Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 23:31:17 (2381)

1998-12-15 23:31:17# 123. lþ. 42.2 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 123. lþ.

[23:31]

Frsm. 1. minni hluta heilbr.- og trn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur legið fyrir frá upphafi að ég hef ekki getað sætt mig við tvo meginþætti þessa frv. Það er annars vegar einkarétturinn og hins vegar hvernig fara á með aðgengi vísindamanna. Ég hygg að ég sé sjálfur a.m.k. stjúpfaðir þeirrar brtt. meiri hlutans sem lögð er fram um aðgengi vísindamanna að grunninum. Ef hv. þm. hefur skilningarvitin í lagi eins og hann hefur hingað til haft þá hlýtur hann að hafa fylgst með þeim parti ræðu minnar sem laut einmitt að því. Ég hlýt að rifja það upp fyrir hv. þm. hvað það var sem ég var að segja hérna áðan.

Ég eyddi löngu máli einmitt í að rökstyðja það að ég teldi að ég hefði haft rétt fyrir mér um aðgengi vísindamanna. Mín tillaga sem nú er, að vísu ekki að öllu leyti en að hluta til, þ.e. obbinn af henni, orðin að tillögu meiri hlutans, er miklu betri en upphafleg tillaga meiri hlutans þó ég hafi að vísu haft aðra tillögu sem var enn betri. Ég sagði líka að ég teldi að Rannsóknarráð Íslands hefði rangt fyrir sér í þessu máli. Þannig að ekki er um það að ræða að ég sé nokkuð að hlaupast frá þeim hugmyndum mínum. Það er hins vegar algjörlega ljóst að ég er alfarið á móti einkaréttinum. Ég las upp úr grein starfsmanns Íslenskrar erfðagreiningar sem ég tel að hafi verið bestu rökin fyrir því hvers vegna ekki eigi að leyfa einkaréttinn.

Ég tel að hið sama gildi um þetta og hitt fyrirtækið sem hv. þm. nefnir hér til sögunnar, Íslenskar hveraörverur. Einkaréttur getur einungis hjálpað í afar skamman tíma en að lokum leiðir hann til stöðnunar, fyrir utan það að hann lokar á ósanngjarnan og ólíðandi hátt leiðinni fyrir öðrum vísindamönnum hjá öðrum fyrirtækjum eða öðrum rannsóknarstofnunum. Út á þetta gengur afstaða mín í þessum efnum. Afstaða mín til þessa frv. hefur því í sjálfu sér ekki breyst né heldur til einkaréttar almennt. Ég er á móti honum eins og hv. þm. var þegar hann var í prófkjöri fyrir nokkrum vikum. En tímarnir eru greinilega breyttir síðan.