Fjárlög 1999

Mánudaginn 14. desember 1998, kl. 14:58:22 (2271)

1998-12-14 14:58:22# 123. lþ. 40.7 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, GÁS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 123. lþ.

[14:58]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Það eru áhöld um það undir hvaða fyrirsögn ég ætti að hafa þessar almennu vangaveltur mínar. Ég gerði grein fyrir því áðan við atkvæðagreiðsluna um 7. gr. heimildir að ákveðið ferli væri þegar af stað farið varðandi Ríkisendurskoðun og athugun á samskiptum Stofnfisks og landbrn. Ég gat þess að lögum samkvæmt hefur forsætisnefnd tekið við erindi frá þingflokki jafnaðarmanna og framsent það til Ríkisendurskoðunar með ósk um að tekin verði saman skýrsla um þau samskipti.

Þetta tel ég rétt að komi skýrt fram vegna athugasemda sem fram komu hér áðan. Svona er málið og lögum samkvæmt og er þannig í réttum farvegi. Ég fagna yfirlýsingum þar að lútandi hjá hæstv. landbrh. sem ég skildi þannig að málið væri í tiltekinni biðstöðu af hans hálfu og vænta mætti yfirlýsinga í ljósi þeirra gagna sem eru væntanlega að koma frá Ríkisendurskoðun fyrir jólaleyfi þingmanna. Það er mikilvægt að það komi fram við þessa afgreiðslu.