Ferill 197. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 214  —  197. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um að setja á stofn vestnorrænan menningarsjóð.

Flm.: Ísólfur Gylfi Pálmason, Ásta R. Jóhannesdóttir, Svavar Gestsson,


Árni Johnsen, Ólafur G. Einarsson, Guðný Guðbjörnsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að setja, í samvinnu við landstjórnir Færeyja og Grænlands, á stofn vestnorrænan menningarsjóð í því skyni að efla samstarf landanna þriggja í menningarmálum.

Greinargerð.


    Vestur-Norðurlöndin, Ísland, Færeyjar og Grænland, eiga afar margt sameiginlegt. Saga og menning þessara landa er að mörgu leyti samofin og á þeim grunni byggist vestnorræn samvinna. Löndin þrjú hafa í tímans rás átt margvíslega menningarlega samvinnu, sem hefur oft leitt til þess að þjóðirnar hafa nálgast hver aðra á öðrum sviðum og af því vaxið blómlegt samstarf í ólíkum geirum. Enn fremur hefur þessi sameiginlegi menningararfur aukið sam­kennd á milli landanna þriggja, sem er grunnurinn að samstarfi þjóðanna.
    Alþjóðavæðing og samruni þjóðríkja hefur aukið þörfina á fjölbreytilegu samstarfi í menn­ingarmálum Vestur-Norðurlanda. Smærri menningarheimar eiga undir högg að sækja í hnatt­væðingu stjórnmála-, efnahags- og menningarlífs. Ein forsenda þess að sameiginleg menning Vestur-Norðurlanda nái að styrkja stöðu sína og eflast í framtíðinni er að sköpuð verði betri skilyrði fyrir menningarlega samvinnu.
    Vestnorræna ráðið samþykkti á ársfundi sínum í júní sl. að stofnsetning sérstaks vestnor­ræns menningarsjóðs sé leið að því marki sem muni vafalítið efla og þróa menningarsamstarf landanna. Tekjur sjóðsins skulu vera árgjöld aðildarlandanna, og skulu þau ákveðin í fjárlög­um í löndunum þremur. Einnig skal kannað hvort fyrirtæki á Vestur-Norðurlöndum séu reiðu­búin að leggja sjóðnum til fé.
    Úthlutunarreglur sjóðsins skulu ákvarðaðar af menntamálaráðherrum landanna þriggja, í samráði við Vestnorræna ráðið. Sjóðurinn skal styrkja verkefni m.a. á sviði menntamála, rannsókna og skóla- og íþróttasamvinnu. Stjórn sjóðsins skulu skipa fulltrúar frá Vestnorræna ráðinu, landstjórn Færeyja, landstjórn Grænlands og ríkisstjórn Íslands.