1999-03-11 02:26:49# 123. lþ. 84.28 fundur 41. mál: #A undirritun Kyoto-bókunarinnar# þál., Frsm. 2. minni hluta HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[26:26]

Frsm. 2. minni hluta umhvn. (Hjörleifur Guttormsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er aldeilis kynlegur lestur sem hér er yfirhafður. Veit ekki hv. þm. um staðreyndir mála? Veit ekki hv. þm. um það að ef við værum ekki að taka ákvarðanir um orkufrekan iðnað í vaxandi mæli, stig af stigi, þá væri hér ekki við neinn vanda að fást að uppfylla þær skuldbindingar sem Ísland mundi taka á sig sem aðili að Kyoto-bókuninni. Þá væri ekki við vandamál að fást í sambandi við fyrsta skrefið en til að ná lengra þurfum við auðvitað að þrýsta niður losun í atvinnuvegum okkar almennt og samgöngum. Það er alveg ljóst en ætli það verði auðvelt verk að fá almenna þátttöku í slíku ef menn ætla að láta einn þátt atvinnulífsins leika lausan? Það leggst allt saman og leiðir til þess að við stöndum ekki við skuldbindingarnar og það er ekkert smáræði á ferðinni. Það er ekkert hatur á orkufrekum iðnaði sem slíkum sem endurspeglast í viðvörunum mínum. Það er einfaldlega ábending um þá staðreynd að megnið af vexti í losun gróðurhúsalofttegunda kemur frá iðnaðarferlum orkufreks iðnaðar. Þegar hv. þingmenn, virðulegur forseti, tala fyrir stóriðju á Alþingi, hvort sem það er úr ríkisstjórn eða Samfylkingu, eru þeir að gefa markmiðunum frá Kyoto langt nef. Það er það sem er að gerast hér hjá hv. þm. sem hefur uppi siðferðilegar brýningar, á hinn bóginn styður hann ákvarðanir sem leiða til þess að ekkert mark er á orðum og yfirlýsingum takandi. Markmiðin eru það sem máli skipta, segir hv. þm. Markmiðin eru það sem máli skipta um leið og teknar eru ákvarðanir sem leiða ekki aðeins til þess að setja markmiðin í hættu heldur stefna langt, langt yfir þau svo við blasir öllum sem sjáandi eru.