Viðvera ráðherra og þingmanna við fjárlagaumræðu

Föstudaginn 11. desember 1998, kl. 13:03:05 (2111)

1998-12-11 13:03:05# 123. lþ. 38.93 fundur 158#B viðvera ráðherra og þingmanna við fjárlagaumræðu# (um fundarstjórn), KH
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 123. lþ.

[13:03]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það er nú aldeilis bragur á þessari umræðu um hið stóra fjárhagsdæmi, fjárlög íslenska ríkisins á næsta ári. Hér hefur hv. formaður fjárln. gert í ítarlegu máli grein fyrir þeim störfum sem fram hafa farið á síðustu vikum í fjárln. og gert grein fyrir áliti og brtt. meiri hlutans en mestallan tímann hafa stólar hv. þingmanna staðið auðir, með fáeinum undantekningum. Reyndar hefur ástandið stundum verið þannig að við höfum verið þrjú í þingsal, hv. frsm., hæstv. forseti og sú sem hér stendur. Við skulum vona að ýmsir hv. þm. hafi engu að síður getað fylgst með umræðunni.

Hitt er kannski verra, að stólar hæstv. ráðherra hafa staðið auðir hérna allan tímann að undanteknum stóli hæstv. fjmrh. sem stundum hefur komið hér inn og oftast verið í námunda við þingsalinn. Þetta er náttúrlega óvirðing við þessa umræðu sem ég gagnrýni harðlega. Ég var höndum seinni að fá orðið við upphaf umræðunnar um stjórn fundarins. Þar var mistökum mínum um að kenna en ekki hæstv. forseta. Þá ætlaði ég að fara fram á að hæstv. ráðherrum væri gert viðvart um að þessi mikilvæga umræða væri að hefjast og óska eftir því að þeir yrðu viðstaddir umræðuna.

Ég vildi sérstaklega nefna hæstv. heilbrrh., félmrh., menntmrh. og umhvrh. Ég vil sérstaklega nefna þessa ráðherra þó að mér finnist það í rauninni sjálfsögð og eðlileg krafa að gjörvallur ráðherrabekkurinn sé setinn þegar þessi umræða fer fram.

Þar sem nú verður gert matarhlé ætti tími að gefast til að ná sambandi við hæstv. ráðherra hvar sem þeir eru staddir núna og því vildi ég koma þessari ósk á framfæri áður en matarhlé verður gert.

(Forseti (ÓE): Forseti mun gera hæstv. ráðherrum viðvart og tekur undir að æskilegt væri að þeir væru hér viðstaddir.)