Fjáraukalög 1998

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 11:04:09 (2715)

1998-12-19 11:04:09# 123. lþ. 46.14 fundur 173. mál: #A fjáraukalög 1998# frv. 162/1998, Frsm. minni hluta SJóh
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 123. lþ.

[11:04]

Frsm. minni hluta fjárln. (Sigríður Jóhannesdóttir):

Hæstv. forseti. Minni hluti fjárln. gagnrýnir harðlega þá fjármálastjórn sem lýsir sér í niðurstöðutölum þessa frumvarps. Fjárlög þessa árs voru afgreidd með 133 millj. kr. afgangi. Nú er ljóst að viðurkenndur halli nemur 5,5 milljörðum kr. Minni hlutinn telur hins vegar að þegar öll kurl eru komin til grafar sé raunverulegur halli 9--10 milljarðar kr. og er þar um að ræða vanáætlaðar lífeyrisskuldbindingar og launakostnað, ofáætlaðar tekjur af virðisaukaskatti, launakostnað og uppsafnaðan halla í heilbrigðiskerfinu.

Fjárlög fyrir 1998 voru fyrstu fjárlögin sem voru gerð upp á rekstrargrunni og eru fjáraukalögin sem við nú erum að afgreiða þau fyrstu sem gerð eru upp á þann hátt. Verður að ítreka það sem sagði í fyrra nefndaráliti að óvissuþættir eru miklir í niðurstöðutölum og er mjög á reiki hvað menn telja að t.d. lífeyrisskuldbindingar eigi að reiknast á en þar er vandinn mikill á þessu ári vegna kerfisbreytinga þar sem hluti af yfirvinnu fer inn í fastalaun.

Þegar fjárlagafrumvarpið 1998 var lagt fram þótti minni hlutanum sem tekjuáætlunin væri trúlega varlega áætluð. Er nú að koma betur og betur í ljós að minni hlutinn reyndist hafa rétt fyrir sér og höfðu tekjurnar verið vanáætlaðar um rúma 9 milljarða kr. Áætlunin nú gerir ráð fyrir að tekjur ársins hækki um 21% en gjöld um 34% frá fyrra ári. Ríkisendurskoðun bendir þó á í umsögn sinni til fjárln. að tekjur af virðisaukaskatti gætu verið ofáætlaðar um 1,5--2 milljarða kr. Einnig bendir stofnunin á að launahækkanir gætu í reynd hafa verið meiri en áætlun fjáraukalaga gerir ráð fyrir eða um 16% milli ára. Það hefur svo aftur áhrif á lífeyrisskuldbindingar sem munu verða verulega hærri ef þetta reynist rétt vera. Þetta eru því ekki lengur hallalaus fjárlög eins og mjög var glaðst yfir þegar frumvarpið var lagt fram á síðasta ári.

Minni hluti fjárln. ítrekar það sem kom fram í nefndaráliti við 2. umr. að neysluspár hafa á undanförnum árum reynst óraunhæfar og virðist ekki vera sterkur vilji til að læra af þeirri reynslu. Í nefndarálitinu gagnrýndi minni hlutinn harðlega að ekki væri komið nægilega til móts við fjárhagsvanda stóru sjúkrahúsanna í Reykjavík. Þrátt fyrir framlag upp á 459 millj. kr. í fjáraukatillögum ríkisstjórnarinnar leit út fyrir að þau mundu draga á eftir sér yfir áramótin rúmlega 1 milljarðs kr. uppsafnaðan halla frá fyrri árum og því ári sem nú er að líða. Minni hlutinn lagði til við 2. umr. að þessi tvö sjúkrahús fengju samtals 600 millj. kr. til að mæta þessum mikla vanda en dró þá tillögu til baka í trausti þess að meiri hlutinn væri að vinna að lausn sem munaði um. Nú mun minni hlutinn leggja fram þá tillögu aftur þar sem hún gengur lengra til lausnar á þeim vanda sem við er að glíma en tillaga meiri hlutans sem leggur til að 500 millj. kr. fari til þessara stofnana af fjáraukalögum. Að sjálfsögðu er það til bóta þó að vandinn sem eftir verður sé enn allt of stór en talið er að sjúkrahúsin geti ekki dregið með sér svo vel fari nema um mánaðarveltu. Ef tillaga meiri hlutans verður samþykkt er að mati Ríkisendurskoðunar enn óleystur vandi svo nemur meira en hálfum milljarði króna hjá þessum stofnunum.

Nú hefur það gerst á síðasta sólarhring að búið er að semja um að setja bæði þessi sjúkrahús undir eina yfirstjórn og er þess nú að vænta að dragi úr þeim óraunhæfu sparnaðarkröfum sem gerðar hafa verið til hátæknisjúkrahúsanna hér í Reykjavík á síðustu árum. Þó skal á það minnt að rekstrarvandi ýmissa stofnana í heilbrigðiskerfinu er ekki leystur með samþykkt þessara fjáraukalaga og má þar minna t.d. á Heyrnar- og talmeinastöð en þar er mikið vandamál vegna uppsafnaðs rekstrarhalla hjá lítilli stofnun og hlýtur að verða að taka á því máli með einhverjum hætti á nýju ári svo að stofnunin geti starfað eðlilega. Minni hlutinn mun nú við 3. umr. flytja breytingartillögu þess efnis að Heyrnar- og talmeinastöð verði bættur uppsafnaður rekstrarhalli.

Einnig er rétt að minna á að ekki er greiddur til aldraðra eða öryrkja sá munur sem Ríkisendurskoðun hefur sýnt fram á með útreikningum sínum að nemur 1.842 millj. kr. á síðustu fjórum árum milli þeirra sem búa við framfærslu sem ákvörðuð er með grunnlífeyri með tekjutryggingu og hinna sem hafa lægstu umsamin laun. Þótt nokkrar leiðréttingar verði gerðar hjá hluta þessa fólks á næsta ári liggur enn óbættur hjá garði sá hluti sem nú hefur verið reiknað út að það hafi misst miðað við að allrar sanngirni hafi verið gætt. Mun minni hlutinn við þessa umræðu flytja brtt. sem gerir ráð fyrir að þessum hópum verði að nokkru bættur sá skaði sem þeir hafa orðið fyrir á þessu ári miðað við meðaltalshækkun launa.

Að lokum vill svo minni hlutinn enn minna á að ekki er ætlast til samkvæmt lögum að fjárveitingavaldið sé annars staðar en hjá Alþingi þó að framkvæmdarvaldið hafi heimild til að ráðstafa fé ef sérstaklega stendur á, svo sem ef um náttúruhamfarir eða önnur ófyrirsjáanleg atvik er að ræða. Því miður virðist ríkisstjórnin umgangast þessar heimildir nokkuð frjálslega. Það sýna dæmin í þessu frv. og í þeim brtt. frá ríkisstjórn og ráðuneytum sem hér eru til afgreiðslu.

Hæstv. forseti. Það eru því miður hættumerki í góðærinu. Það eru blikur á lofti. Það er gríðarleg eyðsla umfram það sem var. Útgjöld á þessu fjárlagafrv. hafa aukist um 34% en tekjur aðeins um 21%. Þar af eru 2/3 þessarar aukningar vegna viðskiptahalla. Þetta eru mjög alvarleg merki í okkar efnahagslífi. Ríkissjóður er rekinn með halla. Það er nú staðreynd. Á rekstrargrunni, því bókhaldi sem ríkisstjórnin hefur lýst yfir að hún vilji sýna, er ríkissjóður rekinn með miklum halla. Þar að auki hefur kíkirinn verið settur fyrir blinda augað varðandi ýmis vandamál sjúkrahúsa bæði varðandi viðhald og uppsafnaðan rekstrarhalla. Svo er einnig varðandi skóla þar sem gerðir hafa verið kjarasamningar sem ríkið vill ekki viðurkenna nema að hluta. Það er altalað meðal skólamanna að með því fjármagninu í þessum fjáraukalögum sé aðeins bættur að hluta raunverulegur launakostnaður vegna kjarasamninga sem ríkið undirritaði við framhaldsskólakennara. Ég veit ekki hvernig á að taka á því máli í framhaldinu. Ég átta mig ekki á því. Þetta er fyrst og fremst vegna breytinga á vinnutilhögun í skólunum sem mun leiða til mikils launakostnaðar. Þarna er ég auðvitað að tala um framhaldsskólana því að grunnskólarnir eru hjá sveitarfélögunum.

Einkaneysla í landinu er helmingi meiri en spáð hafði verið. Hún hefur farið upp í 12% á þessu ári samkvæmt nýjustu tölum. Þó var aldrei spáð að það yrði meira en 5% aukning. Það er sem sagt meira en helmingsaukning.

Skuldir heimilanna hef ég áður kallað úr ræðustól þríhöfða þurs. Alltaf þegar ráðist er til atlögu við hann og höggvið af honum eitt höfuðið vaxa a.m.k. tvö í viðbót. Skuldir heimilanna hafa vaxið gríðarlega á þessu ári eða um 43 milljarða kr. Þær raunir sem margar fjölskyldur ungs fólks eru að ganga í gegnum þessa dagana eru afar miklar. Nú á síðustu tveimur vikum hafa tvær fjölskyldur haft samband við mig, ungt fólk sem vinnur myrkranna á milli til að reyna að ná endum saman en er að missa húsnæði sitt sem þó var ekkert sérstaklega mikið í lagt. Skuldirnar vaxa svo gríðarlega. Svo virðist sem í áætlunum, sem meira að segja bankar skrifuðu undir þegar þetta fólk réðst í húsnæðiskaup, hafi ekki vera gert ráð fyrir að þetta fólk þyrfti neinn framfærslukostnað. Þó að bæði þessi hjón hafi lagt nótt við dag, hafi reynt að draga úr greiðslum fyrir barnagæslu og draga úr framfærslukostnaði eins og hægt er, þá er staðan samt slík að þau verða að láta frá sér íbúðirnar. Í öðru tilfellinu verða þau að biðja sveitarfélagið um að innleysa íbúðina en það hefur þá skyldu fram til áramóta. Þegar upp er staðið hefur 1,5 millj. bæst við skuldir þeirra, þ.e. þau fá íbúðina innleysta en sitja uppi með 1,5 millj. þrátt fyrir það og þrátt fyrir að þau hafi árum saman borgað hverja krónu sem þau vinna sér inn. Einhvern veginn er aldrei tekið af nægilega mikilli alvöru á þessum málum á Alþingi. Þetta er eitthvað það ömurlegasta sem maður horfir upp á í þjóðfélaginu. Einhvern veginn sýnir Alþingi þessum málum ekki skilning. Við erum flest á þeim aldri að við fengum okkar húsnæði með öðrum kjörum en ungt fólk þarf að sæta í dag. Við höfum tilhneigingu til að sýna þessum málum ekki skilning og því fer sem fer.

[11:15]

Skuldir sveitarfélaganna eru annar þríhöfða þurs --- það má segja að alls konar þursar séu að vaxa upp í kringum okkur --- og þar hef ég mestar áhyggjur af frekar litlum sveitarfélögum úti um land sem eru bókstaflega að drukkna í skuldum en þurfa samt að sinna lögboðnum skyldum sem hafa meira að segja bæst á þau á síðustu árum. Auðvitað má segja að það hafi komið fjármagn með en kröfurnar til þessara skóla sem eru reknir úti í sveitarfélögunum og var samið um að fjármagn fyrir rekstrinum á sínum tíma, hafa aukist svo gríðarlega að þær eru ekkert í samræmi við það fé sem lagt var til með skólunum í upphafi. Ég verð að segja að mér finnst þessum málum ekki sýndur sá skilningur á Alþingi sem þyrfti að vera. Þó að þar ætti stórt sveitarfélag í hlut fékk það vægast sagt kaldar kveðjur frá sumum ráðamönnum þjóðarinnar þegar það hækkaði útsvar sitt, innan lögboðinna marka þó, hér á dögunum. Önnur sveitarfélög í landinu hafa verið að gera það sama en það þyrfti að koma miklu mun meiri hækkun, miklu mun meira fjármagn til sveitarfélaganna svo að þau geti sinnt þeim skyldum sem ætlast er til. Hjá mörgum sveitarfélögum sem ég þekki til, þegar búið er að taka fjármagn til afborgana á skuldum og til launagreiðslna fyrir sveitarfélagið, er nánast ekkert eftir. Þetta getur ekki gengið svona til langframa. Það hlýtur með einhverjum hætti að verða að sjá fyrir þessum málum með breytingu á ráðstöfun tekjustofna.

Á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga á dögunum virðist manni hins vegar að Sökudólgurinn með stórum staf væri fundinn, þ.e. kennarar í landinu. Mikið var talað um óraunhæfar og ósanngjarnar kröfur kennara. En ég held að okkur sem höfum staðið í forsvari fyrir kennarasamtökin á sl. áratug hafi verið ljóst þegar þessi samningur var gerður við sveitarfélögin að þarna var setið á púðurtunnu. Launum kennara hefur verið haldið fyrir neðan allt velsæmi allt of lengi og það var vitað mál að þetta spryngi. Þegar það gerist svo til viðbótar að á sama tíma er verið að einsetja skóla þannig að möguleikar á yfirvinnu stórminnka hjá þessari stétt hlaut það náttúrlega að flýta fyrir að þetta færi allt úr böndunum. Það sýnist mér vera að gerast þessa dagana og ég á satt að segja von á meiru í þeim herbúðum.

Erlendar skuldir hafa aukist á kjörtímabilinu og talið er að þær munu fara úr 45%, sem þær eru þó nú, í 49% um aldamót. Við erum nú þegar að greiða 20 milljarða á ári í vexti til útlanda og ég verð að segja að þetta eru peningar sem ég sé óskaplega eftir. Ég sé verkefni í öllum hornum sem ég mundi vilja fjármagna með 20 milljörðum frekar en vera borga þá í vexti til útlanda þó að auðvitað verði maður að horfast í augu við það að ef skuldirnar eru fyrir hendi verður að greiða af þeim. En það er mjög gott að núna sé verið að reyna af hálfu ríkisvaldsins að greiða niður erlendar skuldir. Ég styð það og auðvitað eigum við að einbeita okkur að því í góðærinu.

Viðskiptahallinn er alvarlegt hættumerki á Íslandi. Fjmrh. minnti á það í andsvörum fyrir nokkrum dögum að viðskiptahallinn hefði einu sinni verið jafnmikill eða meiri og það hefði verið í fjármálaráðherratíð hv. þm. Ragnars Arnalds. Það er eðlilegt vegna þess að bæði núna og eins þegar hv. þm. Ragnar Arnalds var fjmrh. var staðið í miklum framkvæmdum í landinu og þessi viðskiptahalli orsakast auðvitað að hluta til af miklum innflutningi til þessara framkvæmda en það er þó því miður ekki öll skýringin og þetta er alvarlegt hættumerki í efnahagslífi okkar. Gengið hefur haldist í jafnvægi og það eru auðvitað mikil undur og stórmerki en það er fyrst og fremst vegna óvanalega hagstæðs verðlags á þeim sjávarafurðum sem við höfum verið að selja erlendis en það er talið að verðlag á sjávarafurðum hafi á skömmum tíma hækkað um 20% og einnig vegna þess að við búum við langhagstæðasta olíuverð í 12 ár og fer enn lækkandi. Að þetta tvennt fari saman eru náttúrlega þvílík ytri skilyrði að maður man ekki eftir öðru eins.

Ég verð að segja það, herra forseti, að að mínum dómi eru þeir uppgangstímar sem við nú búum við ekki rétti tíminn til skattalækkana og síst á fyrirtæki, síst á nú að lækka tekjuskatt fyrirtækja. Því miður verð ég að segja að eitt af því sem mér hugnast hvað verst í efnahagslífi okkar eru þær glufur sem fyrirtæki eins og sumir bankarnir sem eru að nýta til hins ýtrasta þá möguleika sem uppsafnað tap gefur til að þurfa ekki að borga tekjuskatt, stórgróðafyrirtæki, einhver stærstu fyrirtæki í landinu. Mörg þeirra borga ekki neinn tekjuskatt vegna þess að þau eiga þvílíkar fyrningar af uppsöfnuðu tapi. Mér finnst þetta ekki gott efnahagstákn.

Hér vantar peninga til ýmissa þjóðþrifamála eins og við höfum margrætt. Það vantar meiri peninga til lífeyrisgreiðslna, það vantar meiri peninga til að við getum rekið boðlega háskóla, það vantar meiri peninga til að við getum staðið með reisn að Kennaraháskólanum og þeirri sameiningu sem þar á sér stað þessa dagana. Það stórvantar meiri peninga til að Tækniháskólinn, eða Tækniskólinn eins og hann heitir reyndar í dag, geti staðið undir nafni. Það vantar meiri peninga til málefna fatlaðra. Það vantar meiri peninga til sjúkrahúsa, heilbrigðisstofnana og á sama tíma er sérstaklega verið að lækka tekjuskatt á fyrirtæki. Þetta er efnahagsráðstöfun sem ég get ekki skrifað undir. Við eigum nefnilega að sækja skattfé þangað sem fé er fyrir til góðra málefna.

Hér liggja fyrir brtt. sem kallað er frá meiri hluta fjárln. Ég vildi gjarnan standa að þeim ýmsum. Hv. formaður fjárln. Jón Kristjánsson fór mjög vel yfir þessar brtt. áðan. Ég ætla aðeins að minnast á nokkrar. Lagt er til að Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins verði veitt 7 millj. kr. hækkun vegna aukinna umsvifa. Ég styð þessa brtt. mjög eindregið og þó meira hefði verið. Þarna hefur verið ákveðinn flöskuháls í kerfinu þannig að fólk hefur þurft að bíða mjög lengi með börnin sín eftir að komast að í greiningu. Það hefur verið skýrt með því að Greiningarstöðin hafi ekki haft nægilegt fjármagn. Þeir hafa þó reynt að bæta aðeins í hjá sér og það hefur þá leitt til rekstrarhalla. Þarna er verið að koma til móts við það og ég styð það mjög eindregið.

Lagt er til að Ríkisspítalar og Sjúkrahús Reykjavíkur fái 500 millj. kr. fjárframlag. Að vísu er hallinn, eftir því sem Ríkisendurskoðun hefur staðfest, á annan milljarð nú um áramót þannig að þetta gerir ekki nema dekka um það bil helminginn af því en þetta er þó viðleitni og viðbót og ef ekki verður samþykkt sú brtt. okkar í minni hlutanum um að hafa þetta 600 millj. kr. munum við að sjálfsögðu styðja þessa tillögu um 500 millj.

Fjárln. leggur til að framlag til kaupa á búnaði fyrir heilsugæslustöðina í Kópavogi verði hækkað. Það hefur valdið okkur miklum áhyggjum, a.m.k. okkur nokkrum þingmönnum Reykjaness, hvernig staðið var að þessum málum, að ekki virtist vera gert ráð fyrir að keyptur væri búnaður inn í heilsugæslustöðina sem stóð þó tilbúin og mikil þörf var fyrir að taka í notkun. En nú er komið til móts við þetta og þeir fá, að ég tel, það sem þeir þurfa fyrir búnaði í þessa heilsugæslustöð og ég styð það mjög eindregið.

Ég vek athygli á 34,3 millj. kr. sem lagt er til að fari til heilbrigðisstofnana vegna launakostnaðar heilsugæslulækna. Þetta eru afleiðingar af samningum við heilsugæslulækna sem mun þó ekki hafa verið of í lagt ef marka má af aðsókn í þau læknisumdæmi sem eru laus til umsóknar en þau munu vera um það bil 20. Það gengur illa að fá heilsugæslulækna til að sækja um þessar stöður. Fer sögum af því að reynt hafi verið að færa þetta í tal við íslenska lækna sem starfa erlendis en illa hefur gengið að fá þá til að skila sér heim þó að þessi umsömdu laun væru í boði. En auðvitað styð ég að þessi fjárveiting verði veitt.

Svo er 251,9 millj. kr. sem er framlag til að mæta nýlegum aðlögunarsamningum. Ég vek athygli á því að hugsanlega eru þarna ekki öll kurl komin til grafar. Að sjálfsögðu styð ég þetta framlag.

Auðvitað er margt annað sem er ýmislegt gott um að segja en mig langar aðeins til að minnast á rannsóknir á botndýrum á Íslandsmiðum. Ég fagna því mjög að fjárln. hafi ákveðið að veita aukalega 4 millj. kr. til að taka á uppsöfnuðum halla. Þetta var orðið vandræðalegt mál og bæjaryfirvöld í Sandgerði höfðu lagt fram stórfé til að starfsemin gæti haldið áfram og hefði verið leitt ef ekki hefði verið hægt að koma til móts við það því að þetta er mjög merkilegt verkefni að allra dómi en hefur tekið lengri tíma en fyrst var áætlað þannig að erfitt hefur verið með fjárveitingar.

Að lokum langaði mig að lýsa stuðningi mínum við brtt. frá Jóni Kristjánssyni og Sturlu Böðvarssyni sem kom fram í dag. Ég hef nokkrum sinnum haft orð á því í hv. fjárln. að það þyrfti að taka betur á málefnum Reykjalundar. Reykjalundur hafði samkvæmt frv. 21,5 millj. í hækkun en í þessari brtt. er lagt til að þarna komi aukalega inn 15 millj. Ég tel vera mikla þörf fyrir þessa fjárveitingu og styð hana eindregið.

Að lokum þakka ég fyrir sérstaklega gott samstarf í hv. fjárln. Stundum hafa verið afskaplega langir og erfiðir fundir hjá okkur sem ég hef harðlega gagnrýnt, stundum tvöfaldir hjá meiri hlutanum sem bæði sátu einir á fundum og svo aftur með minni hlutanum. Ég tel að það séu vinnubrögð sem þyrfti að taka til endurskoðunar en samstarfið hefur verið ánægjulegt og við höfum ævinlega fengið að komast að með athugasemdir okkar.