Ferill 77. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 77 — 77. mál.



Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 55/1998, um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)



1. gr.


    Í stað orðanna „1. nóvember 1998“ í 2. mgr. 34. gr. laganna kemur: 1. janúar 1999.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með lögum nr. 89/1997 voru gerðar breytingar á lögum nr. 93/1992, um meðferð sjávar­afurða og eftirlit með framleiðslu þeirra, til samræmis við samning sérfræðinga EFTA-ríkjanna og framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins frá nóvember 1996 um að fella inn í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið samræmdar heilbrigðisreglur um dýr og dýra­afurðir. Samkvæmt samningnum tekur Ísland einungis upp þær gerðir sem varða fisk og fiskafurðir en undanþága varðandi lifandi dýr og dýraafurðir helst óbreytt. Lögunum var ætlað að taka gildi 1. nóvember 1997. Gildistökunni var frestað til 1. nóvember 1998 með lögum nr. 114/1997, um breytingu á lögum nr. 89/1997, um breytingu á lögum nr. 93/1992, um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra. Eins og rakið er í athugasemdum með frumvarpi til laganna var frestunin nauðsynleg þar sem afgreiðsla samningsins tafðist hjá framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins. Með lögum nr. 55/1998, um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, voru lög nr. 93/1992, um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra, ásamt lögum um breytingu á þeim felld úr gildi. Ákvæði til lögfestingar á umræddum samningi er nú að finna í IV. og V. kafla laga nr. 55/1998. Í samræmi við lög nr. 114/1997 er í 2. mgr. 34. gr. laganna kveðið á um að IV. og V. kafli laganna skuli taka gildi 1. nóvember 1998. Samningurinn var samþykktur í sameiginlegu EES-nefndinni 17. júlí sl. með gildistöku 1. janúar 1999. Því er nauðsynlegt að fresta gildistöku IV. og V. kafla laganna svo að samræmi sé milli gildistökutíma samningsins og gildistöku ákvæða IV. og V. kafla laga nr. 55/1998.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 55/1998,
um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að fresta gildistöku IV. og V. kafla laga nr. 55/1998 um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða um tvo mánuði, eða til 1. janúar 1999. Er það gert til samræmis við gildistöku samnings milli EFTA-ríkjanna og framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins um samræmdar heilbrigðisreglur um dýr og dýraafurðir. Sá samningur tekur til sömu þátta og ákvæði IV. og V. kafla laga nr. 55/1998.
    Verði frumvarpið að lögum, mun það ekki hafa áhrif á útgjöld ríkissjóðs.