Landmælingar og kortagerð

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 20:34:46 (2803)

1998-12-19 20:34:46# 123. lþ. 47.3 fundur 370. mál: #A landmælingar og kortagerð# frv. 132/1998, StB
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 123. lþ.

[20:34]

Sturla Böðvarsson:

Herra forseti. Hér er til umræðu og meðferðar nokkuð sérstakt mál sem er alveg ljóst að þarfnast afgreiðslu, enda sýnist mér að þingmenn í öllum flokkum hafi út af fyrir sig tekið því allvel að láta það yfir sig ganga að ljúka afgreiðslu þessa máls með þeim hætti sem okkur er nauðsynlegt að gera. Og fyrir það er vissulega ástæða til að þakka, ekki síst vegna þess að það er lítill tími hér á þessum síðasta sólarhring fyrir jólahlé.

Dómur liggur fyrir og ég sé ekki að neitt sé óeðlilegt við það að Alþingi bregðist þannig við að hægt sé að segja sem svo að gengið sé til jólahátíðar hvað þetta mál varðar þannig að þar sé hreint borð.

Ég verð þó að segja að mér finnst nokkur ósanngirni hafa komið fram. Ég skil að menn leggja sína merkingu í þetta mál og það er ekkert óeðlilegt við það. Öll sjónarmið hafa komið fram og það er nauðsynlegt. En ég lít svo á að hæstv. ráðherra umhverfismála hafi verið í góðri trú. Það er ekki óvanalegt að við alþingismenn fáum misvísandi greinargerðir frá lögmönnum. Það hefur gerst í þessu tilviki og ríkisstjórnin hefur upplifað það í þessu máli að fá í hendur misvísandi greinargerðir og það er eins og hvert annað hundsbit, ef svo mætti segja, sem verður að sætta sig við. En ég tel að hæstv. umhvrh. hafi verið í góðri trú, viljað ganga til þessa verks sem allir flokkar hafa viljað stuðla að, sem er að reyna að jafna byggðina í landinu með því að dreifa atvinnustarfseminni sem mest um landið. Ég held að í rauninni hafi allir flokkar tekið þátt í þessu með einum eða öðrum hætti, enda liggur það fyrir að búið er að flytja Skógræktina til Egilsstaða, það er búið að flytja veiðistjóraembættið norður til Akureyrar o.s.frv., þannig að við höfum verið þátttakendur í þessu. Ég held því að það sé fullkomlega eðlilegt að við ljúkum þessu þingi með því að afgreiða það frv. sem hér liggur fyrir og sem ég styð heils hugar.