Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 13:08:55 (2582)

1998-12-18 13:08:55# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[13:08]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. talar mikið um gæslu sérhagsmuna. Nú vil ég gjarnan fá að heyra það beint frá hv. þm. hvort hún telur að það sé gæsla sérhagsmuna þegar með þessu frv. er verið að reyna að verja atvinnuréttindi 800 trillukarla. Dómur Hæstaréttar liggur alveg skýr fyrir um 5. gr. Hann kallar á tvenns konar viðbrögð. Annars vegar að breyta lögunum þannig að allir geti fengið veiðileyfi, og það er gert. Hins vegar þarf að taka afstöðu til þess hvort þau veiðileyfi eigi að ganga inn í félagslegt kerfi trillukarlanna þannig að allir nýir aðilar sem þangað koma geti farið inn og minnkað atvinnuréttindi þeirra sem fyrir eru. Það var mat ríkisstjórnarinnar að ekki væri sanngjarnt að bregðast þannig við og svipta þannig trillukarlana lífsviðurværi sínu. Við töldum rétt að verja atvinnuhagsmuni þeirra.

Nú vil ég gjarnan spyrja hv. 19. þm. Reykv., af því hún notar svo mikið þetta hugtak ,,að gæta sérhagsmuna``: Telur hún í raun og veru að það sé óeðlileg sérhagsmunagæsla að reyna að slá skjaldborg um þessi atvinnuréttindi? Ég vil gjarnan að því sé svarað alveg klárt hvort þetta er óeðlilegt að mati hv. þm.