst fyrir að vinnubrögð við gerð fjárlaga hafa breyst frá því sem áður var. Þar sem allar fjárhæðir í fjárlögum skulu vera á rekstrargrunni verður nú t.d. að tíunda allar skuldbindingar sem vitað er um að ríkissjóður muni gangast undir eða falla á hann á uppgjörstímabilinu. Þetta ber að sýna, óháð því hvenær og hvernig viðkomandi skuldbindingar eru greiddar eða gerðar upp. Breytingarnar hafa í för með sér að nú liggja fyrir langtum nákvæmari upplýsingar um afkomuhorfur ríkissjóðs á uppgjörstímabilinu en áður var. Stjórnvöldum og Alþingi er betur ljóst hvaða aðgerða grípa þarf til í ríkisfjármálum til að ná markmiðum í þeim efnum á hverjum tíma. Þetta er nokkuð önnur staða en áður tíðkaðist því oft á tíðum þurfti Alþingi að grípa til sérstakra aðgerða í ríkisfjármálum vegna þess að nákvæmar upplýsingar um skuldbindingar ríkisins lágu ekki fyrir við fjárlagagerð. Þá er ekki vafi á því að hin nýja löggjöf um fjárreiður ríkisins hefur leitt til betri vinnubragða, ekki einungis við gerð fjárlaga heldur ekki síður við framkvæmd og ákvörðun í ríkisfjármálum.

Eins og ég gat um að framan liggur ekki enn þá fyrir hvernig allir þættir ríkisfjármálanna sem lögin um fjárreiður ríkisins kveða á um muni ganga fram. Hins vegar er ljóst að sú reynsla sem fengist hefur staðfestir mikilvægi þessarar lagasetningar. Auknar kröfur til starfsmanna hins opinbera í breytilegu starfsumhverfi kalla á að menn séu stöðugt vakandi við endurmat á störfum sínum og leiti leiða til að nýta sem best þá fjármuni sem til ráðstöfunar eru á hverjum tíma. Eitt mikilvægasta tækið í þessari viðleitni er að til staðar séu traustar upplýsingar sem hægt er að leggja til grundvallar við ákvarðanatöku. Lögunum um fjárreiður ríkisins var m.a. ætlað það hlutverk og bendir fátt til annars en að þau meginmarkmið sem stefnt var að með þeim náist.

Fjárlaganefnd hefur að venju fyrir 2. umr. málsins farið yfir gjaldahlið frumvarpsins og tekið viðtöl við fjölmarga aðila og tekið afstöðu til yfir 1.000 beiðna um fjárveitingar. Það liggur í augum uppi að nefndinni er nokkur vandi á höndum í starfi sínu. Fjölmörg félagasamtök, stofnanir ríkissjóðs, samtök um ýmis konar almannahagsmuni, og jafnvel einstaklingar sækja á um kostnaðarþátttöku eða fjárframlög frá ríkissjóði, eða telja hlut sinn vanmetinn í frumvarpinu. Það væri æskilegt að geta tekið undir og mætt sem flestu af þessu, en fjárlaganefnd verður ætíð í starfi sínu að hafa meginmarkmiðið í huga, að skila hallalausum fjárlögum. Það markmið réttlætir að sinna ekki öllu til fulls, vinna verkefni á lengri tíma, en samræmist ýtrustu óskum eða láta verkefni bíða sem eru ekki brýn að mati nefndarinnar.

Margir haft orð á því við mig undanfarnar vikur hvort ekki sé léttur leikur að vinna við fjárlögin núna, peningar flæði inn í ríkissjóð úr öllum áttum. Sem betur fer er ástand efnahagsmála þannig nú um stundir að uppsveifla er í atvinnulífinu og tekjur hafa aukist umfram áætlanir. Neyslan hefur einnig aukist og ríkissjóður nýtur góðs af því. Hins vegar vilja margir sækja sinn hlut og ef öllu væri sinnt þá mundi verða verulegur halli á ríkissjóði. Það er grundvallaratriði í efnahagsstjórninni að reka ríkissjóð hallalausan þegar vel árar eins og ég gat um í upphafi máls míns.

Hins vegar má aldrei missa sjónar á því að velferðin byggist á öflugu atvinnulífi. Viðbótarútgjöld til hinna ýmsu málaflokka verða að byggjast á aukningu þjóðartekna. Þetta samhengi má aldrei slitna. Grundvöllur hins svokallaða góðæris í efnahagsmálum er sá að sjávarútvegurinn hefur verið að styrkja stöðu sína og ávinningurinn af því deilist til ríkissjóðs og út um allt þjóðarbúið. Samhliða hafa ýmsar aðrar greinar atvinnulífsins svo sem hugbúnaðargerð, ferðaþjónusta og orkufrekur iðnaður lagt meira til þjóðarbúsins en áður. Það er mikil nauðsyn að atvinnulífið hvíli á sem flestum stoðum, svo niðursveifla í einni grein, t.d. í sjávarútvegi, setji ekki afkomu þjóðarbúsins í hættu, bæði afkomu einstaklinga, fyrirtækja og ríkissjóðs. Þess vegna er farsælast að sem flestar atvinnugreinar hafi möguleika til framþróunar. Það er afar brýnt að hafa þetta í huga í þeirri umræðu sem nú fram um framþróun í atvinnumálum þar sem talið er óæskilegt að atvinnugreinar eins og orkufrekur iðnaður vaxi, en framþróun eigi að byggja framar öðru á ferðaþjónustu og hugbúnaðargerð, auk sjávarútvegsins.

Einnig er afar brýnt á þessum óvissutímum í sjávarútvegi að leitast við að finna leiðir í þeim málaflokki sem tryggi jafnræði í greininni og hagkvæmni í rekstri og byggð í landinu. Þetta einstigi er ekki auðvelt að feta.

Ég nefni þetta í umræðu um ríkisfjármál vegna þess að samhengið milli velferðarinnar og atvinnulífsins vill stundum gleymast.

Ég mun áður en ég geri grein fyrir breytingartillögunum geta um nokkur atriði sem hafa verið fyrirferðarmikil í starfi nefndarinnar og geta um áherslur sem hún lagði.

Launamálaþátturinn hefur reynst erfiður viðfangs og eru ekki öll kurl komin til grafar hvað hann snertir, þótt tekið sé á stórum hluta vandans í frumvarpinu og breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar. Kjarasamningar hafa miðað að því að færa ýmsar greiðslur, svo sem yfirvinnu, inn í grunnlaunin í þeim tilgangi að gera launakerfið gegnsærra. Í sumum tilvikum hefur þetta leitt til verulegs kostnaðarauka. Heilar starfsstéttir hafa notað hópuppsagnir til þess að ná málum sínum fram. Það er nauðsyn að ná sáttum í samfélaginu sem koma í veg fyrir að slíkum baráttuaðferðum sé beitt. Það getur engan veginn talist réttlátt hvorki gagnvart launamönnum né atvinnurekandanum, hvort sem hann er ríkisvaldið eða einstaklingar. Aðstaða launamanna til að beita slíkum aðferðum er afar mismunandi þar sem sumir eru bundnir af samningum og geta sig hvergi hrært meðan aðrir í skjóli sérhæfingar og eftirspurnar eftir starfskröftum þeirra geta beitt hópuppsagnaaðferðinni til þess að knýja fram launahækkanir. Unnið hefur verið að því af kappi að uppreikna launaliðinn og því mun hann einnig koma fyrir við 3. umr. málsins.

Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1999 eru 300 millj. kr. á óskiptum lið til verðbóta á laun. Er meðal annars ætlað fyrir kostnaði vegna áhrifa kjaranefndar á laun til prófessora undir þeim lið. Nú er að auki farið fram á 104 millj. kr. til að bæta launakostnað framhaldsskóla en það er til leiðréttingar forsendum sem lagðar voru til grundvallar í reiknilíkani við skiptingu á fjárveitingu til skólanna í fjárlögum árið 1998. Þá er farið fram á tæplega 200 millj. kr. til að bæta vanmetinn kostnað við kjarasamninga hjúkrunarfræðinga og 54 millj. kr. vegna stofnana fatlaðra. Loks eru 30 millj. kr. vegna áhrifa nýlegra kjarasamninga á launakostnað fangavarða.

Eftir þessa umræðu er lokið við að bæta alla kjarasamninga sem gerðir hafa verið ef frá eru taldir nýlegir samningar við meinatækna og önnur fámennari félög háskólamenntaðra á sjúkrahúsum. Einnig er verið að endurmeta tiltekin atriði er hafa áhrif á útgjöld sjúkrastofnana vegna kjarasamninga við lækna og launabætur við lækna á hjúkrunarheimilum. Verður gerð tillaga um fjárveitingar vegna þessa við 3. umr. fjárlaga að svo miklu leyti sem kostnaðurinn verður umfram framangreindar 300 millj. kr.

[11:30]

Fjárlaganefnd tók þá ákvörðun við fjárlagagerð fyrir yfirstandandi ár að leggja fé til undirbúnings fjarnáms á háskólastigi á Austurlandi. Þessi ákvörðun var upphaf að hraðfara þróun í þessum málum. Fleiri hafa fylgt í þessa slóð og nú er hafinn undirbúningur að fjarnámi og endurmenntun í öllum landshlutum. Meiri hluti fjárlaganefndar ákvað að setja þessi mál í forgang í úthlutunum til menntamála, og veitir fé til þessara mála á Vestfjörðum, Vesturlandi, Suðurlandi og Suðurnesjum og Norðurlandi vestra í breytingartillögum sínum. Auk þess er veitt fjármagn til Kennaraháskólans, Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri til fjarkennslumála. Það er skoðun meiri hlutans að með þessari afgreiðslu sé hægt að gera myndarlegt átak á næsta ári til þess að mæta þeirri hröðu þróun sem verið hefur í þessum málum. Fjarkennsla hefur verið í örri þróun hérlendis og hér er um aðferð til náms að ræða sem jafnar aðstöðu fólks eftir búsetu, með öðrum orðum ósvikið byggðamál. Vissulega tekur tíma að þróa kennsluaðferðir og námsframboð með þessari nýju tækni en mikill áhugi er fyrir hendi.

Annan málaflokk undir mennta- og menningarmálum vil ég gera sérstaklega að umræðuefni. Það eru safnamál í víðum skilningi og verndun menningararfsins sem felst í gömlum byggingum. Þróun í safnamálum hefur verið ör undanfarin ár, og hafa söfn af hinu margvíslegasta tagi komist á legg. Ör fjölgun ferðamanna undanfarin ár hefur orðið til þess að litið er til safnauppbyggingar í tengslum við ferðaþjónustu. Starfsemi af þessu tagi hefur víða orðið aðdráttarafl. Það má nefna Vesturfararsetrið á Hofsósi og Sögusetrið á Hvolsvelli sem ljós dæmi um þetta ásamt miklu fleiri söfnum.

Fjárlaganefnd hefur fundið vel í starfi sínu að heildarlöggjöf skortir um safnamál í landinu miðað við þær breyttu aðstæður sem uppi eru. Það skortir fastmótaðar reglur um þátttöku ríkissjóðs í þessari starfsemi. Ég fullyrði að pólitískur vilji er til þess að ríkisvaldið komi að þessum málum ásamt heimamönnum. Hins vegar er nauðsyn að um þessi mál gildi reglur sem mismuna ekki þeim aðilum sem leita eftir stuðningi.

Gert er ráð fyrir að hækka þann lið sem tilheyrir byggðasöfnun og uppbyggingu þeirra, en verkefni eru mikil á þessu sviði og hafa fjárveitingar hvergi nægt til þess að koma til móts við þá þörf sem uppi er. Einnig hefur verið tekið skref í því eins og á yfirstandandi ári að hækka fjármagn til húsafriðunarsjóðs, en áhuginn fyrir varðveislu gamalla húsa hefur vaxið hröðum skrefum og er það vel. Á undanförnum árum hefur verið varið miklum fjármunum til viðhalds opinberra bygginga sem hýsa æðstu stjórn ríkisins og nú standa yfir endurbætur á Þjóðminjasafninu og á hinu fagra safnahúsi við Hverfisgötu sem er eitt mesta glæsihús hér í borginni. Nauðsyn ber til að setja sér markmið í verndun gamalla bygginga en þær eru hluti menningararfsins. Víða út um land blasa verkefnin við í þessu efni. Endurbótasjóður menningarbygginga hefur haft stærstu verkefnin með höndum en húsafriðunarsjóður hefur komið til aðstoðar mörgum verkefnum víða um land og æskilegt væri að efla hann.

Ég vil einnig nefna að meiri hlutinn gerir tillögu um að 40 milljónir fari til Háskóla Íslands vegna kennslukostnaðar. Nú er langt komin vinna við reiknilíkan á vegum háskólans og menntmrn. sem mun sýnilega leiða til aukins kostnaðar. Rétt þykir að koma nú til móts við hluta af þeim kostnaði sem reiknilíkanið mun hafa í för með sér. Einnig er tillaga um að leggja háskólanum til 14 milljónir króna til þess að skapa nemendum sínum lestraraðstöðu. Þar hefur skórinn kreppt að vegna lokunar lestraraðstöðu í Odda og vegna of stutts opnunartíma Þjóðarbókhlöðu. Það er lagt í vald stjórnenda háskólans að ráðstafa þessu fjármagni á þann hátt sem tryggir hag nemendanna sem best og skapar þeim aðstöðu við námið. Komið er að fullu til móts við þá ósk sem nefndinni barst um fjármagn til þessa verkefnis.

Nokkuð hefur verið rætt um málefni framhaldsskóla og þá samninga sem í gildi eru og eru byggðir á reiknilíkani. Því hefur verið haldið fram að fámennari skólar búi við of þröngan kost af þessum sökum. Meiri hluti nefndarinnar hefur haft þessi mál í athugun og nefndin öll, og mun hafa þau áfram til umfjöllunar milli 2. og 3. umr. málsins.

Í landbúnaðarmálum er gert ráð fyrir að létta nokkuð fóðurkostnað fóðurstöðva en það er nauðsyn nú vegna niðursveiflu sem hefur orðið á ný í loðdýraræktinni. Hún er sveiflukennd og viðkvæm atvinnugrein, en hún hefur þýðingu í atvinnulífinu hérlendis og er þegar vel gengur fullburða útflutningsgrein. Því er því réttlætanlegt að aðstoða við það að mæta niðursveiflunni sem nú er á mörkuðum fyrir loðskinn.

Ég vil einnig minnast á lið sem hefur verið óbreyttur að fjárhæð og heyrir undir landbúnaðarráðuneytið en það eru fyrirhleðslur. Óhjákvæmilegt þykir að hækka þann lið nú vegna nýrra og aðkallandi verkefna og baráttunnar við Markarfljót sem staðið hefur um árabil. Nú er fyrirliggjandi áætlun um að 150 milljónir kr. þurfi til þess að koma böndum á fljótið eins og skynsamlegt þykir. Ljóst er að þetta verk verður að vinna í áföngum og nú eru veittar 15 milljónir til verksins sem er veruleg þó hækkun frá því sem áður var. Önnur ný verkefni eru Klifandi, sem ryðst nú yfir eitt mesta gósenland á landi hér í Mýrdalnum, og Kotá í Öræfum. Það fjármagn sem fer í fyrirhleðslur er einn þátturinn í þeim herkostnaði sem felst í baráttunni gegn eyðingu lands.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til að veittar verði 7,5 millj. kr. til dómsmálaráðuneytisins til þess að standa straum af löggæslukostnaði. Hér er haft í huga að leysa það vandamál sem verið hefur um langt árabil um löggæslukostnað á útisamkomum hérlendis. Samkomuhaldarar hafa álitið mismunun fólgna í því að verða að greiða allan löggæslukostnað af þessum samkomum og víða hefur það reynst þungur baggi. Ætlunin er að dómsmálaráðuneytið setji reglur um úthlutun þessara fjármuna og sýslumannsembættin geti sótt um framlög til þess að mæta kostnaði við löggæslu á útihátíðum.

Fíkniefnavandinn í þjóðfélaginu hefur verið ræddur á Alþingi, og sá vágestur hefur víðtækar afleiðingar. Ekki fer hjá því að mörg erindi berast til fjárlaganefndar um framlög til meðferðarstofnana fyrir fólk sem hefur lent undir í samfélaginu vegna neyslu fíkniefna og áfengis. Fjöldi fólks vinnur óeigingjart starf hjá meðferðarstofnunum og lyftir grettistaki fyrir takmarkaða fjármuni. Eðlilegt er að ríkisvaldið komi til stuðnings þessum stofnunum og hefur fjárlaganefnd reynt að vinna í þeim anda. Hins vegar vill meiri hluti nefndarinnar undirstrika nauðsyn þess að ríkisvaldið geri samninga um þessa aðstoð við viðkomandi meðferðarheimili þar sem tekið er tillit til þess um hvers konar meðferðarúrræði sé að ræða og meðferðin sé viðurkennd af þar til bærum yfirvöldum. Þetta er nauðsyn til þess að samræmi sé í aðstoð ríkisvaldsins við þessar stofnanir í framtíðinni. Ég mun víkja nánar að einstökum stofnunum í skýringum við breytingartillögur nefndarinnar.

Meiri hluti fjárlaganefndar flytur 129 breytingartillögur af ýmsu tagi við fjárlagafrumvarpið við 2. umr. Ég mun gera nánar grein fyrir þeim síðar í ræðu minni en vil nú víkja að nokkrum málum sem enn eru á borði fjárlaganefndar og því hvað helst einkennir það fjárlagfrumvarp sem nú er til umræðu.

Ljóst er að nokkur veigamikil mál verða að bíða 3. umr. Fyrst skal nefna tekjuhlið frumvarpsins, en að venju verður fjallað um hana milli 2. og 3. umr. málsins. Nú er liðið á desember og virðisaukaskattskil eru nú í vikunni og eftir að farið hefur verið yfir þau ætti að vera hægt að spá með meiri nákvæmni um þróun mála. Ég vil þó vara við mikilli bjartsýni í þessu efni. Aflabrögð í helstu nytjastofnum svo sem loðnu, síld og rækju gefa ekki tilefni til þess að ætla að tekjurnar vaxi umfram áætlun. Hagstæð þróun afurðaverðs á erlendum mörkuðum gæti orðið til þess að halda í horfinu.

Af þeim málum á útgjaldahlið sem koma til umræðu milli 2. og 3. umr. má nefna að fjallað er á vettvangi ríkisstjórnarinnar um hækkun tryggingabóta og niðurstöður þeirrar vinnu munu berast fjárlaganefnd fyrir 3. umr. Í öðru lagi er starfshópur sem settur var á fót fyrir ári að leggja síðustu hönd á skýrslu um vinnu sína við sjúkrahúsin og mun fjárlagnefnd fara yfir þær milli 2. og 3. umr. Þegar hefur verið komið til móts við vanda þeirra í fjáraukalögum og fjárlögum en ljóst er að enn vantar nokkuð upp á að halla þeirra hafi verið mætt. Því er nauðsynlegt að fara yfir niðurstöður starfshópsins áður en gengið er frá fjárlögum og kanna hvort aðgerðir til aðhalds í rekstri stóru sjúkrahúsanna eða samvinna eða sameining einhverra þátta í rekstri þeirra geti mætt hluta vandans. Starfshópur um biðlista í málefnum fatlaðara hefur nú skilað skýrslu til félagsmálaráðherra. Í ljósi þess er nauðsyn að fjallað verði um þau mál milli 2. og 3. umr. málsins.

Enn eitt mál sem er til meðferðar hjá ríkisstjórn, og mun koma til meðferðar við 3. umr., er framlög vegna byggðamála. Tillaga til þingsályktunar um byggðamál er til meðferðar hér á hv. Alþingi. Það er ljóst að samþykkt hennar mun leiða til fjárframlaga úr ríkissjóði, og er þar tiltekið 300 milljón krónu framlag til þess að stofna eignarhaldsfélög til þess að vera bakhjarl atvinnuuppbyggingar á landsbyggðinni.

Tvö atriði hefur meiri hluti fjárlaganefndar sérstaklega borið fyrir brjósti en það er jöfnun námskostnaðar og niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar. Þegar hefur framlag til jöfnunar námskostnaðar verið hækkað um 25 milljónir samkvæmt tillögum sem liggja fyrir. Framlagið er til þess að standa straum af rýmkun réttar til styrkveitinga samkvæmt frumvarpi þar um sem liggur fyrir Alþingi. Sömuleiðis hefur hækkun um 50 milljónir króna sem veitt var á fjáraukalögum árið l997 og kom til útgreiðslu á yfirstandandi ári verið færð inn í fjárlagagrunninn fyrir árið l999 í niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði. Þrátt fyrir þetta þykir fjárlaganefnd rétt að fjalla frekar um þessi tvö mál í tengslum við 3. umr. fjárlaga og umfjöllun um framlög til byggðamála.

Herra forseti. Ég mun fara yfir þær breytingartillögur sem fyrir liggja um fjárlögin og þær skýringar sem fylgja.

Nefndin hóf störf 21. sept. sl. og átti viðtöl við fulltrúa sveitarfélaga sem gerðu henni grein fyrir erindum sínum. Þá hefur nefndin kallað fyrir fulltrúa ráðuneyta og einstakra stofnana.

Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. þingskapa getur fjárlaganefnd vísað til annarra fastanefnda þeim þáttum fjárlagafrumvarpsins sem fjalla um málefnasvið þeirra. Með bréfi, dags. 8. okt. sl., óskaði nefndin eftir álitum fastanefnda þingsins um frumvarp til fjárlaga, þ.e. þá þætti er varða málefnasvið einstakra nefnda. Nefndirnar hafa skilað áliti og eru þau birt sem fylgiskjöl með nefndarálitinu eins og fyrir er mælt í þingsköpum. Frá því að nefndin hóf störf við afgreiðslu frumvarpsins hefur hún haldið 36 fundi og átt viðtöl við fjölmarga aðila.

Nefndin hefur lokið afgreiðslu flestra þeirra erinda sem henni bárust, svo sem skiptingu fjárfestingarliða, að hafnalið undanskildum. Breytingartillögur þær sem eru til umfjöllunar við 2. umr. nema samtals 1.749,7 millj. kr. til hækkunar.

Æðsta stjórn ríkisins. Gerð er tillaga um 18 millj. kr. hækkun á framlagi til stofnkostnaðar á Alþingi til átaks í upplýsingamálum, skrifstofubúnaðar og öryggiskerfis og 7,3 millj. kr. hækkun á framlagi til Ríkisendurskoðunar í aukin verkefni.

Forsætisráðuneyti. Lagt er til að rekstur óbyggðanefndar verði á sérstökum fjárlagalið og að 5,5 millj. kr. af 8,8 millj. kr. fjárveitingu á viðfangsefni 1.01 Yfirstjórn verði flutt á fjárlagalið 261 Óbyggðanefnd. Þær 3,3 millj. kr. sem eftir standa eru ætlaðar til að mæta kostnaði aðalskrifstofu ráðuneytisins vegna samþykktar laga nr. 58/1998, um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

[11:45]

Ég vík þá að liðnum Ýmis verkefni. Lagt er til að veitt verði 13,9 millj. kr. fjárveiting á þessum lið. Í fyrsta lagi verði veittur 8,8 millj. kr. tímabundinn styrkur til að kosta verkefnisstjóra sem hafi umsjón með framkvæmd hátíðahalda á 1000 ára afmæli landafunda í Norður-Ameríku. Á næstu tveimur árum áforma stjórnvöld að efla tengsl við Íslendingabyggðir í Kanada. Áhugi fólks þar af íslenskum ættum á þeim tengslum og íslenskri menningu hefur aukist verulega og fyrirhugað er að efna til umfangsmikilla hátíðahalda árið 2000 til að minnast 1000 ára afmælis landafunda í Norður-Ameríku. Til að sjá um þessi mál er lagt til að ráðinn verði verkefnisstjóri og er honum ætlað að efla menningartengsl Íslands og Kanadamanna af íslenskum uppruna. Þá vinni hann einnig að mögulegum viðskiptatengslum og er honum ætlað að styðja við framtak Vestur-Íslendinga sem vinna að því að samræma viðburði á vegum Íslendingafélaga um öll fylki Kanada.

Í öðru lagi er lagt til að veitt verði 4,5 millj. kr. tímabundið framlag til að standa undir hluta af kostnaði við að koma upp aðstöðu á Gimli í Kanada undir varanlega sögusýningu um landnámið sem leiddi til stofnunar Nýja-Íslands á Gimli. Félag Vestur-Íslendinga í Manitoba hefur ákveðið að reisa nýbyggingu undir sýninguna þar sem Þjóðræknifélagið, Lögberg-Heimskringla og ýmis önnur félags- og upplýsingastarfsemi fengi inni. Áætlað er að það sem lýtur að sýningunni kosti samtals 270.000 Kanadadali. Framlagið er fært á óskiptan lið fjárlagaliðarins.

Loks er lagt er til að framlag til viðfangsefnisins 1.40 Gjöf Jóns Sigurðssonar hækki um 0,6 millj. kr. Samkvæmt þingsályktun sem samþykkt var á Alþingi 29. apríl 1974 skal árlega renna til sjóðsins fjárhæð er nemi ekki lægri fjárhæð en byrjunarlaunum prófessors við Háskóla Íslands. Þau laun nema nú 2,5 millj. kr. og er hækkunin til samræmis við það. Sjóðnum er ætlað að veita verðlaun fyrir vísindaleg rit og styrkja útgáfu slíkra rita. Einnig er heimilt að veita viðurkenningu höfundum sem eru með vísindarit í smíðum. Öll skulu þessi rit lúta að sögu Íslands, íslenskum bókmenntum, lögum, stjórn eða framförum.

Lagt er til að framlag til Þjóðhagsstofnunar hækki um 4,5 millj. kr. og að framlag til aðalskrifstofu umhvrn. lækki samsvarandi. Við undirbúning frumvarps til fjárlaga var framlag til aðalskrifstofu umhvrn. hækkað um 4,5 millj. kr. vegna kostnaðar við reiknilíkan sem notað verður til að meta áhrif rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar á efnahagsþróun og langtímahagsmuni Íslands. Reiknilíkanið er unnið á vegum Þjóðhagsstofnunar og því talið réttara að vista fjárveitinguna þar. Heildarkostnaður er áætlaður 9 millj. kr.

Lagt er til að framlag til óbyggðanefndar um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, hækki um 14,4 millj. kr. frá fjárlagafrumvarpi og verði samtals 19,9 millj. kr. sem færðar verði á sérstakan fjárlagalið. Framlag að fjárhæð 5,5 millj. kr. er millifært af aðalskrifstofu forsrn. en þar er að auki gert ráð fyrir 3,3 millj. kr. kostnaði við framkvæmd laganna. Hlutverk óbyggðanefndar er í fyrsta lagi að kanna og skera úr um hvaða land telst til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda, í öðru lagi að skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýtt er sem afréttur og að lokum að úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna. Nefndinni er ætlað að eiga frumkvæði að málum sem undir hana heyra og tilkynna fyrir fram hvaða landsvæði hún tekur til meðferðar hverju sinni. Stefnt er að því að nefndin ljúki verkinu fyrir árið 2007.

Þá er komið að menntmrn. og er efst á blaði Háskóli Íslands. Gerð er tillaga um að hækka framlög til kennslu- og vísindadeilda um 40 millj. kr., m.a. vegna fjölgunar nemenda. Eins og áður segir er unnið að gerð reiknilíkans fyrir rekstur háskólans og má ætla að það leiði til hækkunar útgjalda. Þá er lagt til að Háskóla Íslands verði veittar 14 millj. kr. til að koma til móts við óskir stúdenta um bætta lesaðstöðu. Með fjárveitingunum er háskólanum gert kleift að semja við Landsbókasafn -- Háskólabókasafn um þessa þjónustu eða leita annarra leiða.

Óskað er eftir 0,9 millj. kr. til að greiða launakostnað dýralæknis sem jafnframt er sérfræðingur í veirufræði við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Framlagið er ætlað til að standa undir kostnaði við tímabundin verkefni.

Lagt er til að framlag til Tækniskólans verði hækkað um 10 millj. kr. til kennslu og aukins rekstrarkostnaðar.

Lagt er til að Kennaraháskóli Íslands fái 20 millj. kr. til kennslu til að koma til móts við aukinn kostnað þar sem nemendum í fjarnámi hefur fjölgað mikið. Nú er tæplega þriðjungur stúdenta við skólann í fjarnámi og eftirspurn margfalt meiri en hægt er að anna. Háskólinn á Akureyri, Háskóli Íslands og Kennaraháskóli Íslands hafa nýlega undirritað samning um fjarkennslu.

Lagt er til að framlag til Samvinnuháskólans á Bifröst hækki um 3 millj. kr. vegna fjölgunar nemenda við skólann. Skólinn hyggst bjóða fjarnám fyrir rekstrarhagfræðinga um næstu áramót og fjölgar nemendum einnig við það.

Lagt er til að Háskóla- og vísindastofnanir, viðhald og stofnkostnaður hækki um 15 millj. kr. Sundurliðun liðarins er sýnd í sérstöku yfirliti.

Lögð er til 27,8 millj. kr. hækkun á þessum lið Háskóla- og rannsóknastarfsemi og er breytingin fjórþætt. Í fyrsta lagi hafa Háskólinn á Akureyri, Háskóli Íslands og Kennaraháskóli Íslands gert samstarfssamning um fjarkennslu. Í samræmi við hann hyggjast þeir vinna saman að uppbyggingu fjarkennslu og að því að auka aðgengi fólks um allt land að háskólamenntun. Lagt er til að skólarnir fái sameiginlega fjárveitingu að upphæð 12 millj. kr. til þessa verkefnis árið 1999 og færist hún á nýtt viðfangsefni, 1.21 Fjarkennsla á háskólastigi.

Þá er farið fram á að veittar verði 7 millj. kr. sem stofnframlag til símenntunarstöðvar á Vesturlandi. Stofnframlagið á fyrst og fremst að nýta til að byggja upp þjónustunet til Dalabyggðar og sveitarfélaga á norðanverðu Snæfellsnesi.

Í þriðja lagi er gerð tillaga um 7 millj. kr. framlag til þróunarseturs á Vestfjörðum sem varið verði til fjarkennslu og verði framlagið fært á nýtt viðfangsefni, 1.23 Þróunarsetur Vestfjarða. Í þróunarsetri sameinast þær stofnanir sem nú þegar starfa á þessu sviði á Vestfjörðum, flestar staðsettar á Ísafirði, undir einu þaki. Starf í setrinu mun tengjast starfsemi Framhaldsskóla Vestfjarða og nýjum möguleikum í háskóla- og endurmenntun á svæðinu.

Loks er lagt til að fjárveiting til Norrænu eldfjallastöðvarinnar hækki um 1,8 millj. kr. en leigukostnaður stöðvarinnar hefur hækkað.

Lögð er til 8 millj. kr. hækkun á viðfangsefni stofnkostnaður Framhaldsskólar, 6.90 Byggingaframkvæmdir. Sundurliðun er sýnd í sérstöku yfirliti.

Framhaldsskólar, almennt. Farið er fram á að fjárveiting liðarins verði aukin um 134,9 millj. kr. Í fyrsta lagi er óskað eftir 113,9 millj. kr. hækkun á framlögum til viðfangsefnisins 1.90 Framhaldsskólar, óskipt. Af þeirri fjárhæð fara 104,4 millj. kr. til launa í framhaldsskólum. Komið hefur í ljós að við skiptingu í reiknilíkani menntmrn. á fjárveitingum til framhaldsskóla í fjárlögum fyrir árið 1998 var stuðst við forsendur sem leiddu til þess að meðallaun kennara voru áætluð 3,5% of lág. Sundurliðun fjárhæðar er sýnd í sérstöku yfirliti. Hins vegar er gert ráð fyrir að 9,5 millj. kr. fari til hækkunar vegna kostnaðar samkvæmt kjarasamningum við próf í skólunum sem vanmetinn hefur verið að mati menntmrn. um sem svarar 2,3% af heildarlaunakostnaði og deildarstjórn um 1,3% eða samtals 129,5 millj. kr. Í frumvörpum til fjáraukalaga fyrir árið 1998 og fjárlaga fyrir árið 1999 er gert ráð fyrir 120 millj. kr. til þess að mæta þessum vanda, en eftir standa 9,5 millj. kr. sem hér er gerð tillaga um.

Í öðru lagi er lagt til að veitt verði 7 millj. kr. framlag til uppbyggingar búnaðar og fjarkennsluverkefnis á Norðurlandi vestra og er framlagið fært á nýtt viðfangsefni, 1.51 Fjarkennsluverkefni á Norðurlandi vestra.

Í þriðja lagi er gerð tillaga um 7 millj. kr. framlag á nýtt viðfangsefni, 1.53 Fjarkennsluverkefni á Suðurlandi, til að undirbúa og koma á fót kennslu á háskólastigi á Suðurlandi í samvinnu við háskólastofnanir.

Þá er í fjórða lagi óskað eftir 5 millj. kr. hækkun á fjárveitingum til Myndlistaskólans í Reykjavík, annars vegar 2 millj. kr. til rekstrar og hins vegar 3 millj. kr. til að standsetja nýtt húsnæði skólans. Síðari fjárhæðin er tímabundin og fellur niður á árinu 2000.

Að lokum er lagt til að framlag til Myndlistaskólans á Akureyri hækki um 2 millj. kr. Umsvif skólans hafa aukist og ný verkefni bæst við á síðustu árum og er talið nauðsynlegt að bæta við starfsfólki. Þá á skólinn 25 ára afmæli næsta ár og er fyrirhugað að minnast þess með sýningarhaldi og útgáfu á afmælisriti.

Fjölbrautaskóli Suðurnesja. Lögð er til 7 millj. kr. fjárveiting til miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum.

Myndlista- og handíðaskóli Íslands. Gerð er tillaga um 4,4 millj. kr. hækkun á framlagi til Myndlista- og handíðaskóla Íslands til þriggja verkefna, þ.e. afmælis Myndlista- og handíðaskólans, 1,3 millj. kr., uppbyggingar hönnunarnáms, 1,1 millj. kr., og evrópsks MA-náms í grafík, 2 millj. kr. Framlag til afmælisins og hönnunarnáms er tímabundið og fellur niður á árinu 2000.

Jöfnun á námskostnaði. Óskað er eftir 25 millj. kr. hækkun á framlagi til jöfnunar námskostnaðar vegna fyrirhugaðrar lagabreytingar sem felur í sér rýmkun á reglum og mun leiða til fjölgunar styrkþega.

Þjóðminjasafn Íslands. Gerð er tillaga um að framlag til Þjóðminjasafns Íslands hækki um 14 millj. kr. og renni til fornleifarannsókna sem þegar eru hafnar að Stóru-Borg, Neðra-Ási, í Reykholti og á Eiríksstöðum. Jafnframt er lagt til að framlag til byggða- og minjasafna hækki um 5 millj. kr. Viðurkennd söfn fá styrk úr ríkissjóði til starfsemi sinnar samkvæmt þjóðminjalögum. Kostnaður af styrkhæfum umsóknum og brýnustu verkefnastyrkjum er talinn nema um 25 millj. kr.

Landsbókasafn Íslands -- Háskólabókasafn. Gerð er tillaga um 10 millj. kr. hækkun á fram lagi til Landsbókasafns Íslands -- Háskólabókasafns vegna aukins launakostnaðar.

Farið er fram á 2 millj. kr. hækkun á framlagi til Nýlistasafnsins til eflingar starfsemi safnsins. Einnig er gerð tillaga um að óskipt viðfangsefni fjárlagaliðarins, 1.90 Söfn, lækki um 1,3 millj. kr.

Lögð er til 18 millj. kr. hækkun á viðfangsefninu Endurbótasjóður menningarstofnana, sem er til viðhalds og stofnkostnaðar menningarbygginga.

Lagt er til að framlag til viðfangsefnis 1.10 Ríkisútvarpið, afnotagjöld hækki um 80 millj. kr. Ríkisstjórnin hefur samþykkt að heimila 5% hækkun afnotagjalda Ríkisútvarpsins frá 1. desember 1998. Áætlað er að hækkunin skili 80 millj. kr. auknum tekjum í ríkissjóð á árinu 1999 í samræmi við lög nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, og að framlag í A-hluta fjárlaga til stofnunarinnar hækki um sömu fjárhæð.

Sinfóníuhljómsveit Íslands. Óskað er eftir 2,2 millj. kr. hækkun vegna kostnaðar við kjarasamninga sem hljómsveitinni hefur ekki verið bættur. Að auki er lagt til að framlag til Sinfóníuhljómsveitar Íslands hækki um 3 millj. kr., m.a. vegna hækkunar á leigukostnaði og til kaupa á búnaði.

Lagt er til að framlag til húsafriðunarsjóðs hækki um 10 millj. kr. vegna aukinna verkefna.

Gerð er tillaga um að liðurinn Listir, framlög hækki alls um 6 millj. kr. og er skýringa að rekja til fjögurra þátta. Í fyrsta lagi er lögð til 5,6 millj. kr. lækkun á framlagi á viðfangsefnisins Listir. Hana má rekja til þess að 7,6 millj. kr. fjárveiting til Íslenskrar tónverkamiðstöðvar sem hefur fengið úthlutun af þessu viðfangsefni hefur verið flutt á nýtt viðfangsefni henni merkt, 1.29 Íslensk tónverkamiðstöð. Óskipt fjárhæð er jafnframt hækkuð um 2 millj. kr.

Í öðru lagi er farið fram á að framlag til Íslenskrar tónverkamiðstöðvar verði 4 millj. kr. og færist á nýtt viðfangsefni, Íslensk tónverkamiðstöð. Áður hefur hún fengið fjárveitingar af viðfangsefni 1.90 Listir.

Þá er í þriðja lagi lagt til að framlag til starfsemi atvinnuleikhópa hækki um 3 millj. kr. vegna starfssamninga atvinnuleikhópa. Loks er gerð tillaga um 1 millj. kr. hækkun framlags til viðfangsefnisins Tónlist fyrir alla. Markmiðið er að verkefnið nái til alls landsins innan fárra ára og ávinni sér fastan sess í skólastarfi og menningarlífi landsmanna.

Gerð er tillaga um 2 millj. kr. hækkun framlags á viðfangsefninu Fræðistörf.

Lögð er til 4 millj. kr. hækkun á framlagi til Ungmennafélags Íslands til reksturs þess á þjónustumiðstöð í Reykjavík sem veitir íþróttahópum af landsbyggðinni gistiþjónustu. Jafnframt er gerð tillaga um að framlag til Bandalags íslenskra skáta hækki tímabundið um 3 millj. kr. vegna kostnaðar við landsmót.

Ýmis íþróttamál. Óskað er eftir að liðurinn hækki um 15,6 millj. kr. samtals.

Í fyrsta lagi er lagt til að hækka framlag til óskipts liðar alls um 10 millj. kr. Þar af eru 8 millj. kr. ætlaðar til uppbyggingar íþróttaaðstöðu á Egilsstöðum en þar er ráðgert að halda landsmót ungmennasambandanna árið 2001. Bæta þarf íþróttaaðstöðu til að tryggja að hægt verði að halda landsmót á Egilsstöðum, m.a. með því að leggja hlaupabrautir með svokölluðu ,,tartan``-yfirborði. Ætlað er að kostnaðurinn verði greiddur á tveimur árum.

Þá er lögð til 3 millj. kr. hækkun á viðfangsefninu Íþróttasamband Íslands og jafnframt gerð tillaga um að heiti þess breytist og verði Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands.

[12:00]

Í þriðja lagi er gerð tillaga um að viðfangsefni 1.11 Ólympíunefnd Íslands falli brott. Framlagið að fjárhæð 3 millj. kr. flyst á viðfangsefni 1.10 Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands.

Gert er ráð fyrir að framlag til Glímusambands Íslands hækki um 2,5 millj. kr. til að vinna að kynningu á glímunni en takist ekki að auka iðkun hennar og útbreiðslu muni hún brátt heyra sögunni til.

Óskað er eftir tímabundinni hækkun að fjárhæð 1,5 millj. kr. til Skáksambands Íslands til kynningarstarfs og Ólympíuskákmóts í Elista í Kalmykiu.

Jafnframt er gerð tillaga um 1 millj. kr. framlag til Landssambands akstursíþróttafélaga.

Loks er lögð til 0,6 millj. kr. hækkun á fjárveitingu til Skákskóla Íslands. Það er 25% hækkun á rekstrarframlagi sem hefur haldist óbreytt frá árinu 1991.

Ýmislegt. Gerð er tillaga um 19,5 millj. kr. hækkun fjárveitinga á þessum lið. Lögð er til 20 millj. kr. fjárveiting til Dalabyggðar til verkefna sem Eiríksstaðanefnd hefur verið falið að fjalla um í samráði við hreppsnefnd Dalabyggðar og tengjast fæðingarstað Leifs heppna.

Þá er gerð er tillaga um að óskiptur liður fjárlagaliðarins lækki um 0,5 millj. kr.

Hluti framlags til Snorrastofu er ranglega færður á rekstrarviðfangsefni en er stofnkostnaður. Því lækkar framlag til viðfangsefnisins 1.44 Snorrastofa um 4 millj. kr. en framlag til viðfangsefnisins 6.93 Snorrastofa hækkar samsvarandi og hefur því ekki áhrif á heildarfjárhæð.

Farið er fram á að veittar verði 35 millj. kr. til að hefja undirbúning að þátttöku Íslands í heimssýningunni í Hannover árið 2000, m.a. til að festa sýningarsvæði til leigu. Þýskaland er mikilvægasta viðskiptaland Íslands jafnt með vörur sem þjónustu. Verulegar gjaldeyristekjur eru af þýskum ferðamönnum á Íslandi. Gert er ráð fyrir um 40 milljónum gesta á sýninguna. Lauslega má ætla að heildarkostnaður við sýninguna verði 200--240 millj. kr. Búast má við að á næstu tveimur árum verði veittar allt að 200 millj. kr. úr ríkissjóði. Leitast verður við að afla fjárframlaga frá atvinnulífinu fyrir 20% heildarkostnaðar eða sem nemur um 40 millj. kr.

Þá er lagt til að áætlaðar sértekjur og gjöld yfirstjórnar lækki um 9 millj. kr., áætlaðar sértekjur og gjöld varnarmálaskrifstofu hækki um 1,6 millj. kr. og að áætlaðar sértekjur og gjöld þýðingarmiðstöðvar hækki um 1 millj. kr. Heildaráhrif eru engin á niðurstöðutölurnar.

Ýmis verkefni. Lagt er til að framlag til þessa liðar hækki um 0,3 millj. kr. Í fyrsta lagi er gerð tillaga um 2 millj. kr. lækkun en í ljósi rauntalna er talið kleift að lækka framlag vegna kostnaðar við þátttöku fulltrúa vinnumarkaðarins í EFTA- og EES-samstarfi.

Þá er lagt er til að framlag til Mannréttindaskrifstofu Íslands verði aukið um 2 millj. kr. Aukin áhersla er lögð á mannréttindi og mannréttindastarf og hefur í því skyni verið gerður samstarfssamningur milli Mannréttindaskrifstofu Íslands og Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands.

Óskað er eftir 20 millj. kr. hækkun fjárveitingar til byggingar sendiráðsins í Berlín. Eftir framlagningu frumvarps til fjárlaga hefur komið í ljós að kostnaður verður allt að 20 millj. kr. hærri en áður var talið. Helstu ástæður eru að þáttur Íslands í sameiginlegum kostnaði er meiri en gert var ráð fyrir í upphafi, þ.e. 6,3% en ekki 5,8%. Einnig hafa tilboð verið hærri en kostnaðaráætlun gerði ráð fyrir.

Lagt er til að Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna verði veitt 3 millj. kr. fjárheimild. Árið 1998 var fjárþörf skólans meiri en heimild fjárlaga gerði ráð fyrir en ekki var þörf á hærra framlagi úr ríkissjóði vegna afgangs frá árinu 1997. Til að mæta fjárþörf ársins 1999 þarf hins vegar aukna fjárheimild.

Farið er fram á 56,4 millj. kr. hækkun vegna liðarins Alþjóðastofnanir. Í fyrsta lagi er gerð tillaga um 37,7 millj. kr. fjárveitingu til að senda fjóra liðsmenn frá Íslandi til þátttöku í eftirlitssveit ÖSE í Kosovo. Fastaráð ÖSE tók formlega ákvörðun 25. okt. sl. um að stofna eftirlitssveit til að sjá um eftirlit með framkvæmd á samþykktum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um Kosovo. Gert er ráð fyrir að aðildarríkin leggi fram mannskap og fé til styrktar sveitinni sem mun starfa í eitt ár til að byrja með. Reiknað er með að liðsmenn verði u.þ.b. 2.000. Aðrar Norðurlandaþjóðir ætla að senda 50--60 manns hver.

Í öðru lagi er lagt til að framlag til Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar lækki um 1,3 millj. kr. Í ljós hefur komið að áætlað framlag til stofnunarinnar getur lækkað frá því sem áður var talið.

Loks er lagt til að 20 millj. kr. verði veittar til fastanefndar ÖSE í Kosovo. Fastaráð ÖSE tók formlega ákvörðun 25. okt. sl. um að stofna eftirlitssveit til að sjá um eftirlit með framkvæmd á samþykktum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um Kosovo. Gert er ráð fyrir að aðildarríkin leggi fram mannskap og fé til styrktar sveitinni sem mun starfa í eitt ár til að byrja með. Um er að ræða 0,21% hlutdeild Íslands í útlögðum kostnaði ÖSE.

Landbrn. Alls er óskað eftir 8,5 millj. kr. hækkun framlags til liðarins Ýmis verkefni. Í fyrsta lagi er lagt til að verkefnið Landgræðsluskógar fái 10 millj. kr. framlag. Landgræðsluskógar eru samvinnuverkefni Skógræktarfélags Íslands, Skógræktar ríkisins, Landgræðslu ríkisins og landbrn. Skógrækt ríkisins hefur framleitt og afhent endurgjaldslaust 1 milljón plantna til verkefnisins á ári sem talið er jafngilda 17 millj. kr. framlagi. Landgræðslan hefur séð um flutning á plöntunum um allt land og er framlag hennar metið á 1,5 millj. kr. Aðildarfélög Skógræktarfélagsins hafa gróðursett plönturnar í samvinnu við sveitarfélög. Hækkunin er færð á óskipta fjárhæð fjárlagaliðarins.

Í öðru lagi er lagt til að Skógræktarfélagi Íslands verði veitt 2 millj. kr. framlag til að standa straum af kostnaði við laun framkvæmdastjóra félagsins sem Skógrækt ríkisins hefur greitt til þessa.

Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Gerð er tillaga um 10,3 millj. kr. hækkun á fjárveitingum til Rannsóknarstofnunar landbúnaðarins. Annars vegar er lagt til að veitt verði 6 millj. kr. framlag árlega árin 1999--2001 til verkefnisins Nytjaland en það er framhald af verkefninu Jarðvegsvernd sem er nýlokið á vegum stofnana landbrn. Með því fékkst yfirlit um jarðvegsrof sem bæði hefur haft mikil áhrif á landgræðslustarf og aukið þekkingu á vanda sem skapast við rof. Verkefnið hlaut umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 1998. Verkefnið Nytjaland felst í gerð gagnagrunns með kortum, landstærðum, nytjum, búskaparupplýsingum og hagrænum upplýsingum fyrir allar jarðir landsins. Gagnagrunnurinn á að vera aðgengilegur bændum og öðrum er láta sig varða nýtingu landsins.

Hins vegar er lagt til að Rannsóknastofnun landbúnaðarins fái 4,3 millj. kr. tímabundna fjárveitingu til kaupa á tilraunasláttuþreskivél sem nota þarf í þróunarverkefni.

Gerð er tillaga um að embætti veiðimálastjóra fái 3 millj. kr. hækkun á fjárveitingum til eftirlits og rannsókna á ólöglegum lax- og silungsveiðum í sjó.

Bændaskólinn á Hvanneyri. Lagt er til að sértekjur skólans verði lækkaðar um 5 millj. kr. og verði þar með sama hlutfall af heildarrekstrarkostnaði skólans og að meðaltali á árunum 1994--1997.

Bændaskólinn á Hólum. Lagt er til að gjöld og tekjur skólans hækki um 25 millj. kr., m.a. til frekari bleikjurannsókna og annarrar starfsemi. Tekjurnar eru styrkir úr rannsóknasjóðum.

Landgræðsla ríkisins. Á þessum lið er annars vegar óskað eftir 17,4 millj. kr. hækkun á fjárveitingum í fyrirhleðslur vegna nýrra og aðkallandi verkefna. Hins vegar er lögð til 1,9 millj. kr. hækkun á framlagi til Landgræðslu ríkisins og flyst hún af liðnum 04-190 1.40 Landgræðslu- og skógræktaráætlanir.

Lagt er til að framlag til skógræktarátaks á Fljótsdalshéraði hækki um 5 millj. kr.

Bændasamtök Íslands. Lögð er til 14,2 millj. kr. hækkun á liðnum. Annars vegar er farið fram á 9,6 millj. kr. vegna aukinna greiðslna í lífeyrissjóð af launum starfsmanna. Iðgjöld hækkuðu úr 6% af dagvinnulaunum í 11,5% af heildarlaunum í ársbyrjun 1998 en ekki var gert ráð fyrir hækkun á framlagi vegna þessa í fjárlögum fyrir árið 1998.

Hins vegar er farið fram á 4,6 millj. kr. hækkun til viðfangsefnisins 1.95 Héraðsbúnaðarsambönd, uppbætur á lífeyri, til aukinna greiðslna í lífeyrissjóð af launum starfsmanna.

Lagt er til að 45 millj. kr. framlag verði veitt til niðurgreiðslu á loðdýrafóðri frá fóðurstöðvum og færist það á nýtt viðfangsefni, Loðdýrafóður. Gert er ráð fyrir að niðurgreiðslan nemi 5 kr. á hvert kíló fóðurs.

Enn fremur er lagt til að veittar verði 8 millj. kr. til uppbyggingar og hagræðingar í fóðurstöðvum sem framleiða loðdýrafóður á sama viðfangsefni.

Þá er komið að sjútvrn. Lagt er til að veittur verði 3 millj. kr. styrkur á næsta ári til gerðar sjónvarpsþáttanna Aldarhvörf. Heildarkostnaður er áætlaður 10 millj. kr. og dreifist hann á þrjú ár. Sótt verður um 4 millj. kr. í fjáraukalögum fyrir árið 1998 og gert er ráð fyrir að lokagreiðsla verði á árinu 2000. Þáttaröðin á að fjalla um sjávarútveg og verður hún sýnd í ríkissjónvarpinu aldamótaárið 2000 sem framlag stofnunarinnar til höfuðatvinnuvegar þjóðarinnar á liðinni öld.

Alls er lögð til 45 millj. kr. hækkun á framlagi til Hafrannsóknastofnunarinnar. Annars vegar er um að ræða 30 millj. kr. hækkun og er því fé ætlað að styrkja núverandi starfsemi stofnunarinnar. Þá samþykkti Alþingi 28. maí sl. ályktun um rannsóknir á áhrifum veiðarfæra á vistkerfi hafsbotnsins. Þar var því beint til ríkisstjórnarinnar að gera átak í rannsóknum á áhrifum veiða og mismunandi veiðarfæra á vistkerfi hafsbotnsins á Íslandsmiðum. Sérstaklega yrði kannað hver áhrif veiða eru á botnfisksstofna, viðkomu þeirra og afrakstursgetu, sem og áhrif veiða með dragnót, botnvörpu og öðrum dregnum veiðarfærum á botnlagið. Ályktað var að til verkefnisins yrði veitt sérstök fjárveiting næstu þrjú ár í samræmi við kostnaðaráætlun Hafrannsóknastofnunarinnar. Samkvæmt henni er gert ráð fyrir heildarkostnaði að upphæð um 60 millj. kr. Nú er óskað eftir 15 millj. kr. framlagi til að mæta áætlaðri fjárþörf vegna rannsókna fyrsta árið.

Hæstiréttur. Óskað er eftir 5,4 millj. kr. hækkun. Er það vegna nýs húsnæðis. Það láðist að áætla fyrir auknum hita- og rafmagnskostnaði þegar það var tekið í notkun.

Lögð er til 4 millj. kr. hækkun framlags til embættis ríkissaksóknara vegna aukins eftirlitshlutverks embættisins með framkvæmd saksóknar í héraði auk þess sem embættið fer nú með rannsóknir varðandi kærur á hendur starfsmönnum lögreglu.

Óskað er eftir 4,1 millj. kr. fjárveitingu vegna starfs yfirlögregluþjóns sem fært hefur verið frá lögreglunni í Reykjavík til ríkislögreglustjóra. Framlag til lögreglunnar í Reykjavík lækkar samsvarandi.

Gerð er tillaga um 2 millj. kr. hækkun til viðfangsefnisins 1.20 Fíkniefnamál og er framlagið ætlað til átaks í fíkniefnavörnum í Reykjanesbæ. Verkefnið verður unnið m.a. í samvinnu við tollyfirvöld.

[12:15]

Lagt er til að framlag til viðhalds lögreglustöðva lækki um 4 millj. kr. og að liðurinn falli niður. Tillaga þessi tengist auknu framlagi vegna leigugreiðslna sýslumannsembætta til Fasteigna ríkissjóðs, sjá umfjöllun um fjárlagalið 490 Ýmis rekstrarkostnaður sýslumannsembætta.

Gerð er tillaga um að hækka framlag til yfirstjórnar um 1,5 millj. kr. til að kosta hálfa stöðu löglærðs fulltrúa. Jafnframt er lagt til að framlag til löggæslu hækki um 2 millj. kr. vegna breytinga á vöktum lögreglu.

Farið er fram á að fjárveiting til rekstrar sýslumannsembætta hækki alls um 22,8 millj. kr. Annars vegar er um að ræða 20 millj. kr. vegna húsaleigugreiðslna. Stærstur hluti húsnæðis sýslumanna og dómstóla er nú í umsjón Fasteigna ríkissjóðs. Lagt er til að fasteignir flestra þeirra embætta sem ekki eru í umsjá Fasteigna ríkissjóðs verði færðar til þeirra frá og með næstu áramótum. Á móti kemur að framlag til viðhaldsliðar hjá sýslumannsembættum lækkar um 5 millj. kr. og til lögreglustöðva um 4 millj. kr. Heildarhækkun er því um 11 millj. kr. Árið 2000 er svo gert ráð fyrir að viðhald sýslumannsembætta verði lækkað um þær 5 millj. kr. sem eftir standa. Með því að færa viðhald fasteigna til Fasteigna ríkissjóðs verður viðhaldi sinnt jafnóðum og unnið að fyrirbyggjandi viðhaldi. Hins vegar er farið fram á hækkun fjárveitingar til ýmiss sameiginlegs kostnaðar að fjárhæð 2,8 millj. kr. til að standa undir kostnaði við biðlaunagreiðslur.

Lagt er til að bætt verði við nýju viðfangsefni, 6.19 Húsnæði sýslumannsins á Hólmavík. Framlag að fjárhæð 10 millj. kr. er ætlað til byggingar og innréttingar lögreglustöðvar á Hólmavík.

Þá er lagt er til að framlag til viðhalds hjá sýslumannsembættum lækki um 5 millj. kr. Tillaga þessi tengist auknu framlagi vegna húsaleigugreiðslna sýslumannsembætta til Fasteigna ríkissjóðs eins og áður hefur verið fjallað um.

Farið er fram á hækkun launagjalda um 30 millj. kr. til Fangelsismálastofnunar ríkisins.

Lögð er til 3 millj. kr. fjárveiting til Dómkirkjunnar í Reykjavík. Ákveðið hefur verið að hefjast handa um endurbætur og viðgerðir á kirkjunni á næsta ári.

Óskað er eftir 0,5 millj. kr. hækkun á fjárveitingu til Skálholtsskóla. Ekki náðist að endurnýja samning um rekstur skólans fyrir framlagningu fjárlagafrumvarps en nýr samningur, sem nú hefur verið undirritaður, kveður á um hækkun sem nemur verðlagsbreytingum.

Lögð er til 8 millj. kr. tímabundin fjárveiting í Kirkjugarðasjóð til að bæta sjóðnum að hluta þá skerðingu sem hann varð fyrir við breytingu á lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu sem samþykkt voru í fyrra. Samkvæmt lögunum eru Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastdæmis undanþegnir greiðslu í Kirkjugarðasjóð árin 1998 og 1999.

Þá er ég kominn að félagsmálaráðuneytinu.

Farið er fram á 3 millj. kr. framlag þar sem úrskurðum í málaflokkum sem undir félagsmálaráðuneytið heyra fer sífellt fjölgandi. Gert er ráð fyrir að bætt verði við einu stöðugildi til að sinna þeim málum.

Alls er óskað eftir 42 millj. kr. hækkun á lið 400 Barnaverndarstofa. Í fyrsta lagi er farið er fram á 30 millj. kr. hækkun á framlögum til málefna barna og unglinga til vímuefnavarna og nýrra meðferðarúrræða. Með hækkun á sjálfræðisaldri hefur bið eftir greiningu og meðferð á stofnunum Barnaverndarstofu lengst umtalsvert og er nauðsynlegt að bregðast við því með fjárveitingu til nýs heimilis.

Þá er gerð er tillaga um fjárveitingu að upphæð 8 millj. kr. fyrir Krossgötur en samtökin hafa rekið endurhæfingarheimili fyrir ungt fólk í vímuefnavanda í 11 ár. Framlagið er háð því að gerður verði þjónustusamningur við rekstraraðila.

Að lokum er lagt er til að Götusmiðjunni --- Virkinu verði veittar 4 millj. kr. til að styrkja sérhæft meðferðarúrræði fyrir unga fíkla á aldrinum 16--20 ára. Framlagið er háð því að gerður verði þjónustusamningur við rekstraraðila meðferðarheimilisins.

Gerð er tillaga um 64 millj. kr. hækkun til málefna fatlaðra. Annars vegar er farið fram á 54 millj. kr. hækkun til að mæta áhrifum kjarasamninga. Starfsmenn stofnana á heimilum fatlaðra fá langflestir laun samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra og SFR. Í síðasta kjarasamningi þessara aðila var samið um launakerfi sem m.a. byggist á nýrri starfaflokkun. Í mati á áhrifum kjarasamningsins var ekki tekið fullt tillit til þeirra áhrifa sem starfaflokkunin hefur á launaútgjöld þessara stofnana eftir gerð kjarasamninga. Í eldri kjarasamningi aðila var samið um námskeið fyrir ófaglært starfsfólk sem gaf þeim nokkurn framgang í launum og var eftir að meta áhrif þess við upptöku á nýju launakerfi. Loks var eftir að bæta stofnunum í þessum málefnaflokki hækkun launa þroskaþjálfa um einn launaflokk samkvæmt kjarasamningi sem gerður var eftir að lokið var við launamat fjárlaga 1998. Með framangreindum breytingum á launagrunni þessara stofnana hefur útgjaldaauka þeirra vegna kjarasamninga og aðlögunarsamninga verið að fullu mætt að mati fjármálaráðuneytisins og félagsmálaráðuneytisins. Sundurliðun breytinganna er sýnd í sérstöku yfirliti

Þá er farið er fram á 10 millj. kr. framlag til að koma á samningi við einstaklinga um rekstur sambýlis fyrir allt að fimm einstaklinga. Áformað er að sambýlið verði á Suðausturlandi og taki við fötluðum einstaklingum samkvæmt þjónustusamningi.

Málefni fatlaðra, Reykjavík. Lögð er til 2,7 millj. kr. hækkun á framlagi til Félags heyrnarlausra til að vinna að ýmsum auknum verkefnum.

Gerð er tillaga um 2,5 millj. kr. hækkun á framlagi til sambýlis fatlaðra á Akranesi til að tryggja greiðslu launahækkana sem starfsfólki ber eftir þátttöku í framhaldsnámskeiði fyrir stuðningsfulltrúa á Vesturlandi.

Gerð er tillaga um 1,7 millj. kr. hækkun á fjárheimild svæðisskrifstofu Norðurlands vestra. Ráðuneytið hefur átt í viðræðum við sveitarfélög á Norðurlandi vestra um yfirtöku þeirra á þjónustu við fatlaða. Í þeim viðræðum hefur komið fram að þörf er á viðbótarfjármagni til stuðningsfjölskyldna og frekari liðveislu í umdæmi svæðisskrifstofunnar á Norðurlandi vestra.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga. Óskað er eftir 5,6 millj. kr. hækkun fjárveitingar til jöfnunar húsaleigubóta til að verðbæta samningsbundnar greiðslur ríkissjóðs í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Samkvæmt samkomulagi sem gert var við stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga við breytingar á lögum um húsaleigubætur mun ríkissjóður greiða árlega 280 millj. kr. í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og skal fjárhæðin taka sömu breytingum og vísitala neysluverðs.

Lögð er til 2 millj. kr. fjárveiting til námskeiða fyrir trúnaðarmenn á vinnustöðum á vegum Félagsmálaskóla alþýðu. Í kjölfar breytinga á vinnulöggjöfinni og aukinnar áherslu á að hluti kjarasamninga fari fram á vinnustöðum er talið nauðsynlegt að efla fræðslu trúnaðarmanna.

Lögð er til 4 millj. kr. fjárveiting í nýtt viðfangsefni, Geysir, vinnumiðlun fyrir geðfatlaða. Klúbburinn Geysir var stofnaður á þessu ári og er markmið hans að koma upp og reka vinnumiðlun fyrir geðfatlað fólk.

Í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti er gert ráð fyrir hækkun fjárveitingar um 1,9 millj. kr. fjárveitingu til Tryggingarstofnunar ríkisins vegna endurreiknings á áhrifum kjarasamnings lækna á launagjöld stofnunarinnar.

Sjúkratryggingar. Í kjölfar nýlegra samninga á milli Tryggingastofnunar ríkisins og sérfræðilækna hefur stofnunin hætt greiðslum til sjúkrastofnana fyrir læknisverk sem unnin eru á göngudeildum. Farið er fram á að fjárhæð sem nemur greiðslum frá Tryggingastofnun fyrir læknisverk unnin á stofnunum verði færð frá sjúkratryggingum á fjárlagalið viðkomandi stofnunar. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur gert samninga við stofnanirnar til að tryggja óbreytta sérfræðilæknisþjónustu. Lagt er til að framlag til viðfangsefnisins 1.11 Lækniskostnaður lækki alls um 243,5 millj. kr. Á móti hækkar framlag til þeirra stofnana sem taldar eru upp í sundurliðun sem fylgir í nál.

Í annan stað er lagt til að framlag til viðfangsefnisins 1.11 Lækniskostnaður lækki um 47,6 millj. kr. en á móti hækkar framlag til fjárlagaliðar 517 Læknavaktin um sömu fjárhæð.

Gerð er tillaga um 7,5 millj. kr. hækkun á framlagi til slysavarnaráðs til að fjármagna 1,5 stöðugildi læknis með sérfræðimenntun og kerfisfræðings. Sérfræðingarnir eiga að starfa á vegum slysavarnaráðs við sérhæfðan gagnagrunn um slys og orsakaskráningu slysa á Íslandi.

Heildarútgjöld Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar hækka alls um 9,6 millj. kr. en á móti hækka sértekjur um 5,9 millj. kr. Annars vegar er farið fram á 9 millj. kr. framlag. Á móti hækka sértekjur um 5,3 millj. kr. þannig að heildarhækkun er 3,7 millj. kr. Framlag til hjálpartækja hefur nánast staðið í stað frá árinu 1991. Sífellt koma ný stafræn heyrnartæki á markaðinn. Tækin eru um 30.000 kr. dýrari en hefðbundin heyrnartæki. Áætlað er að sala á 300 stafrænum heyrnartækjum auki sértekjur Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands um 5,3 millj. kr. Hins vegar er óskað eftir 0,6 millj. kr. hækkun á fjárveitingum til Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands. Launaliður stöðvarinnar hækkar um 0,6 millj. kr. vegna ferðalaga út á land auk þess sem önnur gjöld hækka um 0,6 millj. kr. vegna nýrra verkefna. Hins vegar er gert ráð fyrir hækkun sértekna sem eiga að standa undir þessum aukna launakostnaði.

Framlag til fjárlagaliðar 340 Málefni fatlaðra hækkar alls um 3 millj. kr. og skiptist hækkunin á tvö viðfangsefni. Lagt er til að framlag til Endurhæfingarstöðvar Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra hækki um 2 millj. kr. Mikill halli hefur verið á rekstri stöðvarinnar síðustu árin og kostnaðarauki í kjölfar nýrra kjarasamninga og breytinga á lífeyrissjóðsgreiðslum. Áhersla er lögð á að gerður verði þjónustusamningur við rekstraraðila. Þá er lögð til 1 millj. kr. hækkun á framlagi til Endurhæfingarstöðvar hjarta- og lungnasjúklinga á Akureyri vegna breytinga á starfsemi.

Sjúkrahús Reykjavíkur. Gerð er tillaga um 10 millj. kr. fjárveitingu til viðfangsefnisins 6.01 Tæki og búnaður til kaupa á tækjabúnaði til rannsókna á sjúkdómum í meltingarvegi.

Sjúkrahús og læknisbústaðir. Alls er lagt til að framlag til fjárlagaliðarins lækki um 1,9 millj. kr. Gerð er tillaga um að viðfangsefnið 6.60 Tækjakaup, óskipt hækki um 12,6 millj. kr. og skiptist hækkunin í tvennt. Annars vegar er lagt til að Heilbrigðisstofnunin á Patreksfirði fái 7,6 millj. kr. til þess m.a. að endurnýja röntgentæki og fjargreiningartæki. Hins vegar er gerð tillaga um 5 millj. kr. fjárveitingu fyrir St. Fransiskusspítala í Stykkishólmi til endurbóta í eldhúsi spítalans og tækjakaupa.

Í annan stað er lögð til 14,5 millj. kr. lækkun framlags á viðfangsefninu 6.90 Bygging sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva og læknisbústaða og er ástæðan tvíþætt. Í fyrsta lagi er lagt til að lækka framlag um 15 millj. kr. og að hækka framlag til fjárlagaliðar 500 Heilsugæslustöðvar, almennt samsvarandi. Breytingin er gerð vegna heilsgæslunnar í Grafarvogi en nauðsynlegt er að leysa úr brýnni húsnæðisþörf heilsugæslunnar sem er í bráðabirgðahúsnæði og þjónar einungis hluta svæðisins. Fjölgun íbúa er ör og nauðsynlegt að koma til móts við þarfir þeirra með stækkun stöðvarinnar.

Gerð er tillaga um 206 millj. kr. hækkun fjárlagaliðarins Heilbrigðismál, ýmis starfsemi. Í fyrsta lagi er farið fram á 197,9 millj. kr. hækkun fjárheimildar á viðfangsefninu 1.90 Ýmis framlög vegna mats á áhrifum samninga hjúkrunarfræðinga á launaútgjöld heilbrigðisstofnana. Sundurliðun á einstakar stofnanir er sýnd í sérstöku yfirliti III með breytingartillögum. Í öðru lagi er leitað eftir 7 millj. kr. hækkun fjárveitingar vegna þriggja ára verkefnis til að fækka slysum á börnum og unglingum. Óskað verður eftir 4 millj. kr. í fjáraukalögum fyrir árið 1998 og að verkefninu ljúki árið 2000. Slys á börnum og unglingum eru hlutfallslega fleiri hér á landi en í nágrannalöndunum. Ætlunin er að bregðast við þessari þróun með átaki sem leiðir til fækkunar slysa, m.a. með því að samræma krafta þeirra er koma að verki, skipuleggja skráningu slysa á börnum og unglingum, samhæfa fræðslu og forvarnir og veita ráðgjöf um slysavarnir barna. Að lokum er lögð til 1,1 millj. kr. hækkun á framlögum til reksturs Krýsuvíkursamtakanna á meðferðarheimilinu í Krýsuvík. Með fjárveitingu í fjáraukalögum var gert ráð fyrir að gerður verði þjónustusamningur við rekstraraðila.

[12:30]

Lagt er til að millifæra framlag til daggjaldastofnana á ný fjárlaganúmer vegna nýrra þjónustusamninga. Alls hækkar framlag til hjúkrunarheimila um 201,5 millj. kr. en framlag til fjárlagaliðarins Daggjaldastofnanir lækkar um sömu fjárhæð. Fjárveitingar færast milli fjárlagaliða eins og segir á sérstöku yfirliti sem fylgir í nál.

Gerð er tillaga um 2 millj. kr. hækkun á framlögum Sjálfsbjargar til brunavarna í Hátúni 12.

Gert er ráð fyrir 2,7 millj. kr. hækkun til heilsuhælis Náttúrulækningafélagi Íslands. Fjárveiting á því viðfangsefni hefur verið sett fram sem tilfærsluframlag, án skiptingar á laun eða önnur rekstrargjöld og það hafði í för með sér að í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 1999 fórst fyrir að reikna á hana launabætur vegna áhrifa af nýlegum aðlögunarsamningum við hjúkrunarfræðinga.

Framlag til Daggjaldastofnana lækkar um 204,5 millj. kr. eins og ég hef áður gert grein fyrir.

Gert er ráð fyrir að hækka framlag til reynslusveitarfélagsins Akureyri um 2,1 millj. kr. til viðfangsefnisins Hjúkrunarrými vegna endurmats á launabótum. Á móti lækkar framlag til reynslusveitarfélagsins á fjárlagalið 495 Daggjaldastofnanir um samsvarandi fjárhæð.

Reynslusveitarfélagið Höfn í Hornafirði. Alls er gerð tillaga um 11,9 millj. kr. hækkun framlags til viðfangsefnisins Hjúkrunarrými og er hækkunin af tvennum toga. Í samræmi við ákvæði í samningi við reynslusveitarfélagið Höfn í Hornafirði er farið fram á 11 millj. kr. viðbótarfjárheimild til að fjölga um þrjú sjúkrarúm í stað hjúkrunarrúma.

Lagt er til að framlag til heilsugæslustöðva hækki um 15 millj. kr. Ég hef áður gert grein fyrir þeirri hækkun vegna heilsgæslunnar í Grafarvogi.

Lagt er til að hækka framlag til sjúkraflutninga um 7,5 millj. kr. en á móti lækkar viðfangsefni 1.12 Útvegun og rekstur sjúkrabifreiða um samsvarandi fjárhæð. Þessi tilfærsla er vegna samninga við Rauða kross Íslands um innkaup og rekstur bifreiða og tækjabúnaðar til sjúkraflutnings.

Framlag til Heilsuverndarstöðvarinnar í Reykjavík lækkar alls um 47,2 millj. kr. og er tilfærslan vegna tilfærslu verkefna til læknavaktarinnar.

Læknavaktin. Þetta er nýr fjárlagaliður og er lagt til að framlag verði 124,1 millj. kr. Heildarútgjöld verða 137,6 millj. kr. en á móti koma sértekjur að fjárhæð 13,5 millj. kr. Heilbr.- og trmrn. og Læknavaktin sf. hafa komist að samkomulagi um vaktþjónustu á höfuðborgarsvæðinu og tók nýtt fyrirkomulag gildi 1. nóv. 1998. Læknavaktin sf. hefur sl. tíu ár sinnt gæsluvöktum fyrir Reykjavík, Kópavog og Seltjarnarnes, en samkvæmt nýju vaktaskipulagi mun miðlæg vaktþjónusta einnig sinna heilsugæsluumdæmunum í Hafnarfirði og Garðabæ. Læknavaktin verður efld og verkefnum fjölgað og mun vaktin m.a. taka að sér að sinna ráðgjöf um síma fyrir heilsugæslustöðvar sem hafa einn lækni. Verktakagreiðslur fyrir viðtöl og vitjanir sem innheimtar hafa verið hjá Tryggingastofnun ríkisins falla niður og í stað þess fær Læknavaktin sf. fasta fjárhæð í fjárlögum ár hvert miðað við 9.000 vitjanir og 17.000 móttökur en endurskoða ber fjárhæðina ef frávik frá þessum tölum verða meiri en 6%. Fyrir önnur læknisverk en viðtal og vitjun innheimtir hver læknir um sig samkvæmt gildandi gjaldskrá heilsugæslulækna skv. I. og II. kafla í úrskurði kjaranefndar, sbr. fylgiskjal 1 frá 3. mars 1998. Af 124,1 millj. kr. heildarframlagi eru 99,1 millj. kr. millifærðar af öðrum liðum; 206 Sjúkratryggingar, Heilsuverndarstöðin í Reykjavík og Heilsugæslustöðin Hafnarfirði. Að auki er gerð tillaga um 25 millj. kr. fjárveitingu á þessum lið vegna endurmats á launa- og verðlagsforsendum í samningi um starfsemi Læknavaktarinnar til samræmis við hækkanir starfsmanna heilbrigðisstofnana. Nýr samningur þar sem tekið er tillit til breytinga á þeim forsendum lá ekki fyrir við framlagningu fjárlagafrumvarpsins en hefur nú verið undirritaður.

Lögð er til 2,5 millj. kr. hækkun á framlögum til Heilsugæslustöðin Borgarnesi svo hægt verði að ráða þar lækni yfir sumartímann.

Lagt er til að lækka framlag til Heilsugæslustöðvarinnar Hafnarfirði vegna tilfærslu til læknavaktarinnar um 4,3 millj. kr.

Gerð er tillaga um að lækka sértekjur sjúkrasviðs Heilbrigðisstofnunarinnar á Patreksfirði um 2 millj. kr.

Heilbrigðisstofnunin Blönduósi. Lögð er til 4,5 millj. kr. hækkun fjárveitinga til sjúkrasviðs sem fari í frágang á eldvarnabúnaði og til kaupa á sótthreinsitæki.

Ég er þá kominn að fjmrn. Farið er fram á 7 millj. kr. hækkun framlags til aðalskrifstofu. Annars vegar er gerð tillaga um tímabundna 8 millj. kr. fjárveitingu til nefndar um vandamál sem tengjast ártalinu 2000 í tækjabúnaði og upplýsingakerfum. Fjárveitingin er ætluð til að standa straum af kostnaði við aðgerðir nefndarinnar og störf en hún hefur unnið að því að vekja athygli á vandanum og hvetja til að unnið verði að lausnum. Meginþunginn í starfi nefndarinnar verður á árinu 1999.

Hins vegar er lagt til að 1 millj. kr. af fjárveitingu til stofnkostnaðar verði færð af viðfangsefninu Tæki og búnaður til Ríkisbókhalds vegna flutnings á launaafgreiðslu til embættisins.

Skattstofan í Reykjavík. Lagt er til að 6 millj. kr. verði fluttar af stofnkostnaði yfir á rekstur hjá stofnuninni. Gerður hefur verið samningur við Opin kerfi hf. um rekstrarleigu á tölvubúnaði fyrir stofnunina á grundvelli útboðs fyrir skattkerfið sem Ríkiskaup stóðu fyrir.

Gerð er tillaga um 8 millj. kr. hækkun á fjárveitingu til Skattstofu Reykjaness til að mæta auknum launakostnaði við embættið sem er m.a. vegna mikillar fjölgunar framteljenda í Reykjanesi á undanförnum árum.

Lagt er til að framlag til rekstrarleigu tölvubúnaðar fyrir skattkerfið hækki um 13 millj. kr. Það er undir liðnum Skatta- og tollamál og Ýmis útgjöld. Á móti lækkar framlag til viðfangsefnisins Tæki og búnaður. Það er vegna samnings við Opin kerfi hf. um rekstrarleigu á tölvubúnaði á grundvelli útboðs fyrir skattkerfið.

Þá er gerð tillaga um tímabundna hækkun fjárveitingar til viðfangsefnisins Athugun á virðisaukaskatti sem nemur 2 millj. kr. Að fenginni reynslu af virðisaukaskattskerfinu og með tilliti til athugunar Ríkisendurskoðunar á því er fyrirhugað að gera almenna úttekt á skattinum. Í því sambandi verði sérstaklega skoðuð hagræn áhrif skattsins, skatteftirlit, tæknilegir þættir við innheimtu og álagningu, lagabreytingar og mannaflaþörf.

Ríkistollstjóri. Gerð er tillaga um 8,4 millj. kr. lækkun á liðnum. Annars vegar er lagt til að 4,4 millj. kr. verði fluttar af fjárlagalið ríkistollstjóra á lið tollstjórans í Reykjavík vegna tollgæsluverkefna sem færast þangað. Hins vegar er gerð tillaga um að tekjur verði lækkaðar um 4 millj. kr. en þær eru taldar vera ofáætlaðar í fjárlagafrumvarpi. Gjöld lækka um sömu fjárhæð.

Ýmsar fasteignir ríkissjóðs. Gerð er tillaga um 70 millj. kr. fjárveitingu til að ljúka fjármögnun fyrirhugaðra endurbóta innan húss og viðbyggingu við húsnæði Tryggingastofnunar ríkisins að Laugavegi 114--116. Viðbyggingin verður um 100 fermetrar að grunnfleti, á tveimur hæðum, og er ætluð til að hægt verði að stækka rými fyrir þjónustumiðstöð stofnunarinnar á jarðhæð hússins. Með þessum framkvæmdum er einnig ráðgert að flytja þá starfsemi stofnunarinnar sem er nú í Tryggvagötu 28 á Laugaveg og að það húsnæði verði selt í framhaldi af því. Gert er ráð fyrir að verkið muni kosta alls um 266 millj. kr. og munu Fasteignir ríkissjóðs greiða um 96 millj. kr. til þess. Þá er gert ráð fyrir að um 50 millj. kr. af söluandvirði Tryggvagötu 28 renni til verksins.

Skýrsluvélakostnaður. Gerð er tillaga um 95 millj. kr. fjárveitingu til hugbúnaðargerðar fyrir tekjubókhaldskerfi. Frá árinu 1997 hefur Ríkisbókhald staðið fyrir endurnýjun á tekjubókhaldskerfi ríkisins (TBR) og fengið Skýrr hf. til liðs við sig í þeirri vinnu. Að undanförnu hefur farið fram endurskoðun á áætlunum um smíði og gangsetningu á nýja kerfinu. Niðurstaða þeirrar endurskoðunar er að vinna við að ljúka við smíðina krefst um 10 þúsund tíma til viðbótar við það sem áður hafði verið reiknað með. Skýrist það einkum af nýjum verkefnum sem leiðir af ýmsum breytingum á skattalögum og framkvæmd tekjuálagningar og innheimtu. Sem dæmi má taka álagningu fjármagnstekjuskatts, aukna skuldajöfnun, svo sem upp í meðlög og húsaleigubætur, tengingu við málaskrá lögreglustjóra vegna innheimtu sekta, gjaldfrest á fleiri gjöldum í tollafgreiðslu, gagnasamskipti við greiðslukortafyrirtæki vegna innheimtu fasteigna- og bifreiðagjalda o.fl. Þá hefur viðhaldskostnaður reynst þungur í skauti þar sem halda þarf við gamla og nýja tekjubókhaldskerfinu samtímis þar til nýja kerfið leysir hið gamla af hólmi árið 1999. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1999 eru aðeins áætlaðar 19 millj. kr. til verkefnisins enda ríkti mikil óvissa um niðurstöður endurskoðunarinnar þegar fjárlagaáætlanir þurftu að liggja fyrir.

Gert er ráð fyrir að viðfangsefnið 1.19 Ýmsar endurgreiðslur sem er ætlaðar eru til endurgreiðslu af búnaði björgunarsveita hækki um 10 millj. kr.

Hins vegar hafa á þessum fjárlagalið verið áætlaðar 15 millj. kr. til endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna söfnunar, urðunar, flutnings og eyðingar á brotamálmum hjá sveitarfélögum. Þessi heimild er nú komin inn í hið almenna endurgreiðslukerfi virðisaukaskattslaganna til sveitarfélaga og er því lagt til að fjárveitingin falli niður.

Þá er það samgrn. Lögð er til 16 millj. kr. hækkun á fjárveitingu til Slysavarnafélags Íslands til reksturs átta björgunarskipa félagsins, 2 millj. kr. til hvers.

Farið er fram á 4 millj. kr. framlag til nýs viðfangsefnis, Söfn tengd samgöngum og ferðaþjónustu.

Gerð er tillaga um 9,7 millj. kr. hækkun rekstrargjalda á liðnum Flugvellir en á móti hækka sértekjur um 0,6 millj. kr. Heildarbreytingin er því 9,1 millj. kr. til hækkunar og skýrist af því að við vinnslu fjárlagafrumvarps láðist að gera ráð fyrir launa- og verðlagsbótum vegna rekstrar flugvalla.

Auk þess er gerð tillaga um 102 millj. kr. fjárveitingu til að hefjast megi handa við endurbætur á Reykjavíkurflugvelli.

Fyrir liggur úttekt flugöryggissviðs Flugmálastjórnar sem unnin var í samvinnu við flugvallasérfræðing sænska loftferðaeftirlitsins. Niðurstöður skýrslunnar eru á þann veg að ekki þoli bið að ráðast í lagfæringar á uppbyggingu flugvallarins.

Gerð er tillaga um 2 millj. kr. hækkun á framlagi til Ferðamálasamtaka landshluta vegna aukinnar starfsemi þeirra undir liðnum Ferðamálaráð.

[12:45]

Lagt er til að ríkissjóður veiti 45 millj. kr. stuðning við að leggja nýjar hitaveitur á köldum svæðum. Iðnaðarráðuneytið setji reglur og semji við einstakar hitaveitur um framkvæmd málsins að teknu tilliti til þeirra niðurgreiðslna á rafhitun sem veittar hafa verið á viðkomandi svæði.

Lögð er til 1,5 millj. kr. hækkun til viðskiptaráðuneytis undir liðnum Samkeppnisstofnun vegna hækkunar fjárveitinga til samkeppnisráðs.

Umhverfisráðuneyti. Gerð er tillaga um að fjárveiting þessa liðar lækki um 1,5 millj. kr. Annars vegar er lagt til að framlag til aðalskrifstofu umhverfisráðuneytis lækki um 4,5 millj. kr. og að framlag til Þjóðhagsstofnunar hækki samsvarandi.

Hins vegar er farið fram á 3 millj. kr. fjárveitingu vegna vinnu við undirbúning að rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar kenndan við Kyoto. Ferðakostnaður vegna funda um tillögur Íslands um frekari ívilnun vegna orkunýtingar er áætlaður 1,5 millj. kr. Kostnaður við vísindanefnd er áætlaður 1 millj.kr. og erlend sérfræðiráðgjöf er áætluð 0,5 millj. kr.

Lagt er til að framlag til rannsókna á botndýrum á Íslandsmiðum hækki um 3,8 millj. kr. og er ætlað til rannsóknastöðvarinnar í Sandgerði. Framlagið er vegna fjármögnunar starfseminnar í stað norrænna styrkveitinga sem fallið hafa niður.

Þá er farið fram á 2 millj. kr. hækkun á viðfangsefni 1.35 Umhverfisvöktun vegna rannsókna á þrávirkum klórkolefnissamböndum í íslenskum fuglum.

Gerð er tillaga um að lækka sértekjur Náttúruverndar ríkisins um 2,8 millj. kr. á viðfangsefninu 1.10 Þjóðgarðar og friðlýst svæði. Lækkunin er vegna fyrirhugaðs útboðs á rekstri tjaldstæða í þjóðgörðum.

Lögð er til 12,8 millj. kr. tímabundin lækkun á sértekjum Landmælinga Íslands vegna minnkandi kortasölu.

Náttúrufræðistofnun Íslands. Alls er óskað eftir 7,7 millj. kr. hækkun á þessum lið. Í fyrsta lagi er farið fram á 3 millj. kr. fjárveitingu til mælinga á frjókornum í andrúmslofti en ákveðið hefur verið að stofnunin sjái um frjómælingar í lofti. Áætlað hefur verið að Reykjavíkursetur stofnunarinnar sjái um frjómælingar í lofti. Heildarkostnaður er áætlaður 3 millj. kr.

Í öðru lagi er lagt til að veita 2,5 millj. kr. tímabundið framlag til kaupa á nýrri jeppabifreið.

Loks er farið fram á 2,2 millj. kr. hækkun til seturs í Reykjavík til að mæta viðbótarkostnaði við rekstur þess hluta húsnæðis stofnunarinnar sem hún fékk samþykkt fyrir að taka á leigu um áramót 1996/1997. Húsnæðið var fyrst og fremst fyrir gróðurkortagerð sem þá var flutt frá Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Um er að ræða greiðslu vegna leigu, rafmagns, hita og ræstingar.

Gerð er tillaga um 3 millj. kr. tímabundna hækkun á fjárveitingum til Náttúrustofu, Bolungarvík til rannsókna á gróðri og dýralífi á Hornströndum.

Farið er fram á fjáveitingu að upphæð 2 millj. kr. til almenns rekstrar Veðurstofunnar. Veðurstofa Íslands vinnur verkefni á sviði ofanflóðamála sem annars vegar eru kostuð af ofanflóðasjóði og hins vegar af ríkissjóði. Nokkur verkefni sem Veðurstofan þarf að vinna þarfnast frekari fjárstuðnings til að þeim verði lokið. Um er að ræða kostnað við uppbyggingu snjóflóðagagnagrunna, ítarlega skýrslugerð um snjóflóðasögu einstakra byggðarlaga og svæða, svo og kostnað við almenna ráðgjöf og þekkingaröflun vegna varnarvirkja.

Jafnframt er farið er fram á tímabundna hækkun að fjárhæð 2,5 millj. kr. til endurnýjunar á einni af bifreiðum stofnunarinnar.

Herra forseti. Ég hef nú lokið við að fara yfir þær breytingartillögur sem meiri hluti fjárlaganefndar leggur til við 2. umr. málsins.

Þessar tillögur hljóða upp á rúmlega 1.700 millj. kr. Það er því ljóst að nú saxast á þann tekjuafgang sem gert var ráð fyrir með framlagningu frumvarpsins. Það markmið að skila hallalausum fjárlögum er enn í fullu gildi. Við núverandi aðstæður í efnahagsmálum er mikil nauðsyn að ríkissjóður sé rekinn hallalaus og skuldir greiddar niður. Ef auknar tekjur eru ekki í spilunum stendur fjárlaganefnd frammi fyrir því milli 2. og 3. umr. að þurfa að draga úr útgjöldum eða afla tekna fyrir þeim útgjöldum sem nauðsynlegt þykir að taka tillit til við lokaumræðu málsins.

Ég vil geta þess að meiri hluti nefndarinnar skrifar undir nál. Þar eru Jón Kristjánsson, Sturla Böðvarsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Árni Johnsen, Árni M. Mathiesen, Hjálmar Jónsson, Ísólfur Gylfi Pálmason og Kristinn H. Gunnarsson.

Ég vil að lokum, þó við 2. umr. sé, þakka meðnefndarmönnum mínum fyrir afar gott samstarf. Það á ekki síst við minni hluta nefndarinnar sem hefur innt vinnu sína af hendi með mikilli samviskusemi og á málefnalegan hátt. Það er nauðsynlegur þáttur lýðræðisins að minni hluti hverju sinni veiti meiri hluta stjórnarflokkanna aðhald og haldi uppi gagnrýni. Þetta er í fullu gildi í fjárlaganefnd en hefur hvergi komið niður á persónulegum samskiptum og fólk unnið saman af miklum heilindum. (ÖS: Bara eins og í heilbrigðisnefnd.) Þetta vil ég þakka nú, ekki síst þar sem nú er síðasta þing kjörtímabilsins.

Að venju hefur starfsfólk fjármálaráðuneytisins og Ríkisendurskoðunar veitt okkur margvíslega aðstoð. Það vil ég þakka. Starfsfólk Alþingis hefur verið okkur til halds og trausts allan tímann og vil ég þar sérstaklega nefna Sigurð Rúnar Sigurjónsson, ritara nefndarinnar, Ragnheiði Sumarliðadóttur og Bentínu Haraldsdóttur sem séð hafa um að taka við öllum þeim fjölmörgu símtölum og heimsóknum sem nefndin fær og Álfhildi Álfþórsdóttir sem unnið hefur við skráningu. Þessu fólki þakka ég sérstaklega frábær störf og gott viðmót.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.