Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 19:12:03 (2551)

1998-12-17 19:12:03# 123. lþ. 44.17 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# (sala hlutafjár) frv. 167/1998, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[19:12]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er fróðlegt að heyra ráðherra Framsfl. tala hér máli verðhallanna. (Gripið fram í: Mál?) Verðhallanna, og verðbréfaviðskiptanna. (Gripið fram í: Kauphallanna.) Flokkur sem á sínum tíma taldi sig til miðju stjórnmálanna, jafnvel ná inn til vinstri, en er hér fyrst og fremst að tala máli verðbréfamiðlara.

Ég vil fyrst leiðrétta hæstv. ráðherra varðandi samráð, hið góða samráð við starfsmannafélög og starfsmenn. Starfsmönnum var stillt upp við gerðan hlut, gagnvart ákvörðun ríkisstjórnar sem þeir voru ekki sáttir við. Spurningin er síðan hverju þeir ná í sínum varnarsigrum gagnvart því sem hæstv. ráðherra leyfir sér að kalla almannavæðingu þessara fyrirtækja. Og segir að 93 þúsund manns, 93 þúsund einstaklingar eða aðilar hafi keypt hlut í bönkunum. Hve margir skyldu hafa átt þessa banka áður? Skyldu það hafa verið 270 þúsund manns?

Það var þjóðin sem átti þessa banka, 270 þúsund manns. Nú er byrjað að þrengja þessa eignaraðild, hún er núna komin niður í 93 þúsund og síðan mun hún þrengjast áfram. Vegna þess að við vitum öll hvert leiðin liggur, til þeirra sem eiga fjármagn hér í landinu. Og við vitum líka því miður hverjum þessi ríkisstjórn þjónar. Það er þessum aðilum, þessum hagsmunaaðilum.

Að hugsa sér að það skuli vera orðið hlutskipti Framsfl. að þjóna fjármálaöflunum í landinu. Það finnst mér nöturlegt hlutskipti. Það finnst mér vera skilaboð til íslenskra kjósenda í komandi kosningum í vor.