Fjárlög 1999

Mánudaginn 14. desember 1998, kl. 13:25:27 (2244)

1998-12-14 13:25:27# 123. lþ. 40.7 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, GE (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 123. lþ.

[13:25]

Gísli S. Einarsson (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Eins og kom fram í áliti minni hlutans eru málin þannig að minni hlutinn hefur ekkert síður staðið að framsetningu og tillögum um breytingar á fjárlögum heldur en meiri hlutinn þannig að það er í rauninni óeðlilegt að minni hlutinn skuli ekki vera með á velflestum tillagnanna eins og mun koma í ljós við atkvæðagreiðsluna að raun er á. Það eru einstaka tillögur sem við munum ekki taka þátt í atkvæðagreiðslu um en það er ástæða til að gera grein fyrir þessu í upphafi máls. Það er líka ástæða til að gera grein fyrir því að tekjuforsendur fjárlaganna hafa ekki staðist fyrir síðasta ár frekar en fyrra ár og minni hluti fjárln. hefur gert athugasemdir og gagnrýnt þau atriði ítarlega vegna þess að það er um skekkjur að ræða sem bent hefur verið á fyrir fram hvernig niðurstaðan yrði. M.a. eru allar líkur á því að niðurstaða fjárhagsársins 1998 verði með halla upp á 7--9 milljarða. Það er ástæða til að hafa orð á þessu þar sem það er allt önnur mynd, herra forseti, heldur en blasti við.

Þó ég sé raddsterkur og heyrist vel til mín, þá liggur við, herra forseti, að umræður í þingsal séu svo miklar að þær yfirgnæfi þessa sterku rödd. Mér finnst ástæða til að hafa orð á því og biðja þingmenn um að geyma fundi sína, hvort það eru skemmtifundir í Vestmannaeyjum eða annars staðar sem verið er að ræða um, þangað til þessari atkvæðaskýringu er lokið.

(Forseti (ÓE): Forseti biður um hljóð í salnum.)

Ég tel ástæðu til að gera sérstaklega grein fyrir því að tillaga um örorkubætur og lífeyrisgreiðslur verður dregin til baka til 3. umr. Við höfum vitneskju um að þar muni koma alvarlegar nýjar tillögur varðandi þau málefni sem skipta miklu máli fyrir minni hlutann. Hann hefur barist fyrir því að fá verulega hækkun á þeim lið, bæði hvað varðar tekjutengingar og hækkun örorkubóta og grunnellilífeyris og tillaga okkar er því dregin til baka til 3. umr.

Ég tel einnig ástæðu til þess í upphafi að gera grein fyrir því að við munum biðja um sératkvæðagreiðslu um lið 5.5 undir 7. gr. sem er heimildargrein fjárlaganna. Þar með hef ég lokið skýringu minni.