Almannatryggingar

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 10:36:56 (2702)

1998-12-19 10:36:56# 123. lþ. 46.13 fundur 365. mál: #A almannatryggingar# frv. 149/1998, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 123. lþ.

[10:36]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er viðurkennt að mannréttindi hafa verið brotin á öryrkjum og að stjórnarskrá og alþjóðasáttmálar hafa verið brotin með því að tekjur maka skerði örorkulífeyri. Fyrir liggur yfirlýsing frá prestastefnu um að þetta fyrirkomulag stefni hjónaböndum í hættu. Því velti ég fyrir mér hvort það sé boðlegt, og spyr ráðherrann að því, að óska eftir því að lögfesta mannréttindabrot. Ég tel að hægt væri að ná sátt um þetta mál með því að fella niður þessa skerðingu að fullu og þá er ég að tala um í áföngum þannig að í þetta frv. kæmi ákvæði um að skerðingin yrði afnumin að fullu t.d. eftir ár. Ég spyr ráðherrann hvort hún til sátta í þessu máli væri tilbúin að skoða þá leið að inn kæmi ákvæði til bráðabirgða um að skerðingin yrði afnumin að fullu, t.d. eftir eitt ár þannig að það lægi alveg ljóst fyrir að skerðingin yrði alveg felld niður.