Almannatryggingar

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 16:58:33 (2768)

1998-12-19 16:58:33# 123. lþ. 46.13 fundur 365. mál: #A almannatryggingar# frv. 149/1998, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 123. lþ.

[16:58]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Hér eru enn viðhöfð vinnubrögð sem ættu alls ekki að líðast á löggjafarsamkundunni. Að koma með svo stórt, umdeilt og flókið mál til umræðu skömmu fyrir jól er ekki boðlegt. Vissulega snýst þetta mál um fólk en það snýst líka um mannréttindi. Það hefur oft verið til umræðu og ég minni á að í þriðja sinn sem mælt var fyrir lagafrv. um lagagreinina sem hér er til umræðu úr almannatryggingalögunum var bent á hvaða misrétti er hér á ferðinni. Það var margoft rakið ítarlega í þinginu.

Ég er búin að skoða þetta mál með mörgum lögfræðingum og virtir lögfræðingar hafa bent á að þessi framkvæmd laganna, þó að hún byggi aðeins á reglugerð, brjóti í bága við a.m.k. tvær greinar í stjórnarskránni. Það hefur verið rakið í ræðum á undan mér. Þetta er líka brot á mannréttindasáttmálum sem við erum aðilar að. Ég verð að segja að það að ætla að keyra þetta mál í gegn og lögfesta þetta brot á mannréttindum gagnvart lífeyrisþegum er yfirgangsemi hjá ríkisstjórninni. Ég veit að hæstv. heilbrrh. vill vel í þessu máli. Hún lýsti því yfir á ársfundi Tryggingastofnunar í haust að hún vildi afnema þetta óréttlæti. Ég er sannfærð um að hæstv. ráðherra vill afnema þetta en ég spyr: Hverjir eru það í ríkisstjórninni sem stöðva þau góðu áform hennar? Hvernig stendur á því að ekki er komið fram með þá áfanga sem á að taka til að afnema þetta?

[17:00]

Hæstv. ráðherra hefur nefnt að þetta sé fyrsti áfangi og í andsvari fyrr í dag talar hæstv. ráðherra um að hún vilji ekki binda hendur næstu ríkisstjórnar. Aðrir í ríkisstjórninni víla það ekki fyrir sér. Ég veit ekki betur en ég hafi heyrt það í fréttunum í dag að verið væri að setja 130 millj. í kvikmyndasjóð til næstu fjögurra ára. Þar víluðu menn ekki fyrir sér að binda hendur ríkisstjórna í þeim efnum. Hvernig stendur á því að ekki er hægt að festa í lög hvenær á að afnema þessi mannréttindabrot?

Þessar skerðingar og hvernig að þeim er staðið vinnur gegn fjölskyldunni. Margoft hefur verið bent á það og það hefur orðið orsök margra skilnaða, og ég vil spyrja hæstv. ráðherra, sem ég vona að heyri til mín þó að hún sé ekki í sal: Hvernig er með þær reglur sem meiri hlutinn hyggst setja fyrir jól? Gilda þær ekki lengur um sambúðarfólk? Eru þetta reglur sem gilda einungis um hjón? Gilda þær ekki um sambúðarfólk? Ekkert er talað um sambúðarfólk í þessari lagasetningu en eins og menn vita sem þekkja almannatryggingarnar er þessum reglum beitt á sambúðarfólk. Þó svo sambúðarfólk hafi ekki gagnkvæma framfærsluskyldu er þessi regla engu að síður notuð þar sem tekjur sambúðaraðila eru látnar skerða greiðslur lífeyrisþega úr almannatryggingunum. Ef þetta gildir ekki um sambúðarfólk má náttúrlega búast við því að allmargir sem eru í þessari stöðu skilji og taki upp óvígða sambúð og þá verður skilnaðarhrina. Þá býst ég við að eitthvað heyrist frá prestastefnu sem hefur margoft rætt þessi mál og ályktað eins og kemur fram í fylgiskjölum með því frv. sem er enn til meðferðar í þinginu og er ekki enn komið til nefndar.

Ég verð að segja það, herra forseti, að ég get ekki sætt mig við þessa meðferð á málinu. Ég er alveg sannfærð um það eftir að hafa skoðað þetta mál í þaula að hægt hefði verið að leysa það fyrir jól með reglugerð. Við hefðum getað bætt kjör lífeyrisþega eins og hæstv. ráðherra vill með því að breyta reglugerð og allir sem hefðu grætt á því hefðu fengið hækkun sína um áramótin. Ég get ekki sætt mig við að við séum að lögfesta brot á stjórnarskránni. Erum við ekki búin að fá nóg af því að fá hæstaréttardóma um að lagasetning brjóti ákvæði í stjórnarskránni og bent hefur verið á að það eru a.m.k. tvö atriði í stjórnarskránni sem þessi lagasetning stríðir gegn. Vissulega er þörf á að bæta kjör þessa hóps. Við þekkjum það sem höfum verið að vinna með þeim hvernig ástandið er hjá mörgum fjölskyldum lífeyrisþega. Ástandið er ömurlegt og sérstaklega á þessum árstíma þegar jólin eru fram undan. Vel getur verið að hv. þm. Árni Johnsen þekki það ekki en ég þekki að víða er mjög erfitt á heimilum öryrkja og aldraðra og ég hef fengið allnokkrar hringingar þar sem fólk hefur verulegar áhyggjur af því að geta ekki haldið jól. Ég vil því ekki leggjast gegn því að ívilnandi þáttur þessa frv. komist til framkvæmda um áramótin en ég er sannfærð um að hægt hefði verið að gera það án þess að fram færi lagasetning í þá veru sem liggur fyrir okkur. Við hefðum getað gert þetta með reglugerð og með því að styrkja reglugerðarheimildina í lögunum.

Herra forseti. Samkomulag hafði verið um málsmeðferðina í þinginu og við höfðum lofað því að hafa umræðuna stutta. Ég hefði getað talað fram á nótt um þetta mál. Það er svo stórt réttlætismál að afnema þessa tekjutengingu við tekjur maka hjá lífeyrisþegum. Það er mál sem á að afnema í öllu, ekki með því að lögfesta hana. Ekki að lögfesta svona mannréttindabrot heldur afnema og ég skora á hæstv. ráðherra að koma með það í umræðuna þegar málið kemur aftur til umræðu eftir áramót að hún leggi það fram hvernig hún hyggist afnema þetta að fullu því að ég veit að til þess stendur hugur ráðherrans.