Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 18:50:39 (2641)

1998-12-18 18:50:39# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., GHall
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[18:50]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Hér hafa verið athyglisverðar umræður í dag um mál þar sem ekki leikur nokkur vafi á að sjútvn. og sjútvrh. standa frammi fyrir mjög erfiðu viðfangsefni. Þó eru nokkur atriði sem ég vildi koma inn á og í lok ræðu minnar nokkuð inn á það sem síðasti ræðumaður, hv. 11. þm. Reykn., sagði þegar hann auglýsti eftir stefnu og sagði að hann hefði nokkuð ljósa stefnu á takteinum sem hann muni leggja fyrir kjósendur. Ég kem að því síðar.

Herra forseti. Ég held að þjóðinni sé ljóst, eins og fram kemur í grg. frv., að eitt helsta viðfangsefni varðandi fiskveiðistjórn í heiminum um þessar mundir er að hafa hemil á stærð fiskiskipaflotans. Í því sambandi má nefna að nú er unnið á vegum Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna að gerð alþjóðlegra samþykkta um þetta efni og verður málið væntanlega til lykta leitt á sjávarútvegsráðherrafundi FAO í marsmánuði á næsta ári. Flest ef ekki öll fiskveiðiríki hafa reglur er takmarka flotastærð. Væri æskilegt að unnt væri í framhaldi af dómi Hæstaréttar að setja reglur sem í senn fullnægðu skilningi dómsins á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og stuðluðu að jafnvægi milli afrakstursgetu fiskstofnanna og afkastagetu fiskiskipaflotans.

Þetta er það meginmál sem felst í fiskveiðistjórninni og af því tilefni, herra forseti, fannst mér rétt að drepa hér aðeins á það sem kemur fram í athugasemdum við það lagafrv. sem er hér til umfjöllunar.

Herra forseti. En á einu hafa menn ekki léð máls sem er þó mál sem ekki verður hægt að láta hjá líða að geta hér um. Í athugasemd við 1. gr. frv. segir svo m.a., með leyfi forseta:

,,Með þessari grein er lagt til að afnumdar verði þær reglur sem frá 1983 hafa gilt varðandi takmarkanir á stærð fiskiskipaflotans. Í því felst sú breyting að úrelding skipa sem fyrir eru í flotanum verður ekki lengur forsenda fyrir því að ný skip fái leyfi. Þar með falla niður allar reglur um mat á því hvaða skip eru sambærileg. Lagt er til að öll fiskiskip sem hafa haffærisskírteini og skrásett eru á skipaskrá Siglingastofnunar Íslands eða sérstaka skrá stofnunarinnar fyrir báta undir 6 metrum geti fengið leyfi til veiða í atvinnuskyni enda fullnægi eigendur þeirra og útgerðaraðilar skilyrðum laga til að stunda veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.``

Herra forseti. Með þessum orðum er sem sagt opnað fyrir það að nú megi allar fleytur á sjó draga til þess að stunda veiðar við Ísland ef þær eru undir íslensku flaggi.

Í lögum frá 1993 voru gerðar breytingar á eldri lögum sem kváðu á um að ekki mátti flytja inn eldri skip en 12 ára. 1993 er þeim breytt í þá veru að þau megi ekki vera eldri en 15 ára. Árið 1995 er þessi regla afnumin. Ég hef verið andstæðingur þess að úreldingarreglur væru eins og þær voru hér áður og er ástæðan einkum og sér í lagi tvíþætt. Í fyrsta lagi vegna þess sem snýr að aðbúnaði áhafnar og öryggismálum skipshafnarinnar og í annan stað vegna þeirrar framþróunar og tækni sem á undanförnum árum hefur komið í ljós á nótaveiðiskipum annarra þjóða, en við Íslendingar erum mjög miklir eftirbátar þeirra í því tilliti. Miklar breytingar hafa jafnvel verið gerðar á skipum sem talin eru byggð 1963 af því að þá var lagður kjölur að þeim, en ekkert er eftir af þessum skipum nema kannski innan við 5% af byrðingnum sjálfum. Þegar skip þessi hafa verið fulllestuð má líka sjá hve fríborð þeirra hefur verið lítið á sama tíma og við sjáum erlend glæsileg skip með kælitanka bera jafnvel meira en tvö þúsund tonn. Það má segja að reisn sé yfir þeim skipum, a.m.k. eru þau ekki jafndjúpsigld og þessi gömlu nýju nótaveiðiskip sem við höfum verið að gera hér upp.

Herra forseti. Ég tel rétt að þessi ákvæði séu alvarlega tekin til gaumgæfilegrar athugunar og umhugsunarefni er hvort sjútvn. ætti ekki að taka þetta mál ákveðnum tökum til að koma í veg fyrir að ekki komist aftur á það ástand að mikil gróska verði í innflutningi notaðra og úreltra fiskiskipa.

Vandi sá sem við stöndum hér frammi fyrir og ég geri mér fulla grein fyrir, snýr fyrst og fremst að hinum minni bátum. Auðvitað verðum við að leita allra leiða til þess að leysa þann vanda. En þegar talað er í dómnum um þau ákvæði sem þar falla þykir mér rétt, með leyfi forseta, að rifja upp í örstuttu máli nokkur atriði sem leiddu til þessa kvótakerfis.

Það var síðla árs 1977 að takmarka þurfti sókn togara og var hverju skipi skylt að vera frá þorskveiðum í 30 daga þá um haustið. Á árunum 1978--1981 fjölgaði um 16 togara í skipastól landsmanna. Þrátt fyrir meiri afrakstursgetu þorskstofnsins var aukning togaraflotans svo mikil að takmarka þurfti veiðar þeirra miklu meira á árunum 1978--1983. Árið 1981 var t.d. hverjum togara óheimilt að stunda þorskveiðar í 150 daga samtals og yfir þann tíma mátti hlutfall þorsks í afla ekki fara yfir 15% nema í takmörkuðum fjölda veiðiferða þar sem hámarkshlutdeild þorsks í afla mátti vera 25%. Á þessu 150 daga tímabili gátu togararnir veitt verðminni tegundir, svo sem karfa og grálúðu, en þeir stofnar voru þá vannýttir.

Þegar litið er svo á dóminn segir svo, með leyfi forseta:

,,Þótt tímabundnar aðgerðir af þessu tagi til varnar hruni fiskstofna kunni að hafa verið réttlætanlegar, en um það er ekki dæmt í málinu, verður ekki séð, að rökbundin nauðsyn hnígi til þess að lögbinda um ókomna tíð þá mismunun, sem leiðir af reglu 5. gr. laga nr. 38/1990, um úthlutun veiðiheimilda.``

Það liggur ljóst fyrir hver var ástæða þess að til þessara aðgerða var gripið. Ég verð að segja, herra forseti, að mér finnst mjög sérkennilegt að þessi grein skuli vera opnuð með þeim hætti sem hér er gert. Ég er ekki lærður lögfræðingur, en hins vegar ef til fortíðar er litið þá finnst mér eins og að ekki hafi verið til framtíðar horft þegar þessi dómur var felldur.

Við stöndum frammi fyrir því að mörg byggðarlög eru illa sett hvað varðar atvinnu og þau tækifæri sem þau hafa vegna auðlindarinnar í hafinu. Til þeirra ráðstafana verður að grípa að ekki verður unað við óbreytt ástand, eins og nú horfir. Hitt er annað mál að auðvitað þarf að fara með gát ef breytingu á að gera hvað varðar litlu bátana sem hafa margir hverjir haldið uppi hinni dreifðu byggð. Ég óttast að alltaf verði ósætti meðal fiskimanna, sérstaklega þeirra manna sem stunda sjómennsku á trillum, á meðan kerfið er svo margskipt sem raun ber vitni. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að það gangi ekki mikið lengur annað en að þessir aðilar séu undir einu og sama kerfinu. Það er nauðsynlegt.

[19:00]

Það er t.d. athyglisvert að af 277 krókabátum í dagatakmörkunarkerfinu hafa 69 bátar verið keyptir úr aflamarks- eða aflahámarkskerfinu. Það segir allt um hvers konar ástand ríkir þarna og nauðsyn þess að samræma kerfið þannig að hér verði ekki slíkt ósætti sem raun ber vitni.

Herra forseti. Hv. 11. þm. Reykn. var hér að tala um að hann auglýsti eftir því hvernig kjósendur mundu nú bregðast við þar sem hann hefði ýmislegt í pokahorninu til þess að dreifa meðal kjósenda. Hann sagði að stefna hans og flokksmanna hans væri ljós enda ekki von á öðru. Hann vitnaði til 1. gr. laga um stjórn fiskveiða og sagði menn vera að fjarlægjast nokkuð vandann með því að nefna ekki að í þessum lögum stæði að stuðla ætti að traustri atvinnu og byggð í landinu.

Hann nefndi hins vegar ekki það sem hefur verið að gerast þegar kvóti er seldur úr einu byggðarlagi í annað og hve mikil sár það getur skilið eftir í atvinnulífinu. Það væri umhugsunarefni hvort hann sem slíkur, fyrrverandi útgerðarmaður, teldi eðlilegt að þessu kerfi yrði lokað og kvótinn afturkallaður úr höndum þeirra sem nú höndla með hann.

Hv. þm. Guðjón Guðmundsson kom inn á það í ræðu sinni fyrr í dag að hér hefðum við tveir þingmenn flutt frv. til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða. Það gekk út á að framsal væri ekki heimilt en hins vegar gætu menn skipt á kvóta sín á milli í þorskígildum og því sem væri umfram, sem þeir gætu ekki veitt, ættu þeir að skila inn aftur. Ég tel að það gæti verið góð regla og mundi jafnvel stuðla að frekari sátt í stjórn fiskveiða. Samt virðast margir hverjir telja það af hinu góða að útgerðarmenn selji hver öðrum kvótann. Það er mál sem oft og lengi hefur verið tekist á um og ætla ég ekki að gera það að frekara umræðuefni hér.

Eins og hæstv. sjútvrh. kom inn á hér áðan er mjög merkilegt að horfa til stjórnarandstæðinga þegar leiða er leitað og reyna að átta sig á stefnu þeirra, hvert þeir ætla að halda. Steingrímur J. Sigfússon skrifar athyglisverða grein í Morgunblaðið 4. okt. 1996, um auðlindaskattinn sem hv. þm. Ágúst Einarsson hefur lengi haldið á lofti og telur lausn allra mála í sjávarútvegi. Steingrímur J. Sigfússon segir, með leyfi forseta:

,,Í Ríkisútvarpinu þann 30. sept. sl. var vitnað í Ágúst Einarsson alþingismann og í þeirri frétt kom fram að eitt helsta forgangsmál hins nýja þingflokks krata yrði tillaga um veiðileyfagjald. Ágúst sagði þá m.a.: ,,Það er talið að þessi fiskveiðiarður geti numið 15 til 30 milljörðum.`` Síðan talaði Ágúst um að samkvæmt þeirra tillögum ætti að fara hægt í sakirnar, en síðar meir gæti orðið um umtalsvert gjald að ræða sem kæmi þá í staðinn fyrir aðra skattlagningu og þá t.d. tekjuskatt.``

Steingrímur heldur áfram og vitnar til fréttamannsins sem spurði hvað upphæðin gæti orðið há, og Ágúst svarar:

,,Ja, það er hægt að nefna sem dæmi að tekjuskattur einstaklinga er nú 17 milljarðar og ef fiskveiðiarðurinn gæti numið kannski 30 milljörðum eða 20 til 30 milljörðum þá sjáum við að það er hægt að láta veiðileyfagjaldið koma í staðinn fyrir tekjuskatt einstaklinga en samt skilja eftir verulegan arð innan sjávarútvegsins.``

Samt er hægt að skilja eftir verulegan arð. Já, þetta er athyglisvert. Þetta er líklega ein af þeim tillögum sem hv. þm. ætlar að fara með út í hinar dreifðu byggðir, leggja fyrir kjósendur sína og segja: Kjósið mig, kjósið okkur, við ætlum að leggja á skatt, svo ríflegan skatt á ykkur að hinar smæstu byggðir verði lagðar í eyði.

Með leyfi forseta, þá heldur Steingrímur J. Sigfússon áfram og segir:

,,Samkvæmt opinberum gögnum var heildarfjármunamyndun í fiskveiðum og vinnslu sjávarafurða um 5,3 milljarðar króna á árinu 1995 og gæti orðið 7--8 milljarðar á árinu 1996. Af því sést að jafnvel sú ,,væga`` gjaldtaka sem Ágúst talar um í áðurnefndri útvarpsfrétt og nefnir 2--3 milljarða myndi fara langleiðina með að þurrka upp alla fjármunamyndun í greininni.``

Slík gjaldtaka mundi samt nánast þurrka upp fjármunamyndun í greininni með þeim neikvæðu afleiðingum sem það svo hefði fyrir alla framþróun sjávarútvegsins og í framhaldinu á lífskjör þjóðarinnar.

Þannig er nú ástandið á þessum bæ. Þeir eru nú aldeilis ekki sammála í stjórnarandstöðunni þó þeir finni stjórnarflokkum og stjórnarþingmönnum allt til foráttu í sambandi við fiskveiðistjórnina.

Auðvitað eru ekki allir sáttir við þessa fiskveiðistjórnun, hvar í flokki sem þeir standa. En eins og fram hefur komið í dag þegar þeir sem andsnúnir eru kerfinu og vilja taka upp lögin um stjórn fiskveiða upp í heild sinni hafa verið spurðir: Hver er stefnan, hvert á að halda? Ja, þá hefur verður fátt um svör. Það er óskp eðlilegt.

Hins vegar stöndum við frammi fyrir því að þetta kerfi hefur þróast í mörg ár og erlendis hafa menn vitnað til þessa kerfis og talið það nokkuð gott. Á meðan menn hafa ekki aðrar hugmyndir um hvernig með eigi að fara þá er þessi leið sú besta og henni á auðvitað að halda.

Hitt er svo annað mál, herra forseti, hvort það hafi gerst í andstöðu við það sem segir í 1. gr. fiskveiðistjórnarlaganna:

,,Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.``

Hvernig það hefur þróast er svo önnur saga og út í þá sálma ætla ég ekki að fara frekar.