Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 16:54:21 (2339)

1998-12-15 16:54:21# 123. lþ. 41.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, SP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 123. lþ.

[16:54]

Sólveig Pétursdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki sammála fullyrðingum hv. þm. um að hér sé um allt annað frv. að ræða þó þessar tvær brtt. meiri hlutans nái fram að ganga. Á það hefur áður verið bent.

En ég tók eftir því áðan að hv. þm. setti fram þá skoðun sína að leita hefði átt umsagna erlendis frá. Þess vegna langar mig til þess að spyrja hana: Til hvaða aðila á að senda málið? Á að taka það vinnulag almennt upp við öll meiri háttar mál við löggjöf á hinu íslenska Alþingi?

Virðulegi forseti. Ég vil fá að nota þetta tækifæri til þess að upplýsa hve mikið hefur verið rætt um frv. sem hér er til umræðu. Við 1. umr. málsins þá tóku 17 ræðumenn til máls. (ÁRJ: Er þetta andsvar við mig?) Við 2. umr. tóku 26 ræðumenn til máls. Alls töluðu þessir ræðumenn samtals í 39 klst.

Þetta er vissulega andsvar við hv. þm. sem talaði um að málið væri ekki nógu vel unnið og að sjónarmið hefðu ekki komist að í umræðunni um málið.