Landhelgisgæsla Íslands

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 12:39:31 (2497)

1998-12-17 12:39:31# 123. lþ. 44.18 fundur 233. mál: #A Landhelgisgæsla Íslands# (útboð) frv. 142/1998, KH
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[12:39]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. var ég fjarverandi við afgreiðslu málsins og var það af óviðráðanlegum orsökum. Það er erfitt að vera á tveimur stöðum enda henti það í þessu tilviki að ég þurfti að velja á milli funda í tveimur nefndum. Þess vegna vil ég láta koma fram að ég er hlynnt efni þessa frv. og mun styðja það.

Ég er þeirrar skoðunar að framkvæmdir af ýmsu tagi, svo sem smíði varðskips, megi kosta meira en ef það væri smíðað erlendis vegna þess að heildarávinningurinn er slíkur. Auðvitað geta verið einhver mörk á því, en það er fyrst og fremst af þeirri ástæðu, svo og með tilliti til atvinnulífsins sem ég er hlynnt þessu frv. Mér finnst reyndar forsendur frv. dálítið hæpnar vegna þeirrar áherslu sem er lögð á að þetta sé vegna öryggishagsmuna. Auðvitað eru forsendur frv. fyrst og fremst atvinnulegs eðlis en þær forsendur eru klæddar í búning einhverra öryggishagsmuna. Ég held að þeir standist ekki.

Í umfjöllun um málið í nefndinni kom fram að Svíar hefðu haft í huga að bera við öryggishagsmunum til að komast undan útboði til að smíða varðskip en þeir komust ekki undan þeim ákvæðum vegna aðildar að ESB.

Það er einnig álitamál hvort þessi aðgerð standist ákvæði EES-samningsins. Það skal tekið fram að sérfræðingur ríkisstjórnarinnar um EES-málefni, Björn Friðfinnsson, kom á fund nefndarinnar og lét í ljósi það álit að svo mundi ekki verða og við kynnum að standa frammi fyrir málaferlum vegna þessa.

Það kom einnig fram í máli hv. 10. þm. Reykv., Guðmundar Hallvarðssonar, að hann teldi að engin væru þau leyndarmál að finna í búnaði varðskipanna að réttlætanlegt væri að bera þessu við.

En þetta vildi ég láta koma fram og þá fyrst og fremst það að ég er hlynnt frv. og mun styðja það og er það vegna þess að ég tel að rétt sé að sinna verkum sem þessum innan lands ef þess er nokkur kostur.