Almannatryggingar

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 17:35:40 (2773)

1998-12-19 17:35:40# 123. lþ. 46.13 fundur 365. mál: #A almannatryggingar# frv. 149/1998, ÞHS
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 123. lþ.

[17:35]

Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir:

Hæstv. forseti. Mig langar til að koma hér aðeins inn í umræðuna um breytingu á lögum um almannatryggingar, sem lagðar eru fram á lokastundu til að bæta stöðu lífeyrisþega.

Fyrst varðandi bæturnar. Þær hafa ekki fylgt launaþróun í landinu. Þegar lægstu laun hækkuðu mest í kjarasamningum var tengingu bóta við lágmarkslaun kippt úr sambandi og miðað var við meðalhækkanir í staðinn. Á sama tíma hafa ýmis réttindi verið skert verulega, t.d. bílakaupastyrkir frá Tryggingastofnun ríkisins. Þetta bitnar mest á mikið fötluðu fólki og varðar reisn einstaklingsins og möguleika til sjálfsbjargar. Þetta gerðist fyrir þrem árum og hefur ekki verið komið í sama horf og var þrátt fyrir sólskin um allar jarðir.

Ef við lítum yfir ferli örorkubóta síðustu fimm ár er augljóst að í tíð þessarar ríkisstjórnar, sem stjórnar í einu mesta góðæri sem gengið hefur yfir landið, hefur bilið milli kaupmáttar verkafólks og lífeyrisþega breikkað. Bilið er frá 45 þús. hjá öryrkjanum upp í 70 þús. kr., sem nú eru lágmarkslaun. Ætla má að Stöð 2 og DV hafi haft þetta nýmæli í huga þegar ríkisstjórninni voru veitt frumkvöðlaverðlaun í síðustu viku. Fyrri ríkisstjórnum hefur ekki dottið þetta nýmæli í hug.

Öryrkjar og aldraðir hafa látið mjög í sér heyra vegna ósanngirni og skorts á réttlæti sem mótað hafa aðgerðir til dagsins í dag. Það er vissulega lofsvert að þessir fjármunir skuli loks koma en staðreyndin er hins vegar sú að með því að draga úr útgjöldum til þessa málaflokks það sem af er kjörtímabilinu er nú svigrúm rétt fyrir kosningar til að slá sér á brjóst og hækka grunnlífeyri um eina krónu og 75 aura á dag umfram forsendur fjárlaga samkvæmt útreikningum ASÍ. Þá er líka gott að minnka tekjutengingu við maka þó ekki séu þetta stórar upphæðir miðað við það sem hefur sparast við að aftengja bæturnar við lágmarkslaun, samanber skýrslu Ríkisendurskoðunar.

En er ekki verið að lögfesta mannréttindabrot eins og hér er gert með þessu frv.? Það er umhugsunarvert hvort sami leikurinn verði leikinn á næsta kjörtímabili á kostnað aldraðra og öryrkja ef sömu aðilar ná að sitja í stjórn. Þetta eru þeir þjóðfélagshópar sem eiga sér fæstar varnir aðrar en kosningarréttinn. Með því að setja markið nógu lágt í málaflokknum virka allar breytingar þeim mun stórkostlegri og dýrlegri. Þetta lítur út nú rétt fyrir kosningar eins og einhver góðgerðarstarfsemi.

Í gömlu ævintýri sagði drottningin eitt sinn um þegna sína: ,,Mikið á fólkið gott að geta klórað sér í gegnum götin.`` Það er staðreynd að í velferðarsamfélagi okkar, sem erum meðal tekjuhæstu þjóða heimsins, er til fátækt og hún er hvað mest hjá öryrkjum og eldri einstæðum konum. Líf þeirrar er enginn dans á rósum.