Ferill 134. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 134  —  134. mál.




Frumvarp til laga



um breytingar á lögum um mannanöfn og hjúskaparlögum.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)



I. KAFLI


Breyting á lögum um mannanöfn, nr. 45 17. maí 1996.


1. gr.


    Í stað orðanna „16 ára“ í 2., 3. og 4. mgr. 13. gr. laganna kemur: 18 ára.

2. gr.

    Í stað orðanna „16 ára“ í 1. og 8. mgr. 14. gr. laganna kemur: 18 ára.

3. gr.

    Í stað orðanna „16 ára“ í 16. gr. laganna kemur: 18 ára.

II. KAFLI
Breyting á hjúskaparlögum, nr. 31 14. apríl 1993.
4. gr.

    Við 2. málsl. 7. gr. laganna bætist: enda liggi fyrir afstaða forsjárforeldra til hjúskapar­stofnunarinnar.

III. KAFLI
Gildistaka.
5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í dómsmálaráðuneytinu, en með því eru lagðar til breytingar á lögum um mannanöfn, nr. 45/1996, og hjúskaparlögum, nr. 31/1993. Breytingum þessum er ætlað að færa efni þessara laga til samræmis við hækkun sjálfræðisaldurs úr 16 árum í 18 ár með lögræðislögum, nr. 71/1997.
    Frumvarp þetta er samhljóða tillögum lagaskoðunarnefndar dómsmálaráðherra, sem skipuð var vegna hækkunar sjálfræðisaldurs, en nefndin skilaði tillögum sínum í nóvember 1997. Nefndin rökstuddi tillögur um breytingu á lögum um mannanöfn í skýrslu sinni einkum með því að forsjárforeldrar eigi rétt á og beri skylda til að velja barni sínu nafn við upphaflega nafngjöf og verði því að teljast eðlilegt að þeir skuli einnig leggja fram umsókn um breytingu á nafni barnsins. Breytingin á hjúskaparlögum er hins vegar reist á því að rétt sé að forsjár­menn komi að svo mikilvægri ákvörðun sem stofnun hjúskapar er. Gera verður ráð fyrir að ráðuneytið veiti ekki leyfi samkvæmt þessu ákvæði gegn vilja forsjármanna nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi. Má þar t.d. nefna að stúlka sé barnshafandi eða afstaða foreldra byggist á ómálefnalegum rökum.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:



Umsögn um frumvarp til laga um breyting
á lögum um mannanöfn og hjúskaparlögum.

    Í frumvarpinu felast breytingar á lögum um mannanöfn og hjúskaparlögum til samræmis við hækkun sjálfræðisaldurs. Ekki verður séð að frumvarpið hafi í för með sér kostnað fyrir ríkissjóð verði það óbreytt að lögum.