Raforkuver

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 12:41:47 (4496)

1999-03-09 12:41:47# 123. lþ. 82.17 fundur 471. mál: #A raforkuver# (Vatnsfells-, Búðarháls- og Villinganesvirkjanir) frv. 48/1999, Frsm. minni hluta HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[12:41]

Frsm. minni hluta iðnn. (Hjörleifur Guttormsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Er þetta framtíðin? Er þetta hin uppvaxandi kynslóð sem ætlar að róa fyrir Samfylkinguna? Eru það þessar raddir sem við eigum von á að heyra framvegis þegar spurningin er um brennandi vandamál mannkynsins, sem er viðfangsefni samfélags þjóðanna og hefur verið tilefni til hverrar ráðstefnunnar á fætur annarri frá 1972 að telja á vegum Sameinuðu þjóðanna, brennandi vandamál vegna umhverfismála og félagsmála sem tengjast núverandi framleiðsluferli og þar á meðal endurnýjun mannsins, þ.e. fjölgun jarðarbúa, þurrð auðlinda, sem verður ekkert stungið undir stól með tilvitnun í að Malthus hafi brugðist og ekki verið framsýnn? Ég skil vel að mikill áhyggjusvipur sé á þeim sem eru komnir svona nærri miðjum aldri og róa fyrir Samfylkinguna að heyra frá upprennandi forustumanni í flokknum viðhorf af þessum toga og tilvísun í tækniframfarir. Virðulegur forseti. Ég hef hlýtt með athygli á hv. þm. sem hér talaði, í ýmsum málum, og ég verð að segja að síðasta innlegg hans finnst mér vera nánast ótrúlegt og stinga í stúf við margt ágætt sem frá hv. þm. hefur komið.

Það er nú svo að ekki þarf að leita langt til þess að sjá feigðarboðana í þeirri vegferð sem mannkynið er á.