Útboð á rekstri hjúkrunarheimilis fyrir aldraða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 16:32:54 (2609)

1998-12-18 16:32:54# 123. lþ. 45.92 fundur 180#B útboð á rekstri hjúkrunarheimilis fyrir aldraða# (umræður utan dagskrár), RG
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[16:32]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Í máli þessu vakna margar spurningar og í forvalsreglum er ekki mikið um svör. Þetta er mjög stór biti, stórt heimili, þ.e. 60 rúma. Upp vakna spurningar um, ef menn vilja reyna nýjar leiðir, hvort ekki eigi að þróa þær smátt og smátt og læra af reynslunni. Hvað þekkjum við í svona málum? Við þekkjum verkefni hjá Barnaverndarstofu. Þar eru ekki útboð og ekki samið við lægstbjóðanda. Þar er reyndar samið við einkaaðila á grundvelli hæfni og faglegrar þekkingar til skemmri tíma. Þar er um að ræða þjónustusamninga og mikið eftirlit. Þar sér Barnaverndarstofa um vistanir og útskriftir og allar ákvarðanir eru í höndum fagfólks. Þar er um fimm ára samninga að ræða og skýr uppsagnarákvæði um samninga.

Við erum hér að líta til mjög langs tíma, 25 ára. Hann er vegna húsnæðisins, vegna þess að viðkomandi eiga að byggja eða leggja til húsnæði og fá í staðinn svo langan samning. Þá vaknar spurningin um réttarstöðu hins aldraða. Hvernig á þjónustan að vera? Heilbrrh. vísar í lög. Hvernig eru skyldur verksalanna tryggðar, þeirra sem fá verkefnið? Eru skýr ákvæði um eftirlit? Hver verður með eftirlitið? Hvernig tryggjum við réttindi skjólstæðingsins, hvernig koma stjórnsýsluákvarðanir að og hver ákveður? Ef vísað er á ráðuneytið þá ætla ég að leyfa mér að halda því fram að það sé of fjarlægt. Það er önnur staða en þegar undirstofnun er með þjónustusamninga um svona mikilvæg verkefni.

Herra forseti. Af því hér er ekki um að ræða þingmál og stefnumörkun sem við getum rætt, þetta er auglýsing og ákvörðun frá heilbrrn., þá er það mitt mat að heilbr.- og trn. Alþingis ætti að fara yfir alla þætti þessa máls. Málið kallar í raun á nákvæma yfirferð Alþingis. Hér er lagt inn á nýja braut og við alþingismenn verðum að tryggja að sú braut sé a.m.k. fær hinum öldruðu.