Ferill 40. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 162  —  40. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Svanfríðar Jónasdóttur um skipstjórnarnám.

     1.      Hversu margir stunda nú skipstjórnarnám á 1., 2. og 3. stigi og hvar fer það nám fram?
    Engir nemendur stunda nú nám á 1. stigi skipstjórnarnáms vegna þeirra breytinga sem gerðar hafa verið á náminu. Sjávarútvegsbraut tók til starfa í haust og tæplega 30 nemendur stunda nám á henni. Þessir nemendur munu síðan hefja nám á 1. stigi að loknu námi á sjávar­útvegsbraut.
    Alls 67 nemendur stunda nám á 2. stigi skipstjórnarnáms og fer námið fram í þremur skól­um. Í Stýrimannaskólanum í Reykjavík eru 34 nemendur, við Verkmenntaskólann á Akureyri, sjávarútvegssviði á Dalvík, eru 16 nemendur og í Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum eru 17 nemendur.
    Skipstjórnarnám til 3. stigs er einungis í boði í Stýrimannaskólanum í Reykjavík og nú eru sex nemendur í því námi.

     2.      Hversu margir hafa lokið skipstjórnarnámi undanfarin tíu ár, skipt eftir stigum og skólum?
    Við Stýrimannaskólann í Reykjavík hafa 365 nemendur lokið 1. stigi undanfarin tíu ár, 322 hafa lokið 2. stigi og 67 þriðja stigi. Við Verkmenntaskólann á Akureyri, sjávarútvegs­sviði á Dalvík, hafa 126 nemendur lokið 1. stigi og 114 2. stigi undanfarin tíu ár. Við Fram­haldsskólann í Vestmannaeyjum (áður Stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum) hafa 102 lokið 1. stigi og 105 2. stigi undanfarin tíu ár.

     3.      Byggjast breytingar á skipstjórnarnámi á könnun um mannaflaþörf á næstu árum? Hvað var lagt til grundvallar og hvað er reiknað með að mikil þörf verði fyrir fólk með skip­stjórnarmenntun á næstu árum?
    Við endurskoðun á skipstjórnarnáminu var fyrst og fremst haft í huga innihald námsins, þ.e. hvaða þættir þyrftu að vera í náminu svo að það fullnægði nútímakröfum til skipstjórnar­manna. Einnig að tekið sé tillit til þeirra alþjóðlegu samninga og samþykkta sem Ísland á aðild að.
    Ráðuneytið hefur ekki látið fara fram könnun á mannaflaþörf í skipstjórnarstörfum á næstu árum. Hins vegar hefur framboð á skipstjórnarnámi getað annað mun fleiri nemendum en sótt hafa í það á undanförnum árum.

     4.      Er þess gætt við þær breytingar sem eru að verða á skipstjórnarnámi að menntunin verði viðurkennd á EES-svæðinu?
    Við endurskoðun námsins er stuðst við svokallaða STCW-samþykkt en þar eru settar fram kröfur um menntun og þjálfun skipstjórnarmanna og vélstjóra af Alþjóðasiglingamálastofnun­inni, IMO. Þar sem þessum alþjóðlegu reglum er fylgt mun námið verða viðurkennt á Evrópska efnahagssvæðinu og víðar.