Afgreiðsla heilbr.- og trn. á frumvarpi um gagnagrunn

Föstudaginn 11. desember 1998, kl. 14:18:50 (2124)

1998-12-11 14:18:50# 123. lþ. 38.94 fundur 159#B afgreiðsla heilbr.- og trn. á frumvarpi um gagnagrunn# (um fundarstjórn), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 123. lþ.

[14:18]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Það eru fáheyrð tíðindi sem eru að berast úr hv. heilbr.- og trn. að búið sé að taka gagnagrunnsmálið út úr nefndinni. Við vorum í gær að afgreiða málið við 2. umr. Ég átti þátt í því ásamt hæstv. forseta að gera samkomulag um hvernig þinghaldinu yrði háttað í gær og unnið var eftir þeirri áætlun. Ekki var samið um aðra daga. Vitað var að fyrir lægju nefndardagar, gert ráð fyrir því að þeir yrðu á laugardag og mánudag, a.m.k. gæfist þá tími til að vinna málið.

Þetta mál var af minni hálfu og reyndar annarra afgreitt til 3. umr. í þeirri fullvissu að það yrði skoðað milli 2. og 3. umr. vegna þess að fyrir lágu yfirlýsingar meiri hluta nefndarinnar þess efnis. Vitaskuld hefur meiri hlutinn síðan rétt til þess að taka ekki tillit til ábendinga okkar þegar málið hefur hlotið sína eðlilegu umræðu og meðhöndlun í nefndinni milli 2. og 3. umr. Við því er ekkert að segja.

En það hefur ekkert verið gert. Það er brotinn á mér réttur, forseti, í þessu máli. Ég átti von á því þegar ég samþykkti þetta mál til 3. umr., og eins og ég hef talað í málinu að málið fengi eðlilega meðferð í nefndinni þó svo að að lokum yrði ekki tekið tillit til sjónarmiða minna. Ég verð vitaskuld að sætta mig við að vera í minni hluta. En ég þarf ekki að sætta mig við að brotinn sé á mér réttur sem þingmaður á hinu háa Alþingi. Þessi vinnubrögð, herra forseti, munu að mínu mati hleypa upp öllum þingstörfum til jóla.

Þetta er fáheyrð framkoma, ekki einungis gagnvart okkur þingmönnum heldur líka gagnvart umsagnaraðilum. Þeir eiga hins vegar ekki seturétt á hinu háa Alþingi. En að þetta skuli vera framkoma meiri hluta stjórnarliða gagnvart okkur í stjórnarandstöðunni, að taka málið út með þessum hætti, þegar vitað var að sérstakir nefndardagar voru til ráðstöfunar til að skoða þessi mál og önnur er fyrir neðan allar hellur, herra forseti. Vitaskuld verður að ræða þessi mál, ekki einungis milli þingflokksformanna heldur líka í forsætisnefnd, eins og krafa hefur komið um. Þetta eru alvarlegustu tíðindi sem ég man eftir að hafi gerst í vinnubrögðum milli stjórnar og stjórnarandstöðu í tíð núverandi ríkisstjórnar.