Árásir Bandaríkjamanna og Breta á Írak

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 14:55:43 (2512)

1998-12-17 14:55:43# 123. lþ. 44.92 fundur 176#B árásir Bandaríkjamanna og Breta á Írak# (umræður utan dagskrár), SvG
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[14:55]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Þegar maður fylgist með fjölmiðlum og horfir mikið á sjónvarp eins og við mörg gerum, setjast sumar myndir fastar í höfuðið á manni en aðrar. Ég geri ráð fyrir því að mörg okkar hér hafi í morgun eða í nótt séð viðtalið við Kofi Annan, aðalritara Sameinuðu þjóðanna, þar sem hann brást við þessum tíðindum.

Hann brást þannig við þessum tíðum að margt benti til að þessar loftárásir hefðu komið honum á óvart, þær hefðu komið honum í opna skjöldu.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna sat á fundi þegar tíðindin bárust þangað inn. Þar var rætt um skýrslu trúnaðarmanns samtakanna um ástandið í Írak. Ég hygg að ekki sé hægt að orða það mikið vægar en svo að þessi niðurstaða sé dapurleg fyrir Sameinuðu þjóðirnar. Og ekki bara dapurleg fyrir Sameinuðu þjóðirnar heldur líka fyrir allt hið alþjóðlega kerfi eins og það leggur sig, alþjóðleg samtök af hvaða tagi sem þau eru. Mér finnst að við, sem fulltrúar lítillar þjóðar við ysta haf, eigum að líta á málið og segja: Hvað hefðum við getað gert til þess að málin hefðu þróast öðruvísi? Hefðum við getað beitt okkur, hjá NATO, Sameinuðu þjóðunum eða annars staðar, til þess að koma í veg fyrir að þessi hræðilegi dagur skyldi renna upp yfir mannkynið, íbúa Íraks, Sameinuðu þjóðirnar og allt hið alþjóðlega kerfi?

Ég tel, herra forseti, skynsamlegt að við, í framhaldi af þessum umræðum utan dagskrár sem ég vil þakka fyrir, að utanrmn. Alþingis og utanrrh. beittu sér fyrir því að fara yfir stöðu mála og stöðu Íslands gagnvart viðburðum af þessu tagi. Ég er alveg viss um að við höfum ekki fundið þá leið sem er örugglega best fyrir Ísland í viðbrögðum okkar.