Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 11:25:14 (2566)

1998-12-18 11:25:14# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[11:25]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Nú hefur hv. 4. þm. Vestf. talað í 20 mínútur án þess að minnast einu aukateknu orði á það hvernig hans flokkur eða samfylking jafnaðarmanna mundi vilja bregðast við þessum dómi. Hann hefur hins vegar sakað ríkisstjórnina um það að gæta sérhagsmuna.

Vissulega fjallar þetta frv. fyrst og fremst um atvinnuréttindi um 800 trillukarla. Það er alveg rétt. Ég skammast mín ekkert fyrir það að leggja hér fram frv. í þeim tilgangi að verja atvinnuréttindi þeirra. Það skiptir þá, fjölskyldur þeirra og margar byggðir á Íslandi miklu máli að svo verði gert.

Síðan kemur hér formaður jafnaðarmanna og segir að það sé sérhagsmunagæsla að standa vörð um atvinnuhagsmuni þessara manna. Eftir dóm Hæstaréttar liggur fyrir að aðgangur er frjáls í veiðikerfi þeirra. Til þess að mæta þeirri stöðu verða menn að bregðast við.

Formaður Alþfl. lýsti því yfir austur á fjörðum þegar bræðingurinn tilkynnti nýja framboðið þar að markmið hans væri að taka allar veiðiheimildirnar og setja á uppboð, þar á meðal á Austfjörðum. Vill formaður Alþfl. lýsa því yfir að markmið hans sé að taka veiðiheimildirnar af trillukörlum og bjóða þær á uppboði? Ef ekki, hvað annað ætlar hann að gera til þess að verja atvinnuhagsmuni þeirra eftir að Hæstiréttur hefur opnað frjálsan aðgang í veiðikerfi þeirra?