Landmælingar og kortagerð

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 20:07:41 (2795)

1998-12-19 20:07:41# 123. lþ. 47.3 fundur 370. mál: #A landmælingar og kortagerð# frv. 132/1998, GÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 123. lþ.

[20:07]

Guðni Ágústsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það jaðrar við að ég verði að bera af mér sakir. Ég var ekki að henda gaman að þessu máli. (Gripið fram í: Þú varst að gera grín að fólkinu.) Það var langt frá því. Ég spurði hv. þm., þegar hann sagði að það hefði skort lagastoð, um aðrar undirstofnanir frá ráðuneytum, hvernig þær væru staddar og hvort þær væru ólöglega staðsettar. Ég spurði hvort Siglingamálastofnun hefði verið flutt ólöglega. (LB: Er hann einhver hæstiréttur? Á hann að svara því?) Nei, en mér leyfist að spyrja hv. þm. sem hér var að tala. (Gripið fram í: Heitir þetta andsvör?) Þetta heitir andsvör. Hv. þm. fullyrti að það vantaði lagastoð. Ég spurði um aðrar undirstofnanir sem staðsettar eru úti á landi og hvert álit hans væri á því. Ég fjallaði ekkert um fólkið og ég skil vel þær tilfinningar sem oft eru í kringum svona mál. Það þarf að standa mjög vandlega að þeim á allan hátt. Ég efast um að dómur eins og sá sem féll á dögunum standist Evrópurétt. Ég hygg að hvergi í Evrópu hafi (Gripið fram í.) ráðherrar ekki heimildir til að flytja til fyrirtæki innan landsins. (Gripið fram í.)

Ég tek fullt mark á Hæstarétti og legg mikið upp úr þrískiptingu valdsins og réttlátum dómum. Ég var aðeins að spyrja hv. þm. Ögmund Jónasson, sem hefur haft hljótt um sig meðan menn kalla látlaust fram í ræðu mína, um það hvort hann teldi að þau fyrirtæki sem staðsett væru úti á landi og væru undirstofnanir ráðuneyta væru þar ólöglega sett og hvort hann teldi að Siglingamálastofnun, sem flutt var yfir í Kópavog, hefði verið ólöglega flutt. Þetta voru spurningar mínar. Ef þær mega ekki falla við þessar umræðu þá er nú þingræðið að verða skrítið. (SvG: Þú ert forseti.) Ég geri mér grein fyrir því að hér situr forseti sem starfar nú, ég er hér í mínum þingmannsrétti, hv. þm. Svavar Gestsson. (Gripið fram í.) Þú hefur málfrelsi þó þú sitjir í sætinu þínu.

(Forseti (ÓE): Muna eftir ákvæðum þingskapa um ávörp úr ræðustóli.)