1999-03-11 02:56:45# 123. lþ. 84.29 fundur 528. mál: #A náttúruvernd# (heildarlög) frv. 44/1999, HG
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[26:56]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Við fjöllum um mikilsvert mál, frv. til laga um náttúruvernd og ég stend nú í öðrum sporum en fyrir líklega fjórum árum síðan, þegar síðast voru gerðar breytingar á lögum um náttúruvernd, sem að formi til voru endurskoðun laganna í heild, raunar ný löggjöf, en fjallaði fyrst og fremst um stjórnunarþátt náttúruverndarlaga þannig að þá var gerð mjög takmörkuð endurskoðun. Við hv. þm. Kristín Halldórsdóttir sem við stóðum saman að nál. sem liggur fyrir í gögnum þingsins frá þeim tíma, gagnrýndum mjög breytingar sem horfðu í öfuga átt í vissum greinum sem ég ætla ekki að fara að rifja upp hér en sem, því miður, voru lögfestar þá þrátt fyrir andmæli okkar. Svo ég nefni sem dæmi akstur utan vega þá voru reglur þar að lútandi linaðar frá því sem áður var og margt fleira höfðum við að athuga við málið.

Nú er ég stuðningsmaður við afgreiðslu á frv., endurskoðun náttúruverndarlöggjafar, þó með fyrirvara sem hefur gleymst að því er virðist að setja undir nál. En það er eins og fleira sem getur gerst hér í dagsins önn þessa dagana. Ég ætla því að gera grein fyrir viðhorfum mínum til málsins og nefna fáein atriði sem ég vildi hafa séð öðruvísi. Þau væru nú allmörg ef öll væru talin.

Fyrst um aðstöðu nefndarinnar til að vinna málið. Hún var erfið. Við hv. þm. Kristín Halldórsdóttir berum raunar ábyrgð á því að mál þetta er hér yfirleitt til lokaafgreiðslu. Það gerðist líklega fyrir þremur vikum eða svo, á föstudegi, að málið var hér til 1. umr. og hæstv. umhvrh. var á leið til útlanda. Hæstv. heilbrrh. var hér viðstaddur og þrýsti mjög á um að koma sínum málum að en við hv. þm. Kristín Halldórsdóttir linntum ekki látum við forsetadæmið, hæstv. forseta, til að fá lokið 1. umr. á þessum föstudegi. Látið var undan þrábeiðni okkar um að ljúka umræðunni og þannig fór málið til nefndar. Hefði þetta ekki gerst þá er alveg dagljóst að við stæðum ekki nú og ræddum um lokaafgreiðslu frv.

[27:00]

Til þess að þetta mál fengi síðan framgöngu, á mjög knöppum tíma, þurfti auðvitað vilja allra í umhvn. til að þoka því til afgreiðslu út úr nefndinni. Allir lögðu það á sig þótt menn væru misjafnlega bjartsýnir í upphafi.

Ég hef ekki góða samvisku af afgreiðslu málsins og vil að það komi fram. Ég tel að vinnan í nefndinni hafi verið á mjög tæpu vaði, þ.e. á mörkum þess að vera nægilega vönduð. Ég vil ekki segja hana óþinglega en hún var ekki nægilega vönduð vegna þess hve okkur var þröngt skorinn stakkur með tíma. Ég hlýt og að nefna að útsending á þessu stóra máli til umsagnar var undir óhæfilega knöppum tímafresti að því er varðar óskir um svör. Enda fundu menn að því, þeir sem sendu inn umsagnir þrátt fyrir þennan knappa tíma sem ekki var einu sinni vika. Í besta falli gáfust 3--4 dagar til að skoða málið og senda inn viðbrögð. Margir sem sendu inn athugasemdir við frv. fundu að þessu.

Býsna margir brugðust við og fjölmargar athugasemdir bárust. Að sama skapi var erfitt fyrir nefndina að vinna úr athugasemdunum svo vel færi. Það verður að segjast að ég hef nokkra samvisku af því að ekki hafi verið ráðrúm til að leggja natni við að meta sjónarmið þeirra sem sendu okkur umsagnir. Þær hafa verið að berast eftir að vinnu lauk í nefndinni, a.m.k. hef ég séð eitthvað af slíkum erindum. Þetta vil ég nefna hér, samhengisins vegna, og ekki mála frv. í þeim einhliða björtu litum sem menn hneigjast til að gera á lokastigi afgreiðslunnar. Hér er margt að varast. Ég ákvað með tiltölulega stuttum fyrirvara með sjálfum mér, fyrir eindaga til afgreiðslu málsins, að leggjast á sveif með meiri hlutanum um að þoka málinu til afgreiðslu. Út af fyrir sig sé ég ekki eftir að hafa gert það

Hér er á ferðinni mál sem miklu varðar að fái framgang. Það hefði þurft að vera komið fyrr. Lögin frá 1996 gerðu ráð fyrir að endurskoðun væri lokið fyrir lok síðasta árs. Við hefðum þurft að vinna málið við þær aðstæður en þeir kostir voru ekki í boði. Út af fyrir sig get ég ekki sagt að hér sé um einhverja tímamótaafgreiðslu að ræða í náttúruverndarlöggjöf. Ég tel ofmælt að mála þetta frv. það sterkum litum, jákvæðum litum, þótt ég vilji ekki draga úr því að hér eru fjölmörg atriði, ef allt er talið, sem horfa til bóta. Það skal vissulega ekki vanmetið. En við skulum líka átta okkur á því að ýmislegt kann að skorta á. Eftir á að hyggja finnst mér helst almennt vanta inn í þetta, að löggjöfin um náttúruvernd sé sett dálítið skýrar inn í alþjóðlegt samhengi. Það þyrfti að vera í samhengi alþjóðlegra viðmiðana, alþjóðlegra hugtaka og leiðbeininga á þessu sviði í sambandi við ýmis grundvallarmál, m.a. úr Ríó-yfirlýsingunni. Þótt hér sé nefnd sjálfbær þróun þá skortir talsvert á að um þá samþættingu sé að ræða sem þyrfti að vera í tengslum við alþjóðlega þróun á sviði umhverfismála.

Að þessum orðum mæltum, virðulegur forseti, sem eru nú kannski stílbrot miðað við það sem hér hefur nú þegar verið mælt, ætla ég að stikla á örfáum atriðum málsins og reyna að hafa það ekki í löngu máli vegna þess hvernig á stendur.

Fyrst langar mig að koma inn á stjórn náttúruverndarmála sem fjallað er um í öðrum kafla. Ég ætla ekki fjalla hér um fyrsta kaflann, um markmiðin og skilgreiningar, en varðandi stjórn náttúruverndarmála hefur orðið breyting sem ástæða er til að vekja á athygli. Ég er ekki sannfærður um að á þessari stundu sé rétt að afnema stjórn yfir Náttúruvernd ríkisins. Það hefur orðið stefna, ef stefnu skyldi kalla, ráðuneytis umhverfismála að fella niður eða afnema stjórnir mikilvægra stofnana eins og Hollustuverndar ríkisins á síðasta ári og nú Náttúruverndar ríkisins og Náttúrufræðistofnunar Íslands. Þeir halda setja hins vegar stjórn yfir Landmælingar ríkisins. Þannig er samkvæmnin ekki alger í þessu efni. Ég hef miklar efasemdir um þetta. Ég tel með þessu skorta á hvort tveggja sem þyrfti að vera til staðar til að afnema þann öryggisventil sem stjórn yfir þessum stofnunum er. Ég tel þurfa viðbótartryggingu, þ.e. öflugra ráðuneyti og öflugri stofnanir, líka stjórnunarlega. Mér finnst röksemdinni um vald forstjóra stofnana of mikið beitt, þ.e. löggjöfin sem jók mjög á forstjóravaldið er ekki nógu sannfærandi.

Reynsla nágrannalanda, t.d. í Noregi þar sem menn hafa mjög öflugar stofnanir, er sú að menn hafa horfið að því að afnema stjórnir, t.d. stofnana á sviði umhverfismála. Það er hins vegar ekkert sambærilegt við það sem við höfum hér. Ég segi, því miður. Það skortir á stjórnsýsluhefðir sem þyrftu að ríkja. Enn vantar nokkuð á og á ég þar sérstaklega við það að stofnanirnar fái að starfa óháðar að langmestu leyti í faglegum efnum. Þær fá ekki að starfa óháðar inngripum af hálfu viðkomandi ráðuneytis. Ég hef m.a. í huga stofnun eins og Direktoratet for Naturforvaltning í Noregi, staðsett í Þrándheimi undir umhvrn. Ég hef rætt þessi efni við stjórnendur þar og sem áður bjuggu við stjórn. Stjórnin er farin en þeir segja: Við fáum að vera í friði fyrir inngripum ráðuneytisins á faglegu sviði. Við erum í rauninni mjög óháð.

Því miður held ég þess gæti um of, ég fullyrði að það á m.a. við Hollustuverndar ríkisins --- ég skal ekki segja hvernig samskiptum er háttað varðandi Náttúruvernd ríkisins --- að um sé að ræða kannski ekki allt of heppileg inngrip inn í störf viðkomandi stofnana af hálfu ráðuneytis. Ég geri ekki lítið úr því að þar þurfi að vera góð tengsl á milli og ráðuneytið þarf að geta haldið sínu til haga í samskiptunum en þetta nefni ég vegna þessarar formbreytingar í frv.

Um aðra þætti er kannski ekki margt að segja, nema að ég hefði talið þörf á miklu rækilegri endurskoðun á 11. gr. um náttúruverndarnefndir. Það hefur verið lagfært með brtt. en ég hefði viljað endurskoða nefnda- og samskiptakerfið þannig, sem skiptir mjög miklu, til að fá meiri styrk og skilvirkni í þetta kerfi. Ég tel raunar að við þyrftum svæðisbundnar nefndir sem hafi með mál að gera á stærri svæðum en nefndir sveitarfélaga. Við ætlum hins vegar ekki að lögbjóða neitt í sambandi við það, en tryggja bara góð tengsl. Ég ætla ekki að ræða það frekar en þetta er eitt af álitaefnunum.

Varðandi Náttúruverndarráð þá var það sjónarmið okkar hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur, sem vorum í minni hluta 1996, að lengra ætti ætti að ganga í að láta náttúruverndarþing kjósa til Náttúruverndarráðs en ekki hafa svo marga tilnefnda af hálfu ráðherra, eins og raun ber vitni. Hér hefur aðeins þokast í áttina, verið aukið við einum fulltrúa upp í fjóra sem náttúruverndarþing kýs óbundið en aðra skipar ráðherra. Tölunni hefur kannski verið breytt, ég hef það ekki alveg á hreinu, fjölda í ráðinu. Mér er sagt að fjöldinn sé óbreyttur en forminu vikið til.

Ein veruleg breyting náðist fram á lokadegi afgreiðslu málsins og hana hlýt ég að nefna, af því hún er þýðingarmikil. Nefndin í heild fellst á þá hugmynd, sem ég ber nokkra ábyrgð á, að Náttúruverndarráð fái eigin skrifstofu og a.m.k. einn fastráðinn mann. Ég tel þessa styrkingu Náttúruverndarráðs sem óháðs vettvangs til ráðgjafar fyrir ráðherra, reyndar ákveðinnar samvisku sem ráðið á að vera á sviði umhverfismála, afar þýðingarmikla. Náttúruverndarráð hefur síðan 1996, síðan formbreytingin var gerð --- Náttúruvernd ríkisins var sett á fót í stað Náttúruverndarráðs sem áður starfaði og hafði víðtækt stjórnsýsluhlutverk --- verið heimilislaust og handalítið og átt mjög örðugt með að rækja sínar skyldur. Þetta gefur kost á því að Náttúruverndarráð geti sinnt hlutverki sínu betur en áður. Hlutverk þess er margþætt skv. lögunum. Ég held að í öllu falli líði mér betur yfir því að sú breyting fékkst fram þó ekki hafi allt skilað sér inn í þetta sem maður vildi hafa séð.

Um almannaréttinn ætla ég ekki að fjölyrða. Þar eru verulegar breytingar. Veruleg vinna var af hálfu nefndarinnar lögð í að fara yfir málið og nefndin gerði allverulegar breytingar frá því sem var í frumvarpinu. Við skulum vona að þær hafi tekist sæmilega. Hér nefndi hv. þm. Magnús Árni Magnússon, ákveðna fyrirvara í sambandi við skógræktarsvæðið. Það er eitt af þeim álitaefnum sem uppi eru um almannaréttinn. Vissar breytingar, þó ekki stórvægilegar, voru teknar inn vegna sjónarmiða sem komu frá búnaðarþingi. Ég hefði talið að þar hefði þurft að bera saman bækurnar talsvert betur. Til þess þurfti meira ráðrúm en starfstími nefndarinnar leyfði.

V. kafli frv. er nýr og ber yfirskriftina Landslagsvernd o.fl. Þar kem ég að því sem vissulega gleður hjarta mitt dálítið. Inn frv. hafa verið teknar breytingar að verulegu leyti sem efnislega eru beint úr frv. um breytingar á náttúruverndarlöggjöf sem ég hef flutt ásamt tveimur öðrum hv. þm., Kristínu Ástgeirsdóttur og Gísla S. Einarssyni, á undanförnum nokkrum þingum. Þar er að finna þau ákvæði sem eru tekin inn í kaflann um landslagsvernd. Í aðalatriðum er kaflinn endurprentun á ákvæðum úr þessum tillögum. Sama gildir um VI. kaflann, Nám jarðefna. Efni hans er að verulegu leyti sótt í þær tillögur, sem mótaðar voru fyrir allnokkrum árum síðan og hafa verið lagðar fram þing eftir þing.

[27:15]

Hæstv. umhvrh. hefur stuðlað að því að þetta væri fellt hér inn og nefndin sem hv. þm. Kristín Halldórsdóttir m.a. átti sæti í. Hún átti hlut í því að vinna úr þessu efni og þessum hugmyndum mínum og fleiri sem hún hafði aðgang að að sjálfsögðu. Þarna er um veruleg nýmæli að ræða. Það sem kannski ekki minnstu varðar er landslagsverndin og efnisnámið, verulega hertar reglur að því leyti

Í sambandi við landslagsverndina hefur verið tekið inn ákvæði í 41. gr. um innflutning, ræktun og dreifingu lifandi lífvera. Segja má að þar sé að nokkru komið til móts við tillögur sem ég hef verið að klifa á hér frá því að elstu menn muna og ekki síst hæstv. forseti því að frv. hefur legið fyrir landbn. um að settar verði reglur um innflutning og notkun erlendra tegunda í landgræðslu sérstaklega. Mér sýnist að þessi ákvæði taki að nokkru leyti á því máli þó það sé ekki hliðstætt að öllu leyti.

Kaflinn um friðlýsingar og friðlýsingar náttúruminja er ekki mikið breyttur. Ég gleymdi hér, virðulegur forseti, áður en ég kem að þessu, að nefna að í IV. kafla um rekstur náttúruverndarsvæða, er grein með yfirskriftinni: Gjaldtaka o.fl. Hún hefur að geyma efnisþætti sem við hv. þm. Kristín Halldórsdóttir lýstum andstöðu við um gjaldtöku. Þetta er hér enn inni og er eitt af þeim atriðum sem ég staldra við. Það er hluti af mínum fyrirvara að ég er í raun ekki sáttur við þá stefnu sem þar er mörkuð en ég held að hún verði líka býsna erfið í framkvæmd þannig að það er kannski huggun harmi gegn að ekki verður auðvelt að framkvæma þetta eins og um það er búið í löggjöfinni eða frv. Þetta er óbreytt frá löggjöfinni 1996.

Varðandi friðlýstar náttúruminjar þá eru tekin inn ákvæði um friðlýsingu náttúrumyndana í hafi í 54. gr. Þar er ekki um hnútana búið eins og maður hefði viljað sjá það. Það er vald umhvrh. skert of mikið með því að áskilja samþykki sjútvrh. Hins vegar er auðvitað gott að leiðrétt var sú takmörkun sem var í upphaflegu frv. er varðaði gildissvið laganna en ég tel að það sé ekki eðlilegt að ætla sjútvrh. stöðvunarvald eins og hér er kveðið á um og hefði viljað sjá að látið yrði nægja samráð og að leitað væri álits Hafrannsóknastofnunar.

Nokkur atriði eru færð til betri vegar frá upphaflegu frv. með brtt. nefndarinnar um þennan kafla og ætla ég ekki tímans vegna að tína til einstaka þætti. Ég vil þó nefna t.d. að opnað er fyrir það að unnt er að gefa út náttúruverndar\-áætlun eða vinna hana oftar en á fimm ára fresti. Það er ekki lögbundið að takmarka það við fimm ár. Það má gera þéttar ef aðstæður bjóða og mat viðkomandi ráðherra er fyrir því. Það er líka skýrt kveðið á um að hvenær sem er er hægt að taka inn ný svæði á náttúruminjaskrá, en skilja mátti frv. svo að það væri aðeins heimilt á fimm ára fresti. Þá kemur auðvitað hin heildstæða útgáfa. En nú er þannig um hnúta búið að þetta er hægt hvenær sem er og það er skynsamlegt.

Virðulegur forseti. Að lokum vil ég nefna í efnislegum dansi mínum yfir frv. 44. gr. sem er að stofni til ævagömul í löggjöf um náttúruvernd, þ.e. frá frumlögunum frá 1956, má segja, og gekk aftur 1971, að ég hygg. Þó kann að vera að þetta sé frá löggjöfinni 1971. Ég held ég hafi rifjað upphaf 44. gr. við 1. umr. málsins, með leyfi forseta:

,,Hafi byggingar, skip í fjöru, bifreiðir, áhöld eða mannvirki, þar á meðal girðingar, verið skilin eftir í hirðuleysi og grotni þar niður svo að telja verði til lýta eða spjalla á náttúru er eiganda skylt að fjarlægja það.``

Það er gott ef þetta er ekki runnið úr penna Eysteins Jónssonar, fyrrv. formanns Framsfl. Hann benti mér á bátinn sem hann hafði í huga í fjörunni við Teigarhorn sem fékk hann til að taka inn orðalagið ,,skip í fjöru``. Það má enn sjá hryggjarstykkin úr bátnum þar, jafnvel enn í dag, eftir alla þessa áratugi, svo þau eru býsna endingargóð.

En í sambandi við eignir í hirðuleysi og eyðijarðir þá brugðum við á það ráð að bæta við löggjöfina nýju ákvæði til bráðabirgða sem áskilur eða ætlar sveitarstjórnum innan fárra ára að hafa gert úttekt á ástandi mála á sínu svæði hvað þetta varðar og það held ég að sé kannski leiðin til þess að gera þessi ákvæði virkari en þau hafa verið til þessa. Síðan fengi Náttúruvernd ríkisins skýrslu um málin.

Virðulegur forseti. Nú er ég trúlega farinn að æra óstöðugan með yfirferð minni. Ég stend að sjálfsögðu við þetta mál og get a.m.k. óskað hæstv. ráðherra til hamingju með að fá frv. væntanlega lögfest fyrir lok þingsins og áður en hæstv. umhvrh. lætur af starfi, þingmennsku og ráðherradómi. Það er vissulega ánægjulegt og áreiðanlega fyrir hæstv. ráðherra að það tókst þrátt fyrir nauman frest og takmarkaða trú hæstv. ráðherra eins og málum var komið þegar það kom hér fyrir þingið, að ljúka vinnu við þetta frv. til nýrra laga um náttúruvernd. Við skulum vona, þrátt fyrir þá fyrirvara sem ég hef nefnt og erfiðar aðstæður við vinnslu frv., að við sem leggjum það fyrir þingið til afgreiðslu höfum ekki gert okkur sek um stórafglöp.