Fjárlög 1999

Mánudaginn 14. desember 1998, kl. 14:49:39 (2263)

1998-12-14 14:49:39# 123. lþ. 40.7 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, GÁS (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 123. lþ.

[14:49]

Guðmundur Árni Stefánsson (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í lið 5.5 er tillaga sem er í frv. hæstv. fjmrh. um sölu hlutabréfa í Stofnfiski hf. og þarf ekki að fara mörgum orðum um stöðu þess máls og rekja það fyrir hv. þm., þau mál hafa komið hér til umfjöllunar og umræðu.

Nú er hins vegar þannig í pottinn búið að Ríkisendurskoðun hefur að ósk þingflokks jafnaðarmanna og síðan með samþykkt forsn. þau samskipti til umfjöllunar og mun skila skýrslu um þau mál innan tíðar. Þess vegna er fullkomlega óeðlilegt að krefjast þess af hv. þingheimi að hann taki efnislega afstöðu til þess máls því að gögnum hefur verið haldið frá hv. þm. og þau ekki sýnd. Ég fer þess því formlega á leit, áður en kemur til efnislegrar atkvæðagreiðslu um málið, að hæstv. ráðherra og stjórnarmeirihlutinn dragi þessa tillögu til baka. Stjórnarliðar hafa auðvitað öll tök á því að koma með hana með einum eða öðrum hætti eftir áramót þegar öll gögn málsins liggja fyrir, en þetta er fullkomlega fráleitt, virðulegi forseti. Ég beini orðum mínum sérstaklega til herra forseta að hann beiti áhrifum sínum til þess að menn verði ekki knúðir til þess að taka afstöðu til máls sem þeir hafa engin gögn á hendi um. Það er fjarri öllu lagi.