Fjárlög 1999

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 19:14:14 (2784)

1998-12-19 19:14:14# 123. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 123. lþ.

[19:14]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Minni hluti fjárln., sem hefur skilað framhaldsnál. við lokaafgreiðslu fjárlagafrv., hefur farið ítarlega yfir þær breytingar sem orðið hafa milli 2. og 3. umr. þannig að ég þarf út af fyrir sig ekki að hafa mörg orð um það en vil þó minnast á örfá atriði.

Við 2. umr. fjárlaga hækkuðu útgjöldin verulega eða um 1.750 milljónir eða nálægt því þannig að lítið varð eftir af afgangnum sem var í fjárlagafrv. þegar það var lagt fyrir þingið. Einkenni frv. nú þegar það kemur til lokaafgreiðslu er að útgjöldin hækka enn þannig að í heild nemur útgjaldaaukinn frá því frv. var lagt fram, um 3,5 milljörðum kr. En það sem ég staldra aðeins við, herra forseti, er tekjuhlið þessara fjárlaga. Það verður að segja að það veldur verulegum áhyggjum hve það er oft, kannski ekki bara hjá þessari ríkisstjórn, sem miklar skekkjur eru í tekjuhlið fjárlaga hvort sem það er vísvitandi eða ekki. Stundum hefur maður grun um að það sé vísvitandi sem ekki eru settar fram allar þær tekjur sem menn geta séð fyrir sér á næsta ári. Það höfum við fyrir okkur varðandi yfirstandandi ár að þegar upp var staðið urðu tekjurnar miklu meiri en gert var ráð fyrir í fjárlagafrv. þessa árs. Ef ég man töluna rétta var um að ræða 9 milljarða kr., hvorki meira né minna sem var umfram það sem Alþingi afgreiddi fjárlög með.

[19:15]

Þrátt fyrir útgjaldaauka við 2. og 3. umr. hjá meiri hlutanum, er engu að síður sýnd niðurstaða með tekjuafgangi upp á 2,5 til 2,8 milljarða kr. Ég velti fyrir mér hvernig hann er fenginn. Hér er 1.300 millj. kr. bætt við vegna sölu eigna. Það er auðvitað athyglisvert að ríkissjóður er réttur af að stórum hluta með sölu eigna. Eins staldra ég við skattabreytingar upp á 1.828 millj. kr. Tekjurnar af virðisaukaskatti eru hjá meiri hlutanum áætlaðar 400 millj. kr. meiri en gert var ráð fyrir í fjárlagafrv. Minni hlutinn segir í nál. sínu að hann telji að tekjur af virðisaukaskatti séu ofáætlaðar um allt að 2 milljarða. Þarna ber nú heldur mikið á milli finnst mér. (Gripið fram í: Fjórðungur.)

Ég les hér upp úr framhaldsnál. frá minni hluta fjárln.:

,,Þá telur minni hlutinn að með tilliti til þróunar síðustu mánaða séu tekjur af virðisaukaskatti ofáætlaðar um allt að 2 milljarða kr. á þessu ári.``

Ég hef ekki kannað þetta nákvæmlega, herra forseti, út af framíkalli hæstv. ráðherra, en les einfaldlega upp sem stendur hér. Ég hef ekki kynnt mér það að öðru leyti. Ég vek athygli á, herra forseti, að minni hlutinn segir að tekjurnar séu ofáætlaðar um 2 milljarða meðan meiri hlutinn gefur sér í tekjur 400 millj. af virðisaukaskatti umfram það sem er í fjárlögum. Ég vek athygli á því ósamræmi sem þarna er, án þess að ég hafi haft tækifæri til að fara ofan í þessa hluti. Ef hæstv. ráðherra getur skýrt það við þessa umræðu þá er það náttúrlega mjög gott.

Ég hefði haldið að það væri varlegt að áætla meira í virðisaukaskattinum en gert er nema því fylgi þá mjög góður rökstuðningur. Ég vitna þar t.d. í svar sem ég fékk frá fjmrh. nýlega um virðisaukaskatt. Þar kemur fram að tekjur af virðisaukaskatti vegna innanlandsveltunnar hafa dregist verulega saman. Á fjögurra ára tímabili, frá 1993 til 1996, var samdráttur á innanlandsveltunni um 4 milljarða kr.

Það er sérmál og tengist náttúrlega ekki fjárlagaafgreiðslunni, að skoða framkvæmdina á skattinum og fá skýringu á því af hverju virðisaukaskattur af innanlandsveltunni er svona sveiflukenndur og hefur dregist verulega saman. Af svari hæstv. ráðherra við fsp. minni skilst mér að það sé mál sem ráðuneyti hans sé sérstaklega að skoða. Þessi mismunur á afstöðu meiri hlutans og minni hlutans til þess hvað virðisaukaskattur skilar vakti athygli mína. Það verður auðvitað að vera minni hlutans að skýra hvernig hann hefur fengið út þessa milljarða.

Þessir viðbótaskattar eru 1.828 millj. Það er athyglisvert sé til þess litið að skattar á fyrirtæki hafa ekki skilað, tekjuskatturinn sérstaklega, miklu í ríkissjóð á þessu kjörtímabili. Mig minnir að það hafi komið fram, hvort það var við þessa umræðu eða 2. umr., að þegar litið er á allt kjörtímabilið greiði fyrirtækin um 16 milljarða í skatt af 100 milljarða kr. tekjum en launafólk 84 milljarða. Ég spyr hæstv. ráðherra, af því hann hefur kvatt sér hér hljóðs í andsvörum, hvort þessi hlutföll sem ég nefndi séu eitthvað sem hann getur kannast við. Ef ég skil málin rétt þá eru hækkanir á fyrirtæki milli ára í þessu fjárlagafrv. minni hækkun en á einstaklinga.

Ég ætla út af fyrir sig ekki að ræða meira um heildarmyndina sem við höfum af fjárlögunum. Það hlýtur náttúrlega að vera áhyggjuefni hæstv. fjmrh. og ríkisstjórnarinnar hvað skuldir heimilanna hafa vaxið mikið í þessu góðæri og í tíð ríkisstjórnarinnar. Við höfum fyrir okkur að skuldir heimilanna sem eru nú á fimmta hundrað milljarð kr., einhvers staðar vel yfir 400 milljarða, hafa aukist um 73 milljarða á 24 mánuðum. Það má vel vera að á því séu haldbærar skýringar. Menn segja að þenslan sé mikil í þjóðfélaginu o.s.frv. Þetta er áhyggjuefni og hv. formaður fjárln. og flokkur hans höfðu í tíð síðustu ríkisstjórnar miklar áhyggjur af skuldum heimilanna. Ég hygg hins vegar að þær hafi vaxið hraðar ef eitthvað er í tíð þessarar ríkisstjórnar en hinnar fyrri. Þetta vildi ég nú segja, herra forseti, um fjárlög við þessa lokaafgreiðslu málsins.

Ég vildi líka fá að mæla fyrir tveimur brtt. sem ég flyt. Fyrst mæli ég fyrir brtt. á þskj. 598 um að auka fjármagn til skattrannsóknarstjóraembættisins um 5 millj. kr. Ekki er þetta há fjárhæð sem ég legg til. Hún er lág og lægri en hún þyrfti að vera. Ég hef þá bjargföstu trú, herra forseti, að öllu fjármagni sem lagt er í skattrannsóknir og til skattrannsóknarstjóra sé vel varið. Við höfum fyrir okkur nýlegar tölur sem birtust hér á síðasta þingi um árangurinn af skattrannsóknum og skatteftirliti. Það voru gífurlegar fjárhæðir. Mig minnir að á einu ári hafi skilað sér vegna skattrannsókna, um 500--600 millj. kr. Ég hygg að þessar 5 millj. kr. sem hér er lagt til að verði settar í þetta, muni fljótlega skila sér tvöfalt til baka ef ekki meira. Ég lít því á þessa tillögu sem sparnaðartillögu, herra forseti, en ekki útgjaldatillögu. Ég hefði gjarnan viljað sjá að settar væru til skattrannsókna 50 millj. en ekki 5 millj. Ég lít á þetta sem sparnaðartillögu. En ég hef hana nú ekki hærri en þetta vegna þess að ég er að vonast til þess að meiri hlutinn geti samþykkt svo lága fjárhæð til að auka við skattrannsóknir. Þetta samsvarar sennilega einu og hálfu stöðugildi og ég er sannfærð um að hv. formaður fjárln. er mér sammála um að ég mæli hér fyrir sparnaðartillögu. Ég vona að um hana geti náðst samstaða.

Seinni tillagan er útgjaldatillaga. ég neita því ekki að þar er um töluvert háar fjárhæðir að ræða. Brtt. þessa flyt ég ásamt hv. þm. Svavari Gestssyni, Kristínu Halldórsdóttur, Ögmundi Jónassyni og Rannveigu Guðmundsdóttur. Tillagan snertir leiguíbúðir. Við leggjum til verulega breytingu á þeirri fjárhæð sem er í fjárlagafrv. sem er 180 millj. og á að duga til að koma á fót 120 leiguíbúðum. Við leggjum til 720 millj. kr. aukningu, þannig að um verði að ræða 900 millj. Með þeirri fjárhæð og miðað við sambærilega útreikninga og þessar 180 millj. byggja á, erum við að tala um 600 leiguíbúðir sem hægt væri að kaupa eða byggja á næsta ári ef um þessa tillögu næðist samstaða á hv. Alþingi.

Nú fyndist mér ekki óeðlilegt að hæstv. ráðherra kæmi hér í ræðustól og spyrði hvar hann eigi að taka peninga fyrir þessum 720 millj. sem þingmaðurinn er hér að mæla fyrir. Ég veit, herra forseti, að ég og hæstv. fjmrh. erum ekki sammála um hvað hægt sé að taka inn í fjármagnstekjuskatti. Ég hygg því að það þjóni kannski litlum tilgangi að tefja tíma þingsins með því að ég og hæstv. ráðherra deilum hér um skoðanir okkar á fjármagnstekjuskattinum eða hvað taka megi inn í ríkissjóð miðað við mismunandi framkvæmd á honum. Ég skal því ekki tefja tímann til að rifja það upp. Við höfum farið í gegnum það og ljóst að við erum ekki sammála. Við vorum það ekki og ég geri ekki ráð fyrir, herra forseti, að það hafi breyst á þeim mánuði eða svo, síðan við ræddum þetta hér í þingsal.

Þær 1.300 millj. sem skiluðu sér vegna fjármagnstekjuskatts á þessu ári teldi ég, herra forseti, að mundu skila 700 millj. til viðbótar, sem er mjög lágt mat og ég held það sé miklu hærri upphæð sem mundi skila sér inn í ríkissjóð, miðað við þá útfærslu sem við í stjórnarandstöðunni höfum lagt til. Að auki bendi ég á að minni hlutinn leggur til að tryggingagjald verði hækkað og þannig aflað 1,5 milljarða kr. viðbótartekna. Ef ég skil málið rétt er svigrúm, a.m.k. um 500 millj. innan þeirrar tekjutillögu sem minni hlutinn mælti hér fyrir.

Herra forseti. Út af fyrir sig væri hægt að halda mjög langa ræðu um þörfina á leiguíbúðum. Við fórum í gegnum utandagskrárumræðu um það fyrir ekki löngu síðan þar sem fram kom að þörfin fyrir leiguíbúðir --- og það var ítarlega rökstutt af mér og hv. þm. Ögmundi Jónassyni --- væri sennilega um 1.200 íbúðir. Ég tel að þær séu nær 1.500. Þar af eru í Reykjavík um 700 fjölskyldur sem bíða eftir leiguíbúðum. Einnig kom fram að áhrifin af nýja húsnæðiskerfinu kölluðu á um 210 íbúðir í Reykjavík. Talið var ljóst að í brýnni þörf væru 470 manns hér í Reykjavík. Það er fyrir utan skort á leiguíbúðum á stærri stöðunum eins og Kópavogi, Akureyri og Hafnarfirði en þar bíða nokkur hundruð manns. Nefndur var langur biðlisti hjá Öryrkjabandalaginu, þar voru um 270 manns á biðlista og hjá Félagsstofnun stúdenta voru einhverjir tugir. Því var lýst yfir af framkvæmdastjóra Félagsbústaða að húsnæðisneyð væri í borginni. Þessu viljum við mæta. Það hefur oft verið sagt úr þessum ræðustól að við viljum mæta þörfum þeirra sem verst standa í þjóðfélaginu, þörfum þeirra tekjulægstu. Af þeim sem gerst til þekkja er vitað að þeir sem helst njóta góðs af félagslega kerfinu eru einstæðir foreldrar sérstaklega, öryrkjar, námsmenn, aldraðir og tekjulágar, barnmargar fjölskyldur.

Þess vegna tel ég, herra forseti, nauðsynlegt að bregðast við í þessu máli. Ég spyr: Hvar á þetta fólk höfði sínu að að halla eftir að nýja íbúðalánakerfið hefur tekið við og einungis er gert ráð fyrir um 120 leiguíbúðum?

[19:30]

Herra forseti. Það sem ég fékk hér í hendurnar í dag hefði, ef við hefðum ekki haft svona knappan tíma, kallað á mjög ítarlegar umræður af minni hálfu. Málið er það alvarlegt að ég hefði, ef við hefðum haft meira svigrúm, herra forseti, óskað eftir utandagskrárumræðu um það mál. En ég vil þess í stað nota örfáar mínútur til að segja hvað hér er á ferðinni, vekja athygli á þessu máli. Þetta er mál sem ég mun auðvitað óska eftir að verði rætt á einn eða annan hátt strax þegar þing kemur saman. Það tengist reyndar þeirri brtt. sem ég flyt um að fjölga leiguíbúðum, þ.e. það sem hæstv. félmrh. hefur gefið út núna og er til þess að byggja greiðslumat í nýja Íbúðalánasjóðnum á. Og það vekur mér skelfingu og ótta.

Hæstv. félmrh. ætlar að miða greiðslumatið við framfærslukostnað samkvæmt bráðabirgðaviðmiðunarneyslu Ráðgjafarstofu. Það höfum við fyrir framan okkur í þessari bók sem heitir Skýrsla starfshóps um nýtt greiðslumat sem var gefið út í febrúarmánuði. Þar er gefin út tafla sem miðar við meðaltekjur þeirra sem búa í félagslegum eignaríbúðum. Miðað við að 28% af tekjum fólks megi renna í húsnæðiskostnað, þá er sýnt fram á að það vantar frá 30 upp í 60 þús. kr. til að þetta fólk geti staðið undir þessari greiðslubyrði. Nú kemur hæstv. ráðherra fram með þennan framfærslukostnað, þar sem hann gengur enn lengra en hér er gert og vil ég t.d. nefna eina tölu. Einstætt foreldri með tvö börn gefur Ráðgjafarstofan út að hafi til framfærslu 77 þús. kr. sem þýðir að 61 þús. kr. vanti upp á að það standist greiðslumat miðað við 28%. Nú ætlar hæstv. ráðherra að lækka framfærslukostnað einstæðra foreldra með tvö börn þannig að hann verði ekki 85 þús. heldur 57 þús. Það lækkar hann bara sisvona, herra forseti, um 30 þús. og segir: Einstætt foreldri með tvö börn á að láta sér nægja til framfærslu 57 þús. kr. og má eyða því sem það hefur umfram það í greiðslubyrði lána. Þetta þýðir með öðrum orðum, á mannamáli, herra forseti, að það er verið að hækka greiðslumatið í nýja Íbúðalánasjóðnum að því er varðar húsbréf á almennum markaði og að því er varðar félagslega íbúðakerfið upp í 30--50% og segja við fólk: Þið megið eyða 30--50% af ykkar tekjum til að greiða niður afborganir og lán af ykkar húsnæði.

Ég vil minna á í því sambandi að þegar húsbréfakerfinu var komið á, þá fórum við fyrstu vikurnar með matið upp í 30% en það stóð aðeins yfir í nokkrar vikur af því við sáum að það mundi leiða til holskeflu gjaldþrota og fórum því með þessi 30% niður í 18%. Nú er okkur boðið upp á greiðslumat sem getur þýtt 30--50%. Hér stendur hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir sem hefur unnið að undirbúningi að því að koma upp þessu nýja kerfi þannig að hún gæti upplýst okkur um það kannski hvort ég sé ekki að fara með rétt mál, að það séu 30--50% af tekjunum sem megi fara til að greiða niður lánin. Hv. þm. Ögmundur Jónasson þekkir vel Sigtúnshópinn frá 1983. En ég spái því að innan örfárra vikna, mánaða eða missira muni verða hér holskefla af gjaldþrotum ef þetta á að ganga eftir.

Og af hverju er hæstv. ráðherra að þessu, herra forseti? Hann er að nafninu til að reyna að smeygja öllum sem voru í félagslega íbúðakerfinu inn í nýja Íbúðalánasjóðinn nú rétt fyrir kosningar og það er engum greiði gerður með því vegna þess að þetta fólk mun ekki standa undir greiðslumatinu. Það þarf því auðvitað að búa sig undir stórfelld greiðsluerfiðleikalán á komandi mánuðum eða missirum ef þetta gengur eftir.

Þessu vildi ég halda til haga núna þegar við ræðum fjárlögin við lokaafgreiðslu þeirra og ítreka, herra forseti, að mér finnst hér vera stórmál á ferðinni og ef við værum ekki á lokadegi eða dögum þessa þinghalds þá mundi ég kalla eftir langri og ítarlegri umræðu um það og er auðvitað skapi næst að halda langa ræðu af því að ég hef ótakmarkaðan ræðutíma núna varðandi þennan þátt málsins. Svo alvarlegt finnst mér þetta mál vera. En málið verður tekið upp þegar þing kemur saman að loknu jólaleyfi. Látið skal hér við sitja að flytja þessa aðvörun um það sem í stefnir núna um mánaðamótin eða áramótin við þær breytingar sem verða þegar félagslega íbúðakerfið verður lagt niður og nýr Íbúðalánasjóður tekur við.

Herra forseti. Ég stóð hér upp aðallega til að mæla fyrir þessum brtt., þessari um leiguíbúðirnar og lítilli tillögu sem ég flyt um 5 millj. kr til skattrannsókna og ítreka það, herra forseti og veit að hæstv. ráðherra fjármála er mér sammála, að það er ekki hægt að kalla slíka tillögu annað en sparnaðartillögu sem mun skila sér margfalt aftur inn í ríkissjóð.