Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 18:20:51 (2636)

1998-12-18 18:20:51# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[18:20]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Tilefni þess frv. sem við erum að ræða hér er dómur Hæstaréttar. Það hefur verið rætt hér í allan dag og reyndar verið það mikið í umfjöllun á opinberum vettvangi að flestum eru efnisatriðin ljós. Við stöndum frammi fyrir tveimur spurningum. Það er í fyrsta lagi að svara þeirri spurningu hver vandinn sé í kjölfar þessa dóms. Ef við getum svarað þeirri fyrri þá er seinni spurningin: Hvernig bregðumst við við?

Herra forseti. Við erum ekki sammála um fyrri spurninguna, hver sé vandinn. Og þá vandast málið að reyna að leita lausna. Mér finnst að þetta hafi ekki verið dregið nógu skýrt fram. Ríkisstjórnin telur að það eigi, og frv. er lagt upp með þeim hætti, að taka á dómi Hæstaréttar með því að breyta ákvæðunum um veiðileyfi, úthlutun veiðileyfa, og taka á smábátaþættinum eins og þar er gert. Við getum kallað þetta þrönga túlkun, eins og ég held að talsmenn ríkisstjórnarinnar hafi á einhverju tímabili sagt. Aðrir, og þar á meðal ég, segja að dómur Hæstaréttar feli í sér stærra vandamál en forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar vilja vera láta.

Ég fæ ekki séð annað út úr dómi Hæstaréttar en að það verði að taka bæði reglur um úthlutun veiðileyfa og veiðiheimilda til endurskoðunar. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa sagt: Dómurinn fjallar ekki um 7. gr. og það sem leiðir af henni, sem er að hluta til bundið í reglugerð, en segja hins vegar að það þurfi að taka á 5. gr. með veiðleyfið. Þeir hafa fært lögfræðileg rök fyrir sínu máli. Við hinir sem erum ekki lögfræðingar en kunnum líka að lesa lagatexta drögum fram það sem segir í dómnum, en hann gengur raunverulega allur út á það að fjalla bæði um veiðileyfi og veiðiheimildir og nýtingu fiskstofnanna. Það er ekki hægt að mínu mati að draga aðra ályktun en að reglan um úthlutun veiðileyfa, þ.e. að þeir einir geti fengið veiðileyfi sem eiga skip og áttu þau á tilteknum tíma, sem er talin brjóta í bága við tvö ákvæði stjórnarskrárinnar og við 1. gr. laganna, er sama regla og lögð er til við úthlutun veiðiheimilda. Og það er auðvelt að lesa út úr dómnum að það kalli þá á endurmat á þessum reglum.

Hér er um að ræða lögfræðilegan ágreining að hluta til. Fjölmargir lögfræðingar hafa tjáð sig í þá veru sem ég er hér að ræða og segja að frv. ríkisstjórnarinnar gangi of skammt. Það er því engin furða þó að umræðan vilji verða dálítið sundurlaus þegar menn gæta þess ekki að halda því aðgreindu að ágreiningurinn stendur um grundvallaratriði eða fyrstu spurninguna, þ.e. hver vandinn sé. Þá er ekki von að menn geti náð vel utan um lausnir á þessu vandamáli.

En þó er eitt í dómnum alveg ótvírætt og ég hef ekki heyrt neinn bera á móti. Það er sá rammi sem Hæstiréttur telur að löggjöf um fiskveiðistjórn verði að vera í. Ramminn markast ekki bara af 65. gr. stjórnarskrárinnar um jafnrétti sem er beinlínis skoðuð sérstaklega í þessum dómi, og ekki einungis af 75. gr. stjórnarskrárinnar sem fjallar um atvinnuréttindi sem eru líka lögð til grundvallar í þessum dómi, heldur einnig út frá 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða. Við getum sagt að þessar þrjár lagagreinar séu tilgreindar þarna sérstaklega þó að vitaskuld þurfi öll lög og öll stjórn að vera í samræmi við önnur lög, og ég tala nú ekki um við stjórnarskrá. En þetta er samt ágæt vinnuregla fyrir okkur til að nálgast þessa umræðu.

Ég ætla að lesa upp þessa 1. gr. því að fyrsti málsliðurinn í henni hefur aðallega verið lesinn. En 1. gr. er lengri. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar.``

Þetta ákvæði er þekkt og er margvitnað í í dómnum. Síðan segir:

,,Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.``

Þetta er mjög mikilvægur málsliður vegna þess að þar segir: Það á að vernda og það á að tryggja hagkvæma nýtingu. Lögin setja ríkisvaldinu tiltekin skilyrði með þessu orðalagi. Það ber að vernda fiskstofnana. Við megum ekki gleyma því að þegar lögin voru sett upprunalega, 1983, var verndunarsjónarmiðið fyrst og fremst lagt til grundvallar. Þá var fiskveiðistjórnarkerfið í þessum anda sett á tímabundið og endurskoðað frá ári til árs. Og það er einmitt rakið mjög skilmerkilega í dómnum að einmitt þessar ástæður, hinn sterki verndunarþáttur, skammtímasýnin á þetta vandamál og það að brýna nauðsyn bar til, heimila samkvæmt stjórnarskrá að þrengja að möguleikum manna. Það er heimilt út frá þeim sjónarmiðum að það væri verið að vernda fiskstofnana sem væru í bráðri hættu og að þetta væri til skamms tíma. Svo var þessi regla um eignarhaldið frá því fyrir fimmtán árum, skipaeignarhaldið, sem hefur verið notað allan tímann, gerð ótímabundin í endanlegu formi 1990, og það er fyrst og fremst um það sem Hæstiréttur er að fjalla.

En hvað þýðir hagkvæm nýting? Það setur þá kröfu á ríkisvaldið að fiskveiðistjórnarkerfið skili hagkvæmni. Það verður ekkert undan því vikist. Almennt er það stefna stjórnmálaflokka að stuðla að kerfi sem nær hagkvæmni í notkun. En hérna er alveg ótvírætt að ekki er hægt að skjóta sér undan því. Það er ekki hægt að koma með fiskveiðistjórnarkerfi sem er óhagkvæmt. Þetta setur okkur ákveðin skilyrði. Nú er ég ekkert að leggja mat á hin mismunandi fiskveiðistjórnarkerfi, en það þarf að hafa í huga að dómur Hæstaréttar fjallar ekki um fiskveiðistjórnarkerfið. Hann gerir það ekki. Hann fjallar ekki um fiskveiðistjórnarkerfið. Hann fjallar um reglur við úthlutun veiðileyfa. Það er ótvírætt og ekki deilur um það við stjórnvöld. Það er ekki deilt um það atriði. Og síðan, að mínu mati, fjallar hann um hvernig við úthlutum veiðiheimildum. Úthlutun veiðiheimilda er vitaskuld þáttur í fiskveiðistjórnarkerfinu en það er ekki fiskveiðistjórnarkerfið sjálft. Menn þurfa að hafa þetta mjög skýrt í huga. Þó svo að menn taki upp úthlutun fiskveiðiheimilda, t.d. hættu við að úthluta á grundvelli þessarar þriggja ára reynslu í kringum 1980, tækju síðustu þrjú ár, deildu öllu jafnt eða eftir stærð skipa eða hvernig sem menn mundu gera það --- það er hægt að hugsa sér margar leiðir og margar voru ræddar árið 1983 þegar menn voru að upphugsa þetta kerfi. Ég er sennilega eini maðurinn í þingsölum nú sem tók þátt í þeirri umræðu mjög virkt því ég sat á fiskiþingi á þeim tíma þegar þessar upprunalegu hugmyndir sem síðar urðu að lögum voru ræddar og útfærðar. Og það get ég sagt þingheimi að ekki óraði menn, þegar þeir voru að ræða þetta, fyrir afleiðingum þeirra nokkrum árum seinna, því að þeir sem þá töluðu fyrir kvótakerfi litu á það sem bráðabirgðaráðstöfun sem átti að standa í eitt til tvö ár og síðan yrðu frjálsar veiðar hafnar aftur. Raunverulega allir höfðu það viðhorf þegar umræðan hófst fyrir fimmtán árum. Hún byrjaði reyndar fyrr. En ég tel mikilvægt að menn hafi þetta í huga, að á ýmsu hefur gengið í þessari umræðu.

[18:30]

Í 1. gr. segir einnig að tryggja eigi trausta atvinnu og byggð í landinu. Löggjafinn hefur því heimildir, bæði fyrir og eftir þennan dóm, til að koma með nýtt kerfi sem tekur mið af öðrum þáttum en núverandi kerfi gerir t.d. við úthlutun veiðiheimilda, ef löggjafinn færi að úthluta þeim öðruvísi, t.d. til byggða sem alveg væri hægt að gera en viðhalda samt aflamarkskerfinu. Það er hægt að viðhalda aflamarkskerfinu ef menn kjósa svo. Ég held að það hafi verið rakið í ræðu af hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni áðan að það gæti verið skynsamlegasta leiðin í útfærslu aflamarkskerfis sem stæðist ákvæði stjórnarskrár. Ég held að hann hafi orðað það svo. Þarna er dreginn upp nokkuð skýr rammi. Vitaskuld eru mikil átök um hvort vera eigi aflamarkskerfi eða sóknarmarkskerfi. Út á það gengur hefðbundin umræða um fiskveiðistjórn. Við þekkjum þá umræðu hér á Íslandi.

Það sem ég vil hins vegar reyna að draga fram er að þetta mál snýr ekki að því hvort við tökum upp sóknarmarkskerfi eða aflamarkskerfi. Þetta mál snýr að því, til viðbótar því sem fjallað er um í frv. ríkisstjórnarinnar, að endurbæta kerfið sem úthlutar veiðiheimildum. Ríkisstjórnin eða aðilar nátengdir ríkisstjórninni hafa sagt: Látið bara reyna á þetta gagnvart lögum. Farið bara í mál, látið reyna á 7. gr.

Það er ekki skynsamlegt, herra forseti, hvorki fyrir núv. ríkisstjórn, ríkisvaldið eða Alþingi að afgreiða lög sem mjög mikill vafi leikur á að standist önnur lög. Ég tala nú ekki um ef vafi leikur á að þau standist stjórnarskrá. Það er ekki góð stefna --- að vísu er það stjórnmálastefna núv. ríkisstjórnar en ég hafna þeirri stefnu --- að ætla að reka mikilvæga atvinnugrein eftir dómum frá Hæstarétti og koma með hvert álitamálið á fætur öðru í lagasetningu sem síðan á að túlka fyrir dómi. Það er ekki góð stefna. Menn verða að reyna að nálgast vandamálið öðruvísi. Mér finnst margt slæmt í umræðunni og ég hefði lagt til að í þessari umræðu tækju menn báða þessa þætti til skoðunar og reyndu að stokka þá upp þannig að líkur væru til að þeir væru í samræmi við ákvæði stjórnarskrár. Auðvitað afnemur maður aldrei rétt manna til að fara með mál fyrir dómstóla. Maður á hins vegar ekki að segja, eins og einn aðallögfræðilegur ráðgjafi ríkisstjórnarinnar hálfhreytti út úr sér gagnvart almenningi: ,,Farið bara í mál og látið reyna á það.`` Þar á bak við er náttúrlega ákveðin pólitísk hugsun. Ef til málaferla kemur út frá 7. gr. er mjög ólíklegt að kominn yrði dómur í Hæstarétti fyrir næstu kosningar.

Þessi óvissa og aðferðafræði er ótæk að mínu mati. Ég tel að mikilvægt sé að nota tilefnið sem þessi dómur gefur til að taka upp bæði veiðileyfin og úthlutunaraðferðina, burt séð frá því hvernig menn síðan úthluta, hvort úthlutað verður í formi gjaldtöku, uppboðs, dreift jafnt eða eftir öðrum sjónarmiðum. Ég ætla í sjálfu sér ekki að draga upp eina lausn í því en bendi á að við getum samt búið áfram við aflamarkskerfið sem slíkt þó að þessi úthlutunarregla verði tekin upp.

Það sem ég hefði viljað að við notuðum tækifærið til er að leita sátta um fiskveiðistjórnarkerfið, ekki sátta við hæstv. sjútvrh., ekki við Sjálfstfl., ekki við Framsfl. Ég hef engan áhuga á að leita sátta við þessa flokka eða ríkisstjórnina um þetta efni. Þeir hafa dregið fram sína pólitísku stefnu varðandi þetta mál. Ég er andvígur henni og það er ekkert að því að pólitískur ágreiningur sé um hvernig eigi að leysa þetta mál. Það er heldur ekkert að því að pólitískur ágreiningur og jafnvel lögfræðilegur ágreiningur sé um hver vandinn sé. Það er ekkert að því.

Þegar ég tala um að leita sátta þá er ég að tala um að leita sátta við fólkið í landinu. Ég lít ekki svo á að Sjálfstfl. eða Framsfl. hafi einhvern rétt til að túlka sjónarmið fólksins í landinu í þessum málum. Ég veit vel að þessir tveir flokkar eru mjög stórir og öflugir og koma vel út í skoðanakönnunum. Ég get hins vegar bent á að miðað við skoðanakannanir á þessu máli virðast þeir frekar að gæta hagsmuna hinna fáu, þ.e. þeirra sem fá úthlutað eftir núverandi kerfi, frekar en þeir vilji stokka þessi mál upp.

Ég held að mjög brýnt sé að starfandi menn í greininni séu í meiri sátt við kerfið. Óánægjan hefur verið mjög lengi og ekki til góðs. Hún hefur náttúrlega magnast upp í kjölfarið á þessum dómi. Allir sem starfað hafa í sjávarútvegi vita að ef skipstjórnarmenn og sjómenn eru ekki sáttir við reglurnar og kerfið --- margir þeirra eru ósáttir þó vitaskuld séu það ekki allir --- kallar það á ákveðið virðingarleysi, ef svo má að orði komast. Það er ekki í neikvæðri merkingu heldur er virðingarleysið gagnvart kerfinu og leikreglunum sem gilda í því. Allir vita að slíkt hefur komið upp í sambandi við þetta fiskveiðistjórnarkerfi.

Þetta er svipuð hugsun og ég hef reynt að orða í sambandi við gagnagrunnsmálið sem við vorum að afgreiða hér sem lög. Það kerfi og sú löggjöf er ónýt vegna þess hve mikið ósætti ríkir hjá þeim sem eiga að starfa eftir henni, hvort sem er innan vísindasamfélagsins eða heilbrigðisþjónustunnar. Það er mitt mat. Ég dreg skýrt fram að ég er hér að lýsa pólitísku mati mínu og reyni að rökstyðja það en ég veit að ýmsir aðrir líta öðruvísi á og leggja aðra pólitíska mælikvarða á staðreyndirnar sem liggja fyrir. Við því er ekkert að gera. Meginþátturinn í svona umræðu finnst mér að reyna að draga skýrt fram kostina, svo velja megi milli tveggja, þriggja stefna eða möguleika.

Ég ætla mér ekki að sannfæra hæstv. sjútvrh. eða aðra fulltrúa ríkisstjórnarinnar um mat mitt á íslenskum sjávarútvegi, því hvernig leysa eigi málin í kjölfar dómsins eða skipuleggja fiskveiðistjórnarkerfið. Ég hef um nokkurn tíma reynt að sannfæra, ekki þá heldur fólkið í landinu um þau áhersluatriði sem ég legg til grundvallar. Þessi umræða á ekki að snúast um að við reynum að sannfæra hver annan heldur að við getum dregið það upp nógu skýrt gagnvart almenningi hvernig hann geti valið á milli þessara flokka. Það kann að skipta viðkomandi það miklu máli að hann vilji greiða atkvæði fyrst og fremst út frá þessum málaflokki. Svo er um marga hér á landi. Ég held að það sé ekki ofsagt að þetta mál verður eitt aðalmálið í kosningunum.

Ef til vill höfum við skoðað þessi mál of þröngt. Ég vil benda á viðtal við Gísla Pálsson prófessor í Morgunblaðinu í dag og sjónarmið sem hann hefur svo sem hann hefur oft haldið fram áður. Það þarf að líta á þessi mál út frá víðara sjónarhorni en við höfum gert undanfarin ár. Ég hugsa að það sé mikið til í því að við höfum skoðað þetta út frá e.t.v. of þröngum sjónarmiðum um hagkvæmni. Aðrir þættir koma einnig þarna inn. Við verðum að gefa gaum að þeim og höfum e.t.v. ekki verið nógu víðsýn í þeirri umræðu.

Mér finnst hins vegar, herra forseti, viðbrögð ríkisstjórnarflokkanna ekki hafa verið góð í þessu máli. Mér finnst þeir hafa talað, sérstaklega hæstv. forsrh., niður til Hæstaréttar í þessu máli. Við eigum að virða Hæstarétt, taka niðurstöðu hans og vinna úr því. Mér finnst viðbrögð ríkisstjórnarinnar hafa einkennst af hroka og yfirlæti sem ekki eru óalgeng viðbrögð hjá ríkisstjórninni. Þeir eru sjálfum sér verstir með því að einkenna málflutning sinn þannig. Það er þá þeirra mál. En mér finnst þó mikilvægt að það sé dregið skýrt fram.

Herra forseti. Ég held að öllum eigi að vera ljóst að leið ríkisstjórnarinnar er ekki sú leið sem við viljum fara. Við teljum þá leið ekki fullnægjandi í kjölfar dóms Hæstaréttar.