1999-03-03 18:23:38# 123. lþ. 77.13 fundur 508. mál: #A tengsl heilbrigðisstétta við rekstrarleyfishafa gagnagrunns á heilbrigðissviði# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi HG
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[18:23]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég ber fram fsp. til hæstv. heilbrrh. um tengsl heilbrigðisstétta við rekstrarleyfishafa gagnagrunns á heilbrigðissviði. Fsp. er í tveimur liðum svohljóðandi:

,,1. Er heilbrigðisráðuneytið undir það búið að útiloka frá aðild að undirbúningi og framkvæmd við gerð gagnagrunns á heilbrigðissviði alla þá starfandi lækna og aðra innan heilbrigðisstétta sem starfa við heilbrigðisstofnanir eða sjálfstætt og kunna að hafa bein eða óbein hagsmunatengsl við væntanlegan rekstrarleyfishafa gagnagrunnsins, sbr. lög nr. 139/1998?

2. Mun ráðuneytið upplýsa almenning um hvaða læknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn hafna að afhenda trúnaðarupplýsingar um sjúklinga sína í gagnagrunn á heilbrigðissviði þannig að sjúklingur viti fyrir fram hvers vænta megi í því efni (undanskilið er að sjúklingurinn geti sjálfur óskað skriflega eftir þátttöku í grunninum)?``

Virðulegur forseti. Hér er um að ræða lykilatriði varðandi persónuvernd í sambandi við söfnun upplýsinga inn í miðlægan gagnagrunn og aðstöðu einstaklinga til þess að gæta réttar síns. Persónuvernd er eitt af því sem harðast var gagnrýnt, a.m.k. af þeim sem hér talar, í sambandi við frv. á sínum tíma og nú lögin um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði.

Virðulegur forseti. Ég get í þessu sambandi vísað til erindis sem Mannvernd setti fram og kynnti fyrir hæstv. forsrh. nýlega og vafalaust einnig fyrir hæstv. heilbrrh. sem ákveðið sáttaboð í þeim hörðu deilum sem enn eru uppi um þessa lagasetningu og ekki síst að teknu tilliti til persónuverndar. Þar er einmitt vikið að hinu viðkvæma trúnaðarsambandi milli læknis og sjúklings, sem einnig varðar að sjálfsögðu aðrar heilbrigðisstéttir sem í hlut gætu átt. Vegna þessa máls og þessarar stöðu er fsp. hér fram borin. Ég vænti skýrra svara frá hæstv. ráðherra.