Fjárlög 1999

Föstudaginn 11. desember 1998, kl. 16:41:24 (2140)

1998-12-11 16:41:24# 123. lþ. 38.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, Frsm. minni hluta KH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 123. lþ.

[16:41]

Frsm. minni hluta fjárln. (Kristín Halldórsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Mér kemur í rauninni ekki á óvart að svolítið illa gangi að finna hentugt húsnæði fyrir fatlaða, húsnæði sem þeir þurfa á að halda, því það getur oft verið sérhæft og ekki er víst að það sé alltaf hentugt sem í boði er.

Ég vil líka minna á það í sambandi við biðlistana að ekki aðeins þeir sem á biðlistunum eru þurfa á aðstoð að halda. Aðstandendur þessa fólks þurfa oft að búa við mjög erfiðar aðstæður þannig að þegar leystur er vandi eins einstaklings á biðlista þá er verið að leysa vanda mjög margra sem í kringum hann eru.

Ég fagna því að verið sé að bæta við meðferðarúrræði fyrir unglinga. Ég geri mér grein fyrir því að þarna þarf að gera mjög stórt átak. En það er með öllu óviðunandi, ég get ekki sagt það með of sterkum orðum, að unglingar sem lent hafa í fíkniefnavanda þurfi að bíða eftir meðferð. Þeir verða að fá meðferð strax til þess að hægt sé að bjarga þeim.