Fjárlög 1999

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 14:32:52 (2733)

1998-12-19 14:32:52# 123. lþ. 46.15 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, Frsm. minni hluta GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 123. lþ.

[14:32]

Frsm. minni hluta fjárln. (Gísli S. Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég virði svar hv. formanns fjárln. en minni hlutinn hefur hvað eftir annað bent á skekkjur í áætlanagerð. Minni hlutinn benti á um 1--2 milljarða kr. skekkju að ræða í tekjuáætlun, en allt í einu urðu til tekjur upp á 3,7 milljarða, og það þrátt fyrir að lýst hefði verið yfir að ekki yrði gerð breyting.

Þess vegna, herra forseti, kvíði ég þeim degi að öðruvísi verður ástatt. Þá mun kannski eiga við að fara með annað erindi úr þeim kvæðabálki sem ég vitnaði til, með leyfi forseta. Þá vil ég ekki standa hér og þurfa að segja:

  • Í dag er ég snauður og á ekki eyri,
  • ölmusumaður á beiningaferð.
  • Einasta vonin að himnarnir heyri ---
  • þó hanga' um mig tötrarnir, eins og þú sérð.
  • Gef mér aflóa fat
  • eða fleygðu í mig mat!
  • Því forðastu' að tylla þér þar sem ég sat.
  • Þetta gæti átt við þá sem hafa smogið fram hjá dyrum góðærisins. Það er ástæða til að hafa þetta merka ljóð í huga. Það var ótrúlegt að þingmenn, sem ættu að þekkja Sigurð Sigurðsson frá Arnarholti, skyldu ekki bregðast við öðruvísi en með miklu og breiðu brosi þegar vitnað var í þetta merka kvæði sem menn ættu að hafa í huga, sérstaklega þegar fjallað er um ástandið í þjóðfélaginu og fjárlög íslenska ríkisins.